Hækkandi fasteignaverð étur upp sparnaðinn

eftir Gestahöfundur

Fyrstu fasteignakaupin… hvernig á ég að fara að þessu?”, er hugsun sem meginþorri landans kannast við. Ekki búa allir svo vel við að hafa lagt nægilega til hliðar fyrir útborgun í fyrstu fasteign. Sparnaður er iðja sem getur reynst mörgum erfið, þar er ég engin undantekning.

Ég ætlaði mér eins og svo margir að flytja úr foreldrahúsum, sem ég lét verða af síðastliðið haust. Ég hafði þó ekki tök á að kaupa fyrstu eign strax og hentist því á leigumarkaðinn í von um það að ég gæti í nánustu framtíð safnað mér nógu mikið fyrir útborgun og keypt mína fyrstu eign. Síðastliðið sumar hafði ég augastað á 3ja herbergja íbúð á höfuðborgasvæðinu sem kostaði litlar (já litlar) 32,5 m.kr. Með örlitlum varasjóð sem hafði safnast í síðustu ár setti ég mér sparnaðarmarkmið fyrir hvern mánuð um að eignast 20% í útborgun og hugsaði með mér að eftir um það bil 3 ár gæti draumurinn loksins orðið að veruleika.

En með hækkandi fasteignaverði kom fljótt í ljós að þetta virtist ætla að verða mér þrautin þyngri. Þessi eign, sem í júní 2016 kostaði 32,5 m.kr. var með hækkun vísitölu íbúðarverðs á fjölbýli á höfuðborgasvæðinu komin upp í 38,7 m.kr. í apríl 2017. Þarna hafði þessi 20% útborgun, sem áður var 6,5 milljónir króna, rokið upp í 7,7 milljónir króna á ekki nema 10 mánaða tímabili.

 

 

Hér að ofan sést hvernig uppsöfnuð aukin útborgun á 32,5 m.kr. eigninni í júní 2016 hefur þróast til apríl 2017. Uppsöfnuð útborgun segir okkur hversu mikið meira við þyrftum að leggja í útborgun þar sem fasteignaverð er að hækka. Punktalínurnar þrjár endurspegla svo mismunandi upphæð mánaðarlegs sparnaðar, enda höfum við mismikinn sveigjanleika til sparnaðar byggt á útgjöldum hvers og eins. Í efstu línunni er gert ráð fyrir 140 þús kr. sparnaði á mánuði, miðlínan sýnir 120 þús kr. sparnað á mánuði og neðsta 100 þús kr. sparnað á mánuði. Þessar fjárhæðir eru svo ávaxtaðar með 5,31% vöxtum, sem er sú ávöxtun sem hlotist hefur af lausafjársjóði Stefnis síðastliðið ár. Líkt og sjá má á myndinni þá hefur fasteignaverð nokkurn veginn étið upp allan sparnað.

Þannig, ef ég hef sparað 120 þús kr. á mánuði samfleytt í 10 mánuði frá júní 2016 þá er ég í raun í sömu sporum og ég var þegar ég ákvað að byrja að spara, þar sem ég er aðeins búin að safna mér fyrir hækkun fasteignaverðs. Það er því miður hægara sagt en gert að eignast sína fyrstu fasteign. Ég spyr mig því að þessu aftur: “Ef þetta heldur svona áfram, hvernig á ég eiginlega að fara að þessu?”

 

Alexía Imsland er útskrifaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Alexía starfar á rekstrarsviði Íbúðalánasjóðs en samhliða því stundar hún nám til löggildingar í verðbréfamiðlun.