Hægri sinnaði hjúkrunarfræðingurinn

eftir Inga María Hlíðar Thorsteinson

Fyrir hvaða flokk ertu að bjóða þig fram? Mmmhh.. Sjálfstæðisflokkinn, svara ég skömmustulega, því ég nenni ekki að fá yfir mig skítkast. Það er hálfgert tabú að vera hægri sinnaður heilbrigðisstarfsmaður því í hugum margra stendur Sjálfstæðisflokkurinn fyrir einkavæðingu og lélegum kjörum heilbrigðisstarfsmanna. Hann vill takmarka aðgengi að þjónustu og leyfa læknum og ríkum körlum að græða á veiku fólki. Táknmynd hins illa. Ef ég styð flokkinn hlýt ég að vilja ójafnt aðgengi fólks að þjónustu, mismunun. Ég hlýt að vilja græða og skera niður. Allt fyrir auðvaldið.

Svona upplifi ég iðulega viðhorfið frá mörgum kollegum mínum en sannleikurinn gæti ekki verið fjarri. Þeir sem þekkja mig vita að ég brenn fyrir heilbrigðismálum. Ég vil að gæði og árangur þjónustunnar séu í hæsta gæðaflokki og að starfsumhverfið og launin séu eftirsóknarverð og góð. Kostnaður sjúklinga á að vera sem lægstur til þess að allir hafi jafnt aðgengi að læknisþjónustu, óháð efnahag, og ég er ekki ein um að vilja það, því um það ríkir þverpólitísk samstaða.

Heibrigðisþjónusta er stærsti einstaki útgjaldaliður ríkisins og vandasamt er fyrir ríkið að fjármagna málaflokkinn á gagnsæjan og skilvirkan hátt. Við stöndum frammi fyrir erfiðum vandamálum sem verður að leysa. Þjóðin er að eldast (og þar með eykst þörfin fyrir heilbrigðisþjónustu), vinnufærum einstaklingum á hvern aldraðan fer fækkandi og kostnaður þjónustunnar fer hækkandi. Því þurfum við að spyrja okkur, hvernig getum við sem þjóð tryggt gæði og öryggi heilbrigðisþjónustunnar án þess að kostnaðurinn muni koma niður á annarri opinberri þjónustu, svo sem menntun, samgöngum og annarri þjónustu sem krefst útgjalda úr ríkissjóði? Því er ekki að undra að menn leiti ráða til að takmarka útgjöld, t.d. með hagræðingu og aukinni kröfu um afrakstur og meiri skilvirkni.

Auka þarf heildarútgjöld til heilbrigðismála

Í fyrra fór Kári Stefánsson af stað með undirskriftasöfnun um að ríkið ætti að verja 11% af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála og skrifuðu 87 þúsund Íslendingar undir. Líkt og Pawel Partoszek skrifaði um á sínum tíma, er ennþá ekkert OECD ríki sem ver slíkum upphæðum frá hinu opinbera í heilbrigðisþjónustuna (ennþá). Hins vegar voru heildarútgjöld til heilbrigðismála, að meðtaldri kostnaðarþáttöku sjúklinga og fyrirtækja/stofnana um 11% í Svíþjóð árið 2014, 9,8% að meðaltali á Norðurlöndunum og 8,8% á Íslandi. Framlög hins opinbera í Svíþjóð voru hins vegar 9,3% árið 2014, 8% að meðaltali á Norðurlöndunum og 7,1% á Íslandi.

Heimild: Health expenditure and financing, OECD.Stat

Framlög hins opinbera eru í meðallagi miðað við önnur OECD lönd þegar ekki er tekið tillit til aldurssamsetningar þjóðarinnar. Væri íslensk þjóð hins vegar jafn gömul og hinar Norðurlandaþjóðirnar væru útgjöldin með þeim hæstu hér á landi (Heimild: Samtök atvinnulífsins, Um áskoranir og tækifæri í heilbrigðisþjónustu). Skýrist það af því að íslenska þjóðin er ung, og ætti því í raun ekki að þurfa að verja eins miklum fjármunum í kerfið og hún gerir. Gefur það enn frekari vísbendingar um að við munum þurfa að auka framlögin enn frekar í framtíðinni nema ráðist verði í hagræðingar. Samt sem áður vantar fé í innviði, svo við hljótum að vera að gera eitthvað rangt.

                

Heimild: Samtök atvinnulífsins, Um áskoranir og tækifæri í heilbrigðisþjónustu

Auka þarf samkeppni og eftirlit

Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu hér á landi felst í því að veitendur þjónustunnar gera samninga við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) og sjúklingunum fylgir fjármagn. Eins og staðan er í dag eru fjórar einkareknar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Einkarekstur gerir hinu opinbera kleift að takmarka útgjöld sín á meðan þjónustan er ekki skert. Þess þá heldur, því einkareknar heilsugæslustöðvar hafa t.a.m. sýnt fram á mun meiri afköst og hagkvæmni en opinberar heilsugæslustöðvar vegna hagræðingarhvata, en sjúklingurinn ber engan auka kostnað, sbr. Salastöðin í Kópavogi. Valkvæðar aðgerðir sem eru gerðar utan sjúkrahúsa og þykja ekki lífsnauðsynlegar, svo sem hálskirtlatökur, handaaðgerðir og lýtaaðgerðir, stytta biðtíma sambærilegra aðgerða innan þeirra. Þannig færast þeir, sem ekki eiga efni á að greiða aukakostnað við aðgerðir utan sjúkrahúss, ofar á biðlistann. Þeir sem hafa meira á milli handanna geta greitt meira fyrir þjónustuna og aðrir njóta góðs af því.

