Hættum að óttast og verum hreinskilin

eftir Jónína Sigurðardóttir

Skilyrði fyrir góðum samskiptum

Hreinskilni og heiðarleiki eru gildi sem við getum flest öll sammælst um að skipti okkur miklu máli. Við gerum þá kröfu að fólk sé heiðarlegt og hreinskilið við okkur og við leggjum okkur fram við að gera það sama við aðra. Þessi gildi eru grunn skilyrði fyrir því að fólk geti myndað traust sín á milli og átt góð og náin samskipti. Það vilja jú flestir þar sem manneskjan er félagsvera.

Samskipti eru flókið fyrir fyrirbæri

Samskipti gera verið flókið fyrirbæri og þá sér í lagi ef við þau bætast tilfinningar og vonir um ástarsamband. Í þeim aðstæðum verðum við óörugg, hrædd við höfnun og þorum oft ekki að vera við sjálf. Þá virðast hreinskilnin og heiðarleikinn verða undir. Aðrar reglur gilda um heiðarleika og hreinskilni í daðri. Við erum gjörn á að fegra okkur sjálf til þess að ganga í augun á þeim sem við döðrum við og eigum oft erfitt með að tjá hvað við viljum og hvernig okkur líður og oft erum við óörugg með hvernig hinum aðilanum líður. Hver hefur ekki verið í þeim sporum að spyrja sjálfan sig hvort einhver sé hrifin/n af sér, hvort einhverjum líki við mann eða hvort maður sé búinn að klúðra þessu? Við gætum sparað okkur sjálfum og þeim sem við döðrum við heil mikinn tíma og hlíft frá miklu hugarangri ef við hættum að flækja málin og erum skýrari við hvert annað.

Hættum að gefa í skyn

Segjum hvað við viljum og hvað okkur langar rétt eins og við eigum að segja ef okkur líkar ekki eitthvað sem er sagt eða gert. Hættum að senda misvísandi skilaboð sem gefa í skyn að okkur langi til þess að hitta viðkomandi. Verum frekar hreinskilin og segjum að okkur langi til þess að hitta viðkomandi því okkur líður vel með henni/honum eða því hún/hann sé svo skemmtileg/ur, skiptir ekki máli hver ástæðan er, nema bara að hún sé sönn. Verum kjörkuð og sýnum áhuga ef hann er til staðar.

Að „ghosta“

Margur kannast líklegast ekki við þessa sögn en að ghosta merkir að hunsa. Að hunsa skilaboð, símtöl, pot og læk, að láta sem viðkomandi sé ekki lengur til. Að ghosta sýnir litla virðingu í garð þess sem er ghostaður auk þess að það vekur upp slæmar tilfinningar á borð við óöryggi og efasemdir. Þetta er mjög algengt í daðri því við þorum ekki að vera hreinskilin og koma heiðarlega fram og látum því frekar eins og ekkert hafi átt sér stað í stað þess að segja viðkomandi ef áhugi okkar hefur dalað eða ef við viljum frekar vera vinur viðkomandi. Það er auðveldara að ghosta en að vera hreinskilin og segja hug okkar

Auðveldum okkur lífið

Það er svo margt í lífinu sem er erfitt og flókið og við ráðum ekki við. Gerum það sem í okkar valdi stendur til þess að flækja ekki hluti sem við ráðum við. Komum hreint fram þá erum við hreinskilin við aðra og okkur sjálf. Hver veit nema að hreinskilni og heiðarleiki í daðri geti auðveldað þér lífið. Verum djörf og bjóðum á deit, segjum viðkomandi ef okkur líkar við hana/hann og þorum að koma hreint fram ef við höfum misst áhugann.

Jónína Sigurðardóttir

Ritstjórn

Jónína Sigurðardóttir er meistaranemi í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á áhættuhegðun og forvarnir fyrir börn og ungmenni. Hún starfar sem ráðgjafi á velferðarsviði hjá Reykjavíkurborg fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Jónína á 11 ára gamla dóttur og hefur mikinn áhuga á velferðarmálum.