Hagkerfi fyrir 1%?

eftir Ásgeir Friðrik Heimisson

Nýverið birti Oxfam sína árlegu skýrslu sem mælir ójöfnuð á heimsvísu. Samkvæmt skýrslunni eiga átta efnamestu einstaklingar heims jafn mikin auð og helmingur mannkyns og auður heims sífellt að safnast á færri hendur. Oxfam heldur því fram að hagkerfi heimsins séu sniðin að þörfum efsta 1% á meðan við hin 99% erum skilin eftir. Oxfam segir að við þurfum að smíða mannlegra hagkerfi þar sem hags allra er gætt í stað aðeins fárra útvaldra. Í skýrslunni eru svo taldar upp ástæður fyrir þessari þróun en ástæðurnar verða sífellt fáránlegri eftir því sem líður á upptalninguna. Hér að neðan verður fjallað nánar um skýrslu Oxfam og á hvaða hátt hún er misvísandi.

Til að byrja með er aðferðafræðin sem Oxfam beitir til að mæla auð afar einkennileg. Aðferðafræðin sem notuð er við útreikninginn byggir á því að draga skuldir frá eignum sem gefur nettó auð sem síðan er notaður sem mælikvarði. Samkvæmt þessu eru þeir sem eiga miklar eignir en hafa safnað miklum skuldum með þeim fátækustu í heiminum (til þessa hóps er nokkurn vegin hægt að telja flest alla einstaklinga í hinum vestræna heimi sem eru yngri en þrítugir). Þetta er mjög misvísandi leið til þess að mæla auð. Til dæmis safnar meðal háskólanemi um það bil 7 milljónum króna í skuldir yfir námsárin án þess að miklar tekjur komi á móti. Samkvæmt Oxfam er því undirritaður, líkt og flest allir háskólanemar, hluti af hinum fátækari helming mannkyns og er ekki tekið tillit til væntanlegra tekna sem háskólanemar geta átt von á að fá að námi loknu.

Ennfremur er eftirfarandi mælikvarði mjög misvísandi þar sem einungis er verið að sýna kyrrstæða mynd af núverandi ástandi og ekki tekið tillit til þess hvernig tekjuþróun eða auðsöfnun einstaklinga breytist yfir tíma. Til dæmis gæti ójöfnuður mælst mjög mikill í samfélagi þar sem hlutfall ungs fólks er hátt þar sem líklegt er að unga fólkið í þessu samfélagi sé skuldugra og ekki farið að safna auð. Hinsvegar, er ekki hægt að staðfesta að þetta samfélag sé að stefna í ranga átt og sé óréttlátt einungis út frá þessum mælikvarða. Heldur er hægt að búast við því að eftir nokkur ár verði þetta tiltekna samfélag mjög vel sett ef heldur áfram sem horfir þar sem stór hluti þess mun hafa menntun og vinnu við hæfi og tækifæri til þess að safna auð.

Jafnframt heldur Oxfam því fram að stór ástæða þess að þessi þróun hefur átt sér stað sé vegna aukinnar alþjóðavæðingarnar sem jókst eftir seinna stríð og að hún hafi helst þjónað þeim efnameiri. Þessi röksemdafærsla er svo eitthvað sé sagt afar skondin og að mestu leyti röng.