Í kerfi þar sem fé fylgir sjúklingnum neyðast stofnanir til að veita sem skilvirkasta og besta þjónustu vegna þess að sjúklingarnir velja sjálfir hvert þeir leita og fjármagnið fylgir þeim. Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafa umsjón með samningum við heilbrigðisstofnanir og aðra veitendur þjónustunnar hér á landi. Nýleg skýrsla sem kom út á þessu ári (og ég fjallaði um í síðasta pistli mínum) sýnir þó að með fjölgun samninga SÍ við ákveðna sérgreinalækna sem framkvæma lækningar og aðgerðir á einkastofum sínum eykst tíðni aðgerða um of. Því er mikilvægt að við tilfærslu á fjárframlögum sé viðhaft strangt eftirlit á þjónustunni svo hér verði ekki farið út í oflækningar með tilheyrandi auknum kostnaði úr ríkissjóði, á kostnað þeirra aðgerða og meðferða sem gerðar eru á opinberum stofnunum og eru nauðsynlegar.

Breytt fjármögnun

Af framangreindu er ljóst að útgjöld til heilbrigðismála munu halda áfram að aukast. Við stöndum nokkuð vel í sambanburði við önnur OECD lönd hvað útgjöld til heilbrigðismála varða, en árangur og aukin fjárframlög haldast ekki alltaf í hendur. Verja þarf peningunum á skynsamlegan hátt.

Heilsugæslan hefur tekið upp svokallaða „fjármögnun eftir forskrift“ þar sem fjármagn fylgir þjónustuþörf. Fjármögnunin byggist á íbúafjölda á hverju svæði og þörf íbúa fyrir heilbrigðisþjónustu. Fjárheimildum er síðan dreift á heilbrigðisumdæmin eftir höfðatölu en leiðrétt fyrir aldri, fjarlægðum frá þjónustunni, kyni og félagslegum þáttum. Á meðan miðast fjármögnunarkerfi Landspítalans við núverandi umfang og innviði en ekki þjónustuþörf sjúklinga. Til þess að fjármagn fylgi þörfum sjúklinga í sérhæfðri og almennri sjúkrahúsþjónustu væri einnig hægt að innleiða sama kerfi þar og í heilsugæslunni eins og lagt er til í skýrslu SA.

Einnig er mikilvægt að innan heilbrigðisgeirans sé umhverfi fyrir heilbrigðisstarfsmenn til að starfa sjálfstætt og skapa samkeppni. Hvatar þurfa að vera til staðar til að veita betri og hagkvæmari þjónustu á grundvelli þess að sjúklingarnir hafi val um hvert þeir sækji þjónustuna og fé fylgi síðan hverjum og einum þeirra. Leggja þarf meiri áherslu á forvarnir og aukna þjónustu á grunnstigi með því að styrkja heimahjúkrun og heilsugæslu til þess að fólk geti verið lengur heima og þurfi ekki bráðainnlagnir á spítala.

Ráðstöfun fjár

Ég er viss um að vel sé hægt að gera heilbrigðisgeirann sveigjanlegri. Þannig skapast meira val fyrir sjúklingana og einnig fyrir starfsfólkið sem gerir störf í heilbrigðisþjónustu eftirsóknarverðari. Hið opinbera þarf vissulega að bæta fjármagni í heilbrigðiskerfið og setja málefni í eins og geðheilbrigðismál í forgang. Eins er til dæmis brýnt að leita lausna til þess manna þau 560 stöðugildi hjúkrunarfræðinga sem vantar þegar 1000 hjúkrunarfræðingar á Íslandi starfa við eitthvað annað en hjúkrun (flug, leikskóla, þjónustustörf o.s.frv.). Ljóst er að það er á mörgu að taka. Það er þó óábyrgt að halda fast í ákveðna prósentu af landsframleiðslu, eins og sumir flokkar gera nú í kosningabaráttunni, af því bara. Betra væri að greina þörfina og forgangsraða fénu þangað.

Inga María Hlíðar Thorsteinson

Pistlahöfundur

Inga María útskrifaðist úr hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands vorið 2016 og ljósmóðurfræði 2018. Hún hefur bæði starfað á Fæðingarvakt og Meðgöngu- og sængurlegudeild LSH eftir útskrift, auk þess að sinna heimaþjónustu ljósmæðra. Inga María var varaformaður Stúdentaráðs HÍ, formaður félags hjúkrunarfræðinema við HÍ og síðar hagsmunafulltrúi félagsins á námstíma sínum. Hún situr nú í velferðarnefnd Sjálfstæðisflokksins.