Hæ, má bjóða þér leikskólapláss í Reykjavík?

eftir Kristófer Már Maronsson

Það tekur þrjár mínútur að lesa þennan pistil.

Hvað er það sem þig myndi mest langa að heyra næst þegar þú tekur upp símann og svarar ókunnugu númeri? Hugsaðu þig vel um, það er hægt að velja um ótal hluti. “Hæ, má bjóða þér leikskólapláss í Reykjavík?” er það sem mig dreymir um að heyra. Eins og staðan er núna lítur út fyrir að árs gömul dóttir mín fái ekki pláss á leikskóla á vegum borgarinnar fyrr en haustið 2019, í fyrsta lagi. Þá verður hún tæplega þriggja ára gömul. Ég get lofað þér því að hún er ekki sú eina, það eru margir á þessum stað og það getur ekki talist ásættanlegt þegar í fyrra var ákveðið að lækka leikskólagjöld, sem bitnar óneitanlega á þjónustu barna í leikskólum Reykjavíkurborgar.

Vissulega hentar það fjárhag foreldra að einhverju leyti betur að leikskólagjöld lækki, en hver er ávinningurinn í stóra samhenginu? Færra fólk er tilbúið að vinna við lélegar aðstæður svo börn fara enn seinna inn á leikskóla. Foreldrar þurfa að hanga launalausir heima með börnin sín til að brúa bilið þangað til þau koma þeim til dagforeldra. Dagforeldrar í Reykjavík kosta allt að þrefalt meira en leikskólapláss og þeir hafa ekki undan í að neita óþreyjufullum foreldrum um pláss.

Leysum vandamálið

Hvers vegna reynum við ekki að færast nær mörgum öðrum þjóðum í uppeldis- og skólamálum? Í fjölmörgum löndum útskrifast nemendur úr framhaldsskóla 18 ára, margir eru komnir með Bachelor gráðu 21 árs og jafnvel meistaragráðu 22 ára. Ég er ekki að tala um að stytta grunnskólann í níu ár, heldur hliðra allri skólagöngu um eitt ár. Þannig að 5 ára börn byrji í skóla á haustin og 15 ára táningar útskrifist á vorin. Þegar heill árgangur af börnum er farinn ári fyrr úr leikskóla opnast fyrir heilan árgang af yngri börnum inn á leikskóla, þ.e.a.s. eins og staðan er í Reykjavík í dag myndu börn komast inn á leikskóla á öðru aldursári frekar en því þriðja – sem er auðvitað ekki heldur ásættanleg staða, en talsvert skárri.

Þetta er ekki hægt, grunnskólarnir springa

Áður en maður nær að klára að lýsa hugmyndinni hugsa sennilega margir að þetta sé óraunhæft. “Þú getur ekki sett heilan árgang sísvona fyrr upp í grunnskóla”. Ég er sammála, og er alls ekki að leggja það til. Mín tillaga væri að gera þetta á þremur til fjórum árum. Segjum að það yrði byrjað í haust, þá myndi þetta ganga svona fyrir sig:

2018: Börn fædd í janúar 2012 til mars 2013 – útskrift 2028

2019: Börn fædd í apríl 2013 til júní 2014 – útskrift 2029

2020: Börn fædd í júlí 2014 til september 2015 – útskrift 2030

2021: Börn fædd í október 2015 – desember 2016 – útskrift 2031

2022: Börn fædd á árinu 2017 – útskrift 2032

Eftir 13 ár heldur skólagangan áfram eins og hún er í dag, einn árgangur er inni í einu. En hvað hefur breyst? Frá og með árinu 2021 er raunhæfur kostur að fá leikskólapláss fyrir börnin sín frá 12-18 mánaða aldri í Reykjavík að öllu öðru óbreyttu. Sem er ekki það sem beðið var um – en það er betri staða en í dag. Skref í rétta átt.

Það nennir enginn að bíða lengur

Hér er komin ein tillaga að lausn, ein af mörgum. Sérstaða þessarar tillögu er að hún hefur skýrt markmið og aðgerðaráætlun sem tekur á vandanum og leysir hann á einu kjörtímabili, það er óumdeilanlegt. Einhverjar aukaverkanir verða af því að senda 25% fleiri börn í skóla fjögur ár í röð – en það er útfærsluatriði sem þarf að tækla, líkt og í öllum tillögum. Það er bara spurning hver ætlar að taka af skarið og leysa vandamálið. Ég nenni að minnsta kosti ekki að bíða lengur.

Kristófer Már Maronsson

Pistlahöfundur

Kristófer Már er tveggja barna faðir sem stundar nám við Hagfræðideild Háskóla Íslands og starfar samhliða við viðskiptaþróun hjá aