Hagar fara í fýlu

eftir Ritstjórn

Stórverslunin Costco skaut upp kollinum í umræðunni í lok vikunnar, en á föstudag flutti Morgunblaðið fréttir af því að verslunin seldi nú sjötta hvern dropa af eldsneyti á Íslandi. Það kemur svo sem ekki á óvart að Costco skuli hafa náð slíkri markaðshlutdeild á svo stuttum tíma enda hafa olíufélögin okrað á íslenskum neytendum í fjölda ára líkt og fram hefur komið.

Það sem Rómverjum þótti enn forvitnilegra var þegar blaðið flutti á fimmtudag fréttir af verslunarkeðjunni Högum sem rekur Bónus og Hagkaup. Á forsíðu blaðsins sagði að Hagar myndu héðan í frá ekki taka þátt, eða veita upplýsingar úr rekstri sínum svo Rannsóknarsetur verslunarinnar gæti reiknað með þeim smásöluvísitölu. Segir í greininni að þar með sé grundvöllur smásöluvísitölunnar brostinn.

Skiptir vísitalan nokkru máli?

Fyrir þá sem ekki vita er smásöluvísitalan tól til að reikna út veltu smásölu á Íslandi. Þannig geta neytendur glöggvað sig á stöðu smásölu á Íslandi. Mörgum kann að þykja smásöluvísitalan ómerkileg eða jafnvel Rannsóknarsetur verslunarinnar og það er skiljanlegt að fjölskyldur í þúsundavís bíði ekki spenntar fyrir framan tölvuskjáinn til að fá nýjustu upplýsingar um veltu smásöluverslana. Staðreyndin er hins vegar sú að vísitalan þjónar mikilvægu hlutverki, að upplýsa neytendur um stöðu mála svo þeir geti tekið upplýstar ákvarðanir. Einkum eru það fjölmiðlar sem matreiða þessar upplýsingar ofan í fólk og auðvelda því þannig verkið.

Gögn og upplýsingar hafa aldrei verið eins verðmæt og nú. Á sama tíma er heiðri gagnsæis haldið uppi sem helsta vopni neytenda til að láta ekki svindla á sér, ekki síst á samfélagsmiðlum. Samspil þessara þátta gera upplýsingar eftirsóknarverðari en nokkurn tímann áður.

Finnur Árnason, forstjóri Haga, tjáði fjölmiðlum að það væri ekki í þágu hagsmuna hluthafa að félagið taki þátt í vísitölunni. Með öðrum orðum að það væri í hag hluthafa að sem fæstir geti gert sér grein fyrir stöðu félagsins og smásölu á Íslandi. Með vakningu neytenda sem hefur fylgt innreið Costco inn á íslenskan markað, verður að telja líklegt að ákvörðun Haga falli illa í kramið hjá Íslendingum.

Þess ber að geta að Costco gefur heldur ekki frá sér umræddar upplýsingar. Hvort það sé ástæða þess að Hagar hverfa frá upplýsingagjöfinni eða hvort ótti við samkeppni við hið bandaríska stórfyrirtæki sé ástæðan, verður látið liggja milli hluta. Eftir stendur þó sú staðreynd að neytendum er best borgið ef báðar verslanirnar láta frá sér þessi gögn og fara að óskum hinna fyrrnefndu.

Gátlistinn í hávegum hafður

„Það þarf að bjóða meiri upplifun en áður. Það verkefni snýr sameiginlega að rekstraraðilum og eigendum verslunarmiðstöðva. Þær verða kannski ekki hreinar verslunarmiðstöðvar heldur hluta félagsmiðstöðvar þegar fram í sækir. Það þarf að bjóða eitthvað meira sem viðskiptavinirinn upplfiir, eitthvað sem hann getur ekki upplifað á netinu, eða í risaverslunum eins og Costco.”

Þetta sagði Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, um þróun mála á smásölumarkaði á Íslandi. Svo virðist sem hann hafi tekið mark á gátlista Vigdísar Ingibjargar Pálsdóttur, höfundar hér á Rómi, sem birtist í grein hennar hér fyrir um tveimur vikum síðan.

„Meiri kaupmáttur hefur meðal annars þau áhrif að fólk hefur meira val og vill fá meira fyrir peningana, svo sem upplifunina. Kaupmenn þurfa að höfða til kaupenda og nýrra kynslóða með því að bjóða eitthvað meira en afgreiðslufólk í fýlu, hálfmyglað grænmeti og grágula ganga,” skrifaði Vigdís Inga.

Það felast í því tækifæri fyrir íslenskar verslanir að bjóða viðskiptavinum sínum upp á betri þjónustu en verið hefur. Því jafnvel þó allar smásöluverslanir á Íslandi sameinist í eina og sömu verslunina þá mun hún aðeins verða agnarsmátt brot af stærð alþjóðlega stórfyrirtækisins Costco. Því verða íslensku verslanirnar að leita annarra leiða til þess að keppa við risan stóra. Það eru orð að sönnu hjá Vigdísi Ingu og Guðjóni að íslenskum neytendum verður að bjóða blómlegri verslun, ekki aðeins hvað gæði og verð varðar, heldur einnig upplifunina af verslunarferðum.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.