Hálendið okkar

eftir Ingveldur Anna Sigurðardóttir

Miðhálendi Íslands þekur rúmlega 30% af landinu og er að mínu mati vanmetnasti hluti landsins. Á þessu landsvæði er stórbrotin náttúra, allt frá víðfeðmum söndum til mikilfenglegra fjalla. 

Enginn vafi er  á því að þetta landsvæði verður að vernda og verja þarf náttúruna gegn miklum ágangi er leiðir til eyðileggingar. En það er umdeilanlegt hvernig á að standa að því. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að tekist hefur verið um nýtt frumvarp um Miðhálendisþjóðgarð.

Miðstýring

Ef litið er til núverandi stjórnskipulags á þessu svæði fara sveitarfélög með yfirstjórn. Í 6. gr. frumvarpsins verður sett á stofn stofnun er nefnist Hálendisþjóðgarður og fer ráðherra með yfirstjórn hennar. Þar af leiðandi er miðhálendið komið í miðstýringu frá Reykjavík. 

Það má svo sannarlega velta steinum yfir þessari ráðstöfun. Hvort á stofnun mönnuð af fólki að stjórna landsvæði sem það þekkir ekki, frekar en einstaklingar sem þekkja þetta land eins og handabakið á sér. 

Atvinna innan garðsins

Margir eiga einhvers konar nytjarétt á þessu svæði. Margir reka kindur þangað árlega og ganga þær þar óáreittar í tæpa 3 mánuði. Sumir hafa atvinnu af svæðinu, til dæmis með því að fara með gönguhópa um svæðið, hellaskoðanir eða reka gistingu, svo fátt eitt sé nefnt. Þessar atvinnugreinar yrðu háðar takmörkunum og ættu á hættu að fá ekki starfsleyfi eða verða svipt því og svo framvegis. 

Í 5. kafla frumvarpsins er sagt til um hvernig leyfisveitingum er háttað og þar kemur fram að samningur verður að liggja fyrir ásamt því að afla þarf leyfis vegna samkoma  innan garðsins. Varhugavert finnst mér að setja álíka íþyngjandi ákvæði á einstaklinga sem hafa um árabil rekið þarna þjónustu og hafa sömuleiðis hugsað einstaklega vel um svæðið. 

Afréttir

Frá örófi alda hefur verið hefð fyrir því að beita fé á hálendi Íslands. Rekið er inn úr í byrjun sumars og náð í kindurnar síðar, að hausti. Eins og flestir þekkja endar það í réttum á haustin með tilheyrandi veisluhöldum.

Fjölskylda mín á afréttareign á Almenningum, afrétti inn af Þórsmörk. Þar hleypa bændur árlega inn rollum. Með núverandi frumvarpi er umdæmisráði sett í hendur að afgreiða leyfi um nýtingu á afrétti, sem er núna í höndum sveitarfélaga sbr. 6. tl. 12. gr. Með þessari tilhögun er verið að taka úrskurðarvald frá sveitarfélögum um þessi málefni og setja þau í hendur einstaklingar sem hafa mögulega ekki stigið fæti inn á þetta svæði. 

Er þetta til hins betra?

Þessar breytingar fela í sér bæði takmörkun á nýtingarrétti og atvinnu innan garðsins. Hætta er á að fólk missi sitt ævistarf ef að núverandi frumvarp yrði samþykkt. Miðstýring á 30% landsvæði Íslands er varhugaverð og sömuleiðis er ekki ákjósanlegt að setja stjórn þess í stofnun í Reykjavík. Heimafólk hefur staðið að uppbyggingu og vernd þessa svæðis með mikilli prýði í gegnum árin og vill gera það áfram. 

Leyfum fólkinu sem býr á þessum svæðum að annast vernd og ráðstöfun hálendisins. 

Höfundur er frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir alþingiskosningar 2021 og býður sig fram í 4-5 sæti.

Ingveldur Anna Sigurðardóttir

Pistlahöfundur

Ingveldur Anna er meistaranemi í lögfræði við Háskóla Íslands. Hún tók virkan þátt í stúdentapólitíkinni og sat m.a. sem forseti Vöku og var aðalfulltrúi sama félags í stúdentaráði. Ingveldur hefur einnig tekið þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins, situr sem varaformaður Ungra sjálfstæðismanna í Rangárvallarsýslu og tók sæti á flokksins í kosningum til sveitastjórnar í Rangárþingi eystra. Skrif hennar snúa að stúdentum, pólitík, og málefnum líðandi stundar.