Háleit markmið Oddnýjar

eftir Ritstjórn

Í gær vörpuðu tveir stjórnmálaflokkar framtíðarsýn sinni fyrir næstu fjögur árin fram þegar formenn þeirra, Bjarni Benediktsson og Oddný Harðardóttir lýstu því á flokksstjórnarþingum hvert þau hyggðust stefna á næsta kjörtímabili fengju þau umboð kjósenda til þess.

Bjarni lagði áherslu á styrkingu innviða, aukningar útgjalda til heilbrigðis- og lífeyrismála en reifaði einnig þá hugmynd að ‘almenningsvæða’ banka á Íslandi sem felur í sér að öllum Íslendingum verði gefinn beinn eignarhlutur í bönkunum. Þannig yrði bönkunum komið á markað og markaðsverðið myndi koma í vasa Íslendingra sjálfra í stað ríkisins. Slíkar hugmyndir verða að teljast góðar enda ótækt að Ísland sé eitt fárra vestrænna landa með svo ríkisvætt bankakerfi.

Aðalmarkmiði Oddnýjar nú þegar náð

Oddný Harðardóttir fór einnig mikinn um styrkingu heilbrigðiskerfisins og nauðsyn þess að Ísland byggi yfir besta heilbrigðiskerfi í heimi. Oddný sagði að til þess að svo mætti vera þyrfti stóraukið fé í heilbrigðisþjónustuna en einnig kerfisbreytingar innan kerfis. Þá vildi hún hækka barnabætur, byggja fleiri félagslegar leiguíbúðir og hækka lífeyrisgreiðslur aldraðra í 300 þúsund á mánuði.

Vafalaust þarf að hækka útgjöld til heilbrigðismála eins og allar áætlanir ríkisins gera ráð fyrir á næstu árum. Það verður þó ekki hjá því litið að sama dag og Oddný varpar fram þessu háleita markmiði Samfylkingarinnar er stærsta fréttin einmitt sú að Ísland standi sig best í heilbrigðismálum af öllum þjóðum heims samkvæmt umfangsmikilli rannsókn sem birt var af virta læknaritinu Lancet.

Þó fréttirnar úr Lancet séu jákvæðar fyrir þjóðina eru þær það ekki fyrir Samfylkinguna eins og svo oft vill verða en í samvinnu við Kára Stefánsson hefur stjórnarandstaðan gert sitt allra besta til að telja landanum trú um að heilbrigðiskerfið sé ein rjúkandi rúst.

Meiri skatt, meiri skatt, meiri skatt

Oddný er sannfærð um að Íslendingar hafi efni á öðrum markmiðum Samfylkingarinnar en þau eiga það öll sameiginlegt að kalla á umtalsverðar útgjaldahækkanir:

Með útboði á aflaheimildum, raforkugjaldi og með gistingu og afþreyingu fyrir ferðamenn í almennu þrepi virðisaukaskattskerfisins. Og með þrepaskiptu skattkerfi og auðlegðarskatti á miklar eignir, aðrar en heimili fólks, til viðbótar við tekjurnar af auðlindunum, náum við að gera þetta allt án þess að ýta undir verðbólgu á sama tíma.

Það er því næsta ljóst að framtíðarsýn Samfylkingar Oddnýjar er afturhvarf til ótal skattahækkana sem svipar til þess sem átti sér stað hér á landi fyrstu árin eftir hrun.

 

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.