Hættulegir tímar

eftir Ritstjórn

Rómur leggur það ekki í vana sinn að vitna til Vladimirs Leníns en eftir síðastliðna viku er vart hægt að verjast því að hugsa til orða hans um að heilu áratugina gerist ekki í stjórnmálum en svo komi vikur þar sem áratugir gerast. Á þessu ári virðast ætla að verða margar slíkar vikur.

Hryllilegu fréttirnar um hryðjuverkið í Nice, Frakklandi fengu ekki fjölmiðlaumfjöllun lengur en í einn dag vegna tilraun til valdaráns í Tyrklandi. Í Nice létust 84 manns þegar afar óstöðugur 31 árs einstaklingur keyrði vörubíl í gegnum haf af fólki sem var að fagna þjóðhátíðardegi Frakka, Bastilludeginum. Maðurinn hafði verið smákrimmi en á örskömmum tíma breyst í öfgatrúarmann. ISIS lýstu í kjölfarið yfir ábyrgð.

Þetta er þriðja stóra hryðjuverkaárásin í Frakklandi á innan við tveimur árum sem öfgatrúahópar í Mið-Austurlöndunum lýsa ábyrgð yfir. Þann 7. janúar 2015 réðust tveir einstaklingar á skrifstofu dagblaðsins Charlie Hebdu og drápu 11 manns. Undir lok ársins, þann 13. nóvember átti Parísarárásin sér stað sem var röð skipulagðra hryðjuverkaárása í París og létust í árásinni 130 borgarar.

Evrópubúar eru óttaslegnir um þessar mundir og hefur verið ákall um að allir standi saman í baráttunni við hryðjuverkaógnina. Miðað við fréttir undanfarinna mánuða lítur hins vegar út fyrir að þessi samstaða sé að leysast upp. Bretar telja sig ekki lengur eiga erindi í Evrópusambandið, en aðild að þeim búrókrasíuklúbbi virðist, þrátt fyrir alla sína galla, alltaf skárri kostur fyrir risaþjóð líkt og Bretland en að sitja utan þess.

 

Valdaránstilraun í aðildarríki NATO er almennt ekki daglegt brauð en Tyrkland er reglan sem sannar undantekninguna. Þar í landi fer slík tilraun fram með um það bil tíu ára fresti og hefur gert í tugi ára. Það er hins vegar alltaf fréttnæmt – og sérstaklega fréttnæmt útaf aðild þeirra í NATO.

Atburðarrásin í Tyrklandi var hröð

Klukkan hálf átta á föstudagskvöldið síðastliðið bárust fréttir af því að hermenn hafi lokað tveimur aðalbrúunum yfir Bosporussundið þekkta, sem tengir Miðjarðarhafið og Svartahafið. Ekki var liðið á löngu þar til tilkynnt væri um að herflugvélar og þyrlur væru á flugi yfir Istanbúl og Ankara, höfuðborg Tyrklands. Skothvellir heyrast, skriðdrekar við þinghúsið og hermenn dreifðir um borgina.

Klukkan átta berst tilkynning frá forsætisráðherra Tyrklands, Binali Yildirim, um að þetta væru ósamþykktar hernaðaraðgerðir. Þá fer að verða ljóst að tilraun til valdaráns væri að eiga sér stað. Rúmum klukkutíma síðar tilkynnir ríkisfjölmiðillinn TRT að herinn sé búinn að hrifsa til sín stjórntaumana og ætli sér að endurreisa stjórnskipulagið. Hinn umdeildi forseti Tyrklands, Recap Tayyip Erdogan hafi grafið undan lýðræðinu og því hafi hreyfingin, Friðarráð heimalandsins eins og hún heitir, stigið í leikinn.

Yildirim fordæmir valdaránstilraunina og segir hana verði stöðvaða, þó það muni kosta mannslíf. Í myndsímtali hjá CNN hvetur Erdogan almenning til að taka málin í sínar hendur og halda út á göturnar til að mótmæla. ,,We will overcome this,” segir hann – valdaræningjarnir munu gjalda fyrir þetta. Erdogan lýsir því yfir að Fethullah Gulen, tyrkneskur klerkur búsettur í Bandaríkjunum, erkióvinur Erdogan og sagður næstvaldamesti maður Tyrklands, standi á bak við aðgerðirnar. Gulen hafnar því alfarið og hefur sjálfur fordæmt valdaránstilraunina.

Í kringum miðnætti lýkur svo tilrauninni og tilkynnt er um að stjórnvöld hafi náð tökum á aðstæðunum. Hættan sé yfirstaðin. Stuttu síðar mætir Erdogan til Istanbúl eftir að hafa dvalist í borginni Marmaris. Hann segir að dvalastaður hans á Marmaris hafi verið sprengdur eftir að hann hélt til Istanbúl – árásarmennirnir hafi haldið að Erdogan væri þar enn.

Klukkan korter í eitt aðfaranótt sunnudags leggja hermennirnir síðan frá sér vopnin, umkringdir af vopnuðum lögreglumönnum á vegum ríkisstjórnarinnar. 265 manns létust og þar af 47 almennir borgarar. 1440 manns slösuðust.

Eftirmálar (tilraunarinnar til) valdaránsins – Erdogan fer hamförum

Líkt og Erdogan lofaði hafa valdaræningjarnir svo sannarlega fengið að gjalda fyrir aðgerðirnar, hvort sem þeir sem hafa verið handteknir eða látnir víkja frá störfum voru viðriðnir aðgerðunum eða ekki. Forsetinn tjáði á laugardagskvöldið að 2.839 meðlimir hersins væru í haldi og 2.745 dómarar hafi verið látnir víkja. Jafnframt er talað um að möguleiki sé á að dauðarefsingin verði tekin upp á nýju í ljósi atburðanna. Erdogan lét út úr sér í ræðu árið 2012 að það gæti verið nauðsynlegt og í gær endurtók fyrrverandi heilbrigðisráðherra landsins og leiðtogi AKP flokksins, sem Erdogan stofnaði, það viðhorf.

Erdogan er enn sannfærður um að Gulen hafi staðið á bak við valdaránið, og hefur Gulen ekki aðeins svarað neitandi og fordæmt aðgerðina heldur einnig sagt möguleiki á að Erdogan hafi sjálfur staðið á bak við þær. Að þær hafi verið sviðsettar af ríkisstjórninni til að undiroka andstæðinga hennar og færa stjórnkerfið úr þingræði í forsetaræði – með það að markmiði að gera Erdogan að lokum að einræðisherra. Þó atburðarrásin hafi látið ríkisstjórnina líta afskaplega vel út er ómögulegt að halda því fram með einhverri vissu að hún hafi verið sviðsett eða ekki. Þetta er samt ekki í fyrsta sinn sem Erdogan er sakaður um að setja á svið atburðarrás sem gerir hann að hetju.

Nú hefur Erdogan krafist þess af Barack Obama að Bandaríkjamenn framselji Gulen. Obama hefur ekki orðið við kröfu Erdogan og hefur John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kallað eftir sönnunargögnum frá tyrkneskum stjórnvöldum til staðfestingar aðkomu Gulen ef það eigi að framselja hann.

Þetta var ekki svarið sem Erdogan vildi fá og hefur Yildirim látið það út úr sér að öll þau lönd sem styðja Gulen væru í stríði við Tyrki þrátt fyrir að hafa sagt 11. júlí síðastliðinn að helsta verkefni Tyrkja væri að ,,fjölga vinum sínum”. Svona hótun við Bandaríkin er í raun með algjörum ólíkindum. Þarna var aðildarríki NATO að ráðast á og hóta sterkasta landi sambandsins sem hefur leitt nær allar aðgerðir þess hingað til.

Þegar heimslöggan hikar

Það gæti verið eitthvað til í þessari reiði Tyrkja gagnvart Bandaríkjamönnum. Tyrkland hefur mátt þola mikinn óróleika undanfarin ár, fyrst og fremst vegna staðsetningar sinnar. Tyrkland og Sýrland deila landamærum og eru samtals rúmlega 2,7 milljónir sýrlenskra flóttamanna í Tyrklandi, á meðan um milljón sýrlenskra flóttamanna hafa sótt um hæli í Evrópu. Alþjóðapólitíkin þegar kemur að Sýrlandi hefur verið mjög flókin en Tyrkir hafa ekki geta komist hjá því að taka á móti öllum flóttamönnunum á meðan þjóðarleiðtogar heimsins spjalla saman um hvernig eigi að leysa deiluna. Bandaríkjamenn hafa þannig geta setið rólegir vestan Atlantshafs á meðan óróinn í Sýrlandi hefur reynst Tyrkjum afar kostnaðarsamur.

Aðgerðarleysi bandaríska stórveldisins í Sýrlandi hefur sætt mikilli gagnrýni og hefur Obama verið sagður vera með ofnæmi fyrir hernaðaraðgerðum. Hann vilji vera forseti friðar en ekki stríðs. Enginn er að biðja um stríð að óþörfu hins vegar. Það hefur samt komið á daginn að afleiðingar stríðsins í Sýrlandi eru geigvænlegar, einkum og sér í lagi í Evrópu.

Síðan sú kynslóð, sem Rómverjar tilheyra, fæddist hefur ekki verið alvarlega ástand í alheimspólitíkinni. Hnattvæðingin hefur þó sjaldan átt eins marga óvini og undanfarið en einangrunarhyggja og þjóðernisrembingur blómstra beggja vegna Atlantshafsins. Bandaríkin þjást af stríðsþreytu, Rússar af minnimáttarkennd og Evrópusambandið á erfitt með að koma hjólum atvinnulífsins í gang. Vestræn gildi um frjálslyndi, lýðræði og umburðarlyndi eiga undir högg að sækja og ástandið í Tyrklandi og árásin í Nice eru enn ein dæmi þess. Undir þessum kringumstæðum er mikil þörf á leiðtogaríki og það yrði afleit staða ef Bandaríkin ákveða að skríða aftur inn í skelina sem landið hefur ekki verið í síðan fyrir seinni heimsstyrjöld.

Að sama skapi hafa hófsöm öfl, hvar sem er í heiminum, ekki lengur efni á flokkadráttum eða sundurlyndi. Þá gildir einu hvort átt er við vinstri eða hægri stjórnmálaöfl. Sá popúlismi að staðsetja sig á gegnt Bandaríkjunum hefur orðið sífellt atkvæðameiri í vestrænum samfélögum. Á tímum sem þessum gengur slíkt ekki lengur því þrátt fyrir að Bandaríkin séu ekki fullkomin eru þau langt um besti raunhæfi kosturinn til að fara með valdið. Grunngildi okkar eiga undir högg að sækja á miklum óróatímum, það er okkar að verja þau.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.