Hæstiréttur götunnar

eftir Elísabet Inga Sigurðardóttir

Tjáningarfrelsi er ein besta afurð lýðræðissamfélags. Netið er gríðarstór vettvangur og fer misjöfn umræða þar fram. Oft á umræðan rétt á sér en á sama tíma er hún oft galin og illa úthugsuð.

Ein hræðilegasta gerð ómálefnalegar umræðu á netinu, að mínu mati, er þegar dómstóll götunnar lætur að sér kveða að ákveðnu leyti. Sleggjudómar hans eru oftar en ekki byggðir á orðrómum án allra raka, sem geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir þá sem verða fyrir þeim.

Almennir borgarar eru duglegir að grípa umræðu sem þeir hafa litla vitneskju um og gefa henni byr undir báða vængi með þeim afleiðingum að orðspor eru sköðuð eða jafnvel eyðilögð með litlum fyrirvara án raka né sannana.

Dómstóll götunnar getur því fyrirvaralaust rifið í sig einstaklinga sem eru til dæmis kærðir fyrir alvarleg mál, áður en dómur er kveðinn upp og ekki liggur ljóst fyrir hvort viðkomandi eru saklausir eða sekir.

Almenningur tekur málin í sínar eigin hendur

Oft lætur dómstóll götunnar heyra frá sér í erfiðari málaflokkum, til að mynda ofbeldismálum sem eru erfið málsmeðferðar vegna þess að sönnunarkröfur eru miklar og oft úr litlu að moða fyrir saksóknara, þegar kemur að sönnun.

Dæmi eru um að meðlimir dómstólsins ákveða að taka málin í sínar eigin hendur, birta myndir af einstaklingum og nafngreina þá, ásamt nöfnum fjölskyldumeðlima, opinberlega á netinu af þeim sem kærðir eru fyrir alvarleg mál. Meiðyrðum og alhæfingum er hent út í hinn villta heim alnetsins.

Í mörgum ofbeldismálum er sá ákærði sýknaður þar sem ekki er næg sönnun til staðar. Oft situr sú tilfinning í fólki að hinn ákærði sé, þrátt fyrir það, sekur þó að sýkna hafi átt sér stað vegna sönnunarskorts.

Sekur án sannana

Það hefur örugglega átt sér stað, að einstaklingur sé dæmdur saklaus vegna skorts á sönnunum þrátt fyrir það að eins hrottalegt atvik og ofbeldisbrot hafi átt sér stað. Það er skelfilegt að hugsa til þess. Það verður þó að hafa í huga þá grundvallarreglu réttarríkisins að til að einstaklingur verði dæmdur sekur fyrir alvarlegan glæp, þurfi að vera hægt að sanna, að hann hafi í raun réttri framið glæpinn. Það síðasta sem vestræn ríki vilja gera, er að senda saklaust fólk í fangelsi.

Þetta eru mjög erfið mál. Oft eru aðeins tveir til frásagnar um málsatvik og upplifun aðilanna ólík. Það myndast tvær sögur, tvær upplifanir og af stað fara sögusagnir. Fólk alhæfir að eitthvað hafi átt sér stað, án þess að hafa verið á staðnum, án þess að vita hvað skeði í raun. Fólk myndar sér oft skoðun út frá ákærunni sem er oftar en ekki, aðeins toppurinn á ísjakanum sem málið í heild getur verið.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar

Ég er ekki að taka upp hanskann fyrir fúlmenni, síður en svo. Einstaklingar sem beita í raun ofbeldi, nauðga, drepa, svíkja peninga af öðrum og allt þar á milli eiga að fá refsingu við hæfi, umtal við hæfi. En þeir sem gera ekkert af þessu, geta einnig fengið harða refsingu að almannaáliti og beðið mannorðshnekki fyrir glæpi sem þeir frömdu ekki.

Verið er að skerða mannorð einstaklings til frambúðar. Einstaklingurinn getur misst vinnuna, vinasambönd verða að engu, samband við börn hans flosna upp og er andleg líðan viðkomandi skelfileg.

Einstaklingur getur verið sekur án sannana en passa verður að úthúða ekki ákærðu fólki því það getur valdið miklum skaða sé einstaklingurinn saklaus.

Almenn umræða er að sjálfsögðu mjög mikilvæg og öll umræða á að vera opin. En við verðum að passa okkur á því að það sem við segjum getur haft verulegar afleiðingar. Á meðan ég sem almennur borgari heyri af alvarlegum brotum en var ekki á staðnum og hef ekkert í hendi, máli mínu til stuðnings, ætla ég ekki að alhæfa um að einhver sé ofbeldismaður, nauðgari, fjárglæframaður eða eitthvað annað. Það þykir mér einfaldlega ekki í lagi.

Elísabet Inga Sigurðardóttir

Pistlahöfundur

Elísabet Inga er laganemi á þriðja ári við Háskóla Íslands. Samhliða náminu starfar hún sem fréttamaður. Á fyrstu árum laganámsins sat hún sem formaður Vöku fls. og var einnig varaformaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík.