Haltu þig við bílaiðnaðinn, stelpa

eftir Ragnheiður Björk Halldórsdóttir

“Ha? Þú? Í verkfræði? Svona sæt og ljóshærð stelpa? Það getur ekki verið! Þú ert allt of sæt til þess!”

“Hvað ertu að reyna að segja?” spurði ég athugul. Ég velti því fyrir mér hvort mér hafði verið troðið inn í þröngsýnan kassa steríótýpunnar. Fyrst ég er ljóshærð stelpa, er ég þá sjálfkrafa heimsk? Hvernig ætti ég að geta komist í gegnum krefjandi “karlanám”? Fyrir að verða tveimur árum lagði ég land undir fót. Ferðinni var heitið í mekka bílaiðnaðarins, Munchen í Þýskalandi. Áður hafði ég stundað nám í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands og fengið þar smjörþefinn af því annars vegar hvernig massaframleiðsla í bílaiðnaðnum lítur út og hins vegar þeirri spennandi vinnu sem tengist nýsköpun í bílaiðnaðinum. Þýskaland hafði aldrei heillað mig en vaxandi áhugi minn á bílaiðnaðnum var óneitanlegt aðdráttarafl. Blind af áhuga flaug ég yfir Atlantshafið án þess að gera mér grein fyrir því að þar myndi ég í fyrsta skiptið á ævinni verða vör við kynjamisrétti og kvenfyrirlitningu af einhverju tagi.

“Vá! Það voru engar svona sætar stelpur í verkfræði þegar ég var í námi!”

Ég velti því fyrir mér hvort manninum væri alvara. Af hverju hafði hann svona mikla þörf fyrir því að benda mér á að ég væri stelpa? Af hverju sagði hann ekki bara “Hey, vá, ég líka!” Ævintýrið úti hófst með eins árs skiptinámi þar sem ég tilheyrði þeim rúmlega 10% hópi nemenda vélaverkfræðideildar Tækniháskólans í Munchen sem voru kvenkyns. Þess má til gamans geta að á tíma mínum við Háskóla Íslands var hlutfall kvenna í verkfræði um 25%. Ófáum sinnum átti ég því samræður við samnemendur mína þess efnis að þetta hlutfall væri ekki með öllu byggt á áhuga en meira að segja í nútímalegu samfélagi fá stelpur dulin skilaboð um að þær eigi ekki heima í erfiðum og tæknilegum “stráka-greinum”. Heima fara þessi skilaboð minnkandi en miðað við hugarfar þessa manns var mér ljóst að þýskar stelpur þurfa að berjast við mikið íhaldssamari viðhorf en ég þurfti. Vandamálið liggur því mun frekar í þeim skilaboðum sem við sendum ungu fólki og þá sérstaklega stelpum. Heppilega heyrðust skilaboð foreldra minna manna hæst og stefndi ég því með hraðbyr á verkfræði eftir menntaskóla.

“Þú þarft ekki að hafa áhyggjur á því að fá vinnu sem verkfræðingur, þú ert stelpa. Þú munt fá vinnu án þess að hafa fyrir því.”

Mér datt bara í hug ein útskýring á þessari staðhæfingu. Líklegt taldi ég að honum eða kollega hans hafi verið hafnað um stöðu, sem hæfari einstaklingur var valinn í. Eflaust var sá einstaklingur kvenmaður og í stað þess að horfast í augu við sannleikann var einfaldara að grípa til slíkra staðhæfinga. Þarna hafði ég þegar klárað starfsnám hjá BMW og landað öðru hjá Daimler, Mercedes Benz Cars. Þeir sem til mín þekkja vita að ég geri hlutina ekki með hangandi hendi. Ég er því nokkuð viss um að ég hafi fengið báðar stöðurnar út frá eigin verðleikum en ekki vegna þess að ég óvart fæddist með annars konar kynfæri en flestir innan fyrirtækisins. Ef við hugsum því stuttlega um bílaiðnaðinn dettur okkur fyrst og fremst í hug hugtök eins gæði, bestun og fagmannleiki. Einstaklingi sem ekki getur sýnt fram á verðleika sína myndi því ekki svo auðveldlega vera boðin vinna, óháð því hvernig líkami hans er uppbyggður. Það sem undraði mig þó mest var að þrátt fyrir það að vera framsæknir á flestum sviðum tækni og nýsköpunar virðast Þjóðverjar vera nokkrum áratugum á eftir Íslendingum í kvenréttindum og feminískri hugsun.

“Haltu þig við bílaiðnaðinn. Þú ert stelpa. Þyrftir bara að biðja um stöðuhækkun og sama hversu léleg þú ert þá fengirðu hana.”

Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin eyrum. Ég hugsaði með mér hvernig best væri fyrir mig að haga mér þegar ég lendi í svona samræðum. Á ég að svara fullum hálsi eða láta þetta sem vind um eyru þjóta? Hvernig get ég með nokkru móti haft áhrif á skoðun hans? Við frekari athugun kom í ljós að flestir, sem ekki hafa tekið þátt í feminískum samræðum, hafa ekki sterka skoðun á þeim málum. Oftar en ekki er viðhorf þeirra byggt á almennu viðhorfi í samfélaginu, sem einfalt er að endurtaka án frekari hugsunar. Beittasta vopnið í skúffunni er því umræðan. Með því að skapa til umræðu og koma þannig sínum sjónarmiðum á framfæri er mögulegt að hafa áhrif á skoðanir fólks við mótun. Vonandi mun viðhorf einstaklinga eins og þessa manns þannig smám saman breytast.

Mynd: Håkon Broder Lund.

 

Ragnheiður Björk Halldórsdóttir

Pistlahöfundur

Ragnheiður Björk er meistaranemi í stjórnun ásamt iðnaðarverkfræði í Tækniháskólanum í Munchen og lauk BSc í iðnaðarverkfræði frá HÍ. Hún vinnur nú að meistaraverkefni sínu um lokun virðisaukakeðju vöruframleiðanda og hefur reynslu úr iðnaðnum eftir að hafa unnið hjá McKinsey, Daimler Mercedes Benz Cars og BMW í Þýskalandi. Áður stýrði hún Formula Student liði HÍ við hönnun og smíði rafknúins kappakstursbíls. Skrif hennar í Rómi beinast að femíniskum viðhorfum og áhrifum hnattvæðingar og gróðurhúsaáhrifa á alþjóðasamfélagið.