Á hinn bóginn hefur Oxfam að mestu rétt fyrir sér þegar það segir að hinir efnameiri hafi grætt meira á alþjóðavæðingunni en hinu fátæku, allavega ef mælieiningin er auður. Aftur á móti eru skýringar þess mjög einfaldar. Með alþjóðavæðingu hafa markaðir opnast og einstök fyrirtæki geta þjónustað mun fleiri einstaklinga en áður. Til dæmis hefði það verið nánast ómögulegt fyrir bóksala (segjum að hann sé hagkvæmari en allir aðrir bóksalar) sem væri staðsettur í Warwick á Bretlandi að selja bækur sínar til Edinborgar fyrir 100 eða 60 árum síðan. Ef hann væri mjög góður og með mjög góða viðskiptaáætlun hefði hann kannski getað opnað útibú í Birmingham og mögulega í London. Alþjóðavæðing hefur gert það að verkum að við sem tilheyrum fátækari hluta mannkyns getum með einum smelli pantað bók á heimasíðu Amazon og fengið bókina afhenda nokkrum dögum seinna. Og viti menn, stofnandi Amazon er fimmti ríkasti einstaklingur heims. Enn fremur er mjög líklegt að til þess að panta bókina þá notum við tölvu sem er með Microsoft stýrikerfi og er stofnandi Microsoft ríkasti maður heims.

Alþjóðavæðingin hefur gert það að verkum að klárt fólk með snjallar hugmyndir getur selt afurðir sína til almennings á mun stærri skala en áður hefur þekkst og eiga allar þessar afurðir það sameiginlegt að bæta líf okkar sem minnst hafa. Til dæmis situr höfundur og skrifar þennan pistil í hugbúnaðinn Word sem er framleiddur af Microsoft. Alþjóðavæðingin hefur opnað markaði og kynnt fólk fyrir nýjum vörum og aukið það úrval sem okkur stendur til boða. Í krafti alþjóðavæðingarinnar getum við því valið þá vöru sem okkur líkar mest í stað þess að þurfa að sitja uppi með vöru sem okkur líkar ekki. Við getum því valið þá vöru sem hentar okkur og ef við erum tilbúin að eyða meira í að eignast hana getum við gert það ef við höfum efni á því. Engin hefur þvingað okkur í kaupa þessar vörur eða stunda viðskipti við þá efnameiri. Við einfaldlega stundum viðskipti við þá sem veita okkur þjónustu sem við erum tilbúin að borga fyrir.

Kaldhæðni Oxfam, stofnunar sem segist vilja útrýma fátækt, er sú að hún er upptekin af hinum efnameiri og ójöfnuði en ekki fátækt. Ójöfnuður er ekki slæmur hlutur. Hinsvegar er fátækt slæmur hlutur og ætti enginn að þurfa að lifa við slíkt. Það sem við getum lært af seinustu 60 árum mannkynsögunnar er að frjálst markaðskerfi sem drifið er áfram af einstaklingum sem vilja og hafa getu til að bæta hag sinn er besta leiðin til að útrýma fátækt. Núverandi markaðsfyrirkomulag á mjög stóran þátt í því að 100 milljónir manna komust upp úr ánauð fátæktar á seinasta ári og hefur hlutfall þeirra sem búa við sára fátækt farið úr því að vera 37% árið 1990 í að vera undir 10% árið 2015. Við skulum því fagna núverandi kerfi í stað þess að berjast gegn því og kalla fram breytingar sem gætu leitt til þess að okkar eigin væntar framtíðar tekjur gætu beðið hnekki. Auðvitað á sér einnig stað spilling sem hjálpar þeim efnameiri, en í flestum tilvikum þrífst þessi spilling vegna stjórnvalda sem tækla ekki vanda einokunar. Í stað þess að berjast gegn frjálsu markaðskerfi ætti umræðan að snúast um að minnka völd stjórnvalda og afskipta þeirra af markaðskerfinu.

Ásgeir Friðrik Heimisson

Pistlahöfundur

Ásgeir Friðrik stundar meistaranám í hagfræði við University of Warwick í Bretlandi. Ásgeir Friðrik starfaði áður sem hagfræðingur hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Samtökum atvinnulífsins, en hann útskrifaðist úr Háskóla Íslands vorið 2015 með BSc í hagfræði. Einnig sinnti hann stundakennslu í hagfræði við HR og HÍ þegar hann starfaði hjá Hagfræðistofnun HÍ. Þá var hann einnig ritstjóri Hjálma, tímarits hagfræðinema við HÍ.