Hálfdrættingur í Kraganum

eftir Birta Austmann Bjarnadóttir

Fyrir rúmlega tveimur árum flutti ég til Hafnarfjarðar eftir að hafa búið í miðbæ Reykjavíkur í mörg ár. Það kom mér skemmtilega á óvart hvað ég var ánægð með búsetuna í mínu nýja sveitarfélagi, þrátt fyrir vissar efasemdir miðbæjarmanneskjunnar um úthverfalífið til að byrja með. Skömmu eftir flutningana fór aðeins að skyggja á gleði mína með nýju heimahagana þegar ég leiddi hugann að því að vægi atkvæðis míns í Alþingiskosningunum hafði minnkað ­og var þó ekki mikið fyrir. Verandi fullgildur þjóðfélagsþegn og auk þess stjórnmálafræðingur og lögfræðingur er mér mjög annt um atkvæði mitt. Með flutningum úr Reykjavíkurkjördæmi norður í Suðvesturkjördæmi (einnig nefnt Kraginn) varð vægi atkvæðis míns nefnilega töluvert minna.

Samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis er landinu skipt í sex kjördæmi. Hverju kjördæmi er úthlutað ákveðnum fjölda þingmanna. Síðan eru jöfnunarsæti en hlutverk þeirra er að jafna sem mest þingmannafjölda stjórnmálaflokka eftir heildaratkvæðatölu sem flokkarnir náðu í kosningum á landsvísu. Eins og sést í töflunni hér að neðan er töluvert misvægi á atkvæðum milli kjördæma sem skilar sér í því að fjöldi íbúa á bak við hvert þingsæti er misjafn eftir því í hvaða kjördæmi íbúarnir búa.

Misvægi atkvæða þekkist ekki aðeins hérlendis heldur einnig í öðrum norrænum löndum og víðar, þó misvægið sé töluvert meira hérlendis en hjá norrænum frændum okkar. Helstu rökin fyrir mismunandi vægi atkvæða er að íbúar í höfuðborgum njóti góðs af nálægðinni við helstu stofnanir ríkisins og því sé íbúum landsbyggðarinnar tryggð meiri áhrif í kosningum, enda mikilvægt að málefni landsbyggðarinnar nái líka á borð löggjafans. Hefur því verið haldið fram að jöfnun á vægi atkvæða geti leitt til þess að stjórnvöld hætti að sinna landsbyggðinni.

Gagnrýnisraddir á núverandi kerfi með hinu mikla misvægi atkvæða hafa lengi heyrst og hafa komið fram tillögur til að breyta þessari skipan mála eins og að gera landið að einu kjördæmi með jafnt vægi atkvæða, önnur tillaga er að halda í kjördæmin en að fjöldi þingsæta kjördæma endurspegli íbúafjölda eða að færa til kjördæmamörk. Búið er að færa góð og sannfærandi rök fyrir slíkum leiðum, en jafnt vægi atkvæða, óháð því hvaða fyrirkomulag verði fyrir valinu, hlýtur að teljast til pólitísks jafnræðis og mannréttinda. Þá tel ég að hægt sé að mæta ofangreindum rökum fyrir misvægi atkvæða á annan veg og standa vörð um málefni landsbyggðarinnar án þess að gera upp á milli áhrifa kjósenda eftir búsetu. Og ekki má gleyma mikilvægi þess að hugsa um þjóðarhag samhliða hag íbúa í ákveðnum kjördæmum.

Ástæða þess að við kjósum til Alþingis er sú að hérlendis tíðkast fulltrúalýðræði en í því felst að kjósendur kjósa eftir skoðun og sannfæringu þann stjórnmálaflokk og frambjóðanda sem þeir telja hæfastan til þess að stjórna landinu í þeirra umboði. Eins og ég sé þetta búum við við frekar skakkt fulltrúalýðræði þar sem kjörnir fulltrúar á Alþingi endurspegla ekki vilja þjóðarinnar heldur vilja íbúa kjördæma með mismikið vægi á bak við hvert atkvæði. Mér þykir það mjög óásættanleg staðreynd að vegna þess að lögheimili er í Kraganum hafi atkvæði mitt minnst vægi atkvæða á Íslandi. Ég átta mig á því að atkvæði mitt eitt og sér hefur engin teljandi áhrif á niðurstöður kosninga á landsvísu en það hefði samt töluvert meira vægi byggi ég í öðrum kjördæmum landsins, sér í lagi á Norðurlandi. Við hristum hausinn yfir því mannréttindabroti að konur þurftu öldum saman að búa við það að hafa ekki kosningarétt. Við höldum samt sem áður í kerfi þar sem til mikillar einföldunar mætti segja að íbúar Kragans séu með hálfan kosningarétt á við íbúa Norðvesturkjördæmis. Dæmi hver fyrir sig um sanngirni og lýðræðislegt gildi slíks kerfis.

Birta Austmann Bjarnadóttir

Pistlahöfundur

Birta er með B.A. gráðu í stjórnmálafræði og lögfræði frá Háskóla Íslands ásamt meistaragráðu í lögfræði frá sama skóla. Birta starfaði á viðskiptasviði Íbúðalánasjóðs samhliða námi en starfar núna hjá Þjóðskrá Íslands. Hún hefur setið í stjórnum Vöku fls. og stjórn Politica, félags stjórnmálafræðinema auk nefndarsetu í ráðum Stúdentaráðs Háskóla Íslands og Háskólaþingi.