Hættan af Trump

eftir Kristinn Ingi Jónsson

Það sem enginn trúði að gæti gerst hefur gerst. Donald Trump var í síðasta mánuði kjörinn forseti Bandaríkjanna. Hann verður svarinn í embættið 20. janúar og mun þaðan í frá leiða voldugasta stórveldi heims næstu fjögur árin í það minnsta. Stórveldi sem býr yfir ókjörum af kjarnorkuvopnum. Það er skelfileg tilhugsun. Svo skelfileg að það er helst ekki hægt að hugsa hana til enda.

Við munum samt lifa þessi fjögur ár af. Um það er enginn vafi. Það verður allt í lagi. Bandaríkin eiga sér langa og gamalgróna lýðræðishefð og þar má finna sterkar stjórnmálastofnanir sem eru gerðar til þess eins að standast menn eins og Trump. Hann mun ekki komast upp með hvað sem er.

Þróunin á síðustu árum og jafnvel áratugum gefur okkur hins vegar ærið tilefni til þess að hafa áhyggjur. Bandaríska stjórnarskráin hefur ekki reynst vera sú brjóstvörn fólksins gegn ofríki ráðamanna og vonir landsfeðranna stóðu til þegar þeir lögðu grunn að henni árið 1776. Sífellt meiri völd hafa færst í hendur forseta Bandaríkjanna sem er nú efalaust orðinn valdamesti maður heims. Stjórnarskráin átti að takmarka völd stjórnmálamanna, sér í lagi hættulegra popúlista eins og Trump, yfir þegnunum en ekki að gefa þeim tækifæri til þess að sanka að sér enn meiri völdum.

Landsfeðurnir vissu að hinn fullkomni frambjóðandi yrði sjaldan, ef nokkurn tímann, kjörinn í forsetaembættið. Þeir vissu af hættunni sem stafar af lýðskrumi og popúlisma. James Madison sagðist til að mynda margoft óttast að valdagráðugum harðstjóra tækist – með skjalli og fagurgala að vopni – að höfða til nægilegra margra kjósenda til þess að verða kjörinn forseti. Bandaríska stjórnarskráin var einmitt smíðuð til þess að koma í veg fyrir að slíkir ofríkismenn gætu gert hvað sem þeim sýndist vegna þess eins að þeir væru forseti. Hún lagði hömlur á ríkisvaldið og stóð vörð um réttindi borgaranna.

Þessi grunnur hefur vissulega staðið fyrir sínu en það hefur óneitanlega molnað nokkuð úr honum á þessum síðustu og verstu. Bandaríkjaforseti er eins og áður sagði orðinn afar valdamikill og tekur nú daglega þýðingarmiklar og í raun stefnumarkandi ákvarðanir í hinum ýmsu málaflokkum án þess að þurfa að spyrja kóng né prest.

Bragða á eigin meðali

Demókratar, sem hafa á undanförnum átta árum gert hvað sem þeir geta til þess að færa völd frá bandaríska þinginu og í hendur Baracks Obama, fá nú að bragða á eigin meðali. Þeir trúa því varla enn að Trump fái bráðlega í hendurnar þessi nákvæmlega sömu völd. Þeir hefðu átt að vita betur.

Lexían hlýtur að vera sú að láta stjórnmálamenn fá minni völd. Þegar vel meinandi og skynsamur maður kemst til valda er skaðinn takmörkum settur. En þegar einhver eins óhæfur og stórhættulegur og Donald Trump stígur inn í Hvíta húsið verður voðinn vís.

Valdhafar geta verið eins mismunandi og þeir eru margir. Vandinn er ekki aðeins fólginn í hve hver er valdhafi hverju sinni, heldur ekki síður í þeim völdum sem hann hefur.

Stórhættulegt fordæmi

Ein versta arfleifð forsetatíðar Obama er sú að hann réttlætti aðgerðaleysi þingsins til þess að stjórna landinu með forsetatilskipunum og reglugerðasetningum. Hann sagði það meira að segja berum orðum í stefnuræðu sinni árið 2014 að í hvert sinn sem honum gæfist tækifæri til þess að ná stefnu sinni fram án þess að þurfa að leita til þingsins myndi hann „grípa það“. Og það gerði hann svo sannarlega.

Það sama má segja um forvera hans, George W. Bush. Báðir hikuðu ekki við að hundsa þingið þegar það var þeim ekki leiðitamt og gerðu oftsinnis bara það sem þeim sýndist. Það mætti til dæmis hafa í huga, svo nærtækt dæmi sé tekið, að þingið fékk ekki að vita af hinu grimmúðlega eftirlitskerfi og fordæmalausu njósnum bandarískra yfirvalda um milljónir ríkisborgara sem Edward Snowden ljóstraði svo eftirminnilega upp um. Þær aðgerðir voru á ábyrgð forsetans, fyrst Bush en síðar Obama. Báðir nýttu þeir sér til fulls sérstaka heimild til þess að beita hervaldi – í nafni baráttunnar gegn hryðjuverkum – án aðkomu þingsins. Þingið hefur raunar ekki lýst yfir stríði frá því í síðari heimsstyrjöldinni. Bandaríkjaforsetar fyrirskipuðu innrásir í Kóreu, Víetnam, Írak og Afganistan án þess að leita samþykkis þingmanna, þvert á það sem ætla mætti að stjórnarskráin leyfði. Trump mun einnig hafa þessi völd – sömu völd – í höndum sér. Það er eitthvað sem allir ættu að óttast.

Rétt eins og flestir forsetar á undanförnum áratugum gekk Obama of langt í að sanka að sér völdum. Hann gaf út of margar forsetatilskipanir, sniðgekk þingið of oft og setti hættulegt fordæmi sem Trump verður bráðum í lófa lagið að fylgja.

Það er einmitt vegna manna eins og Trump sem við eigum að draga úr völdum stjórnmálamanna yfir lífi okkar. Fátt gott verður sagt um kjör hans, en ef það leiðir til þess að þverpólitísk sátt náist loksins um að leggja hömlur á völd ríkisins, þá er að minnsta kosti til einhvers unnið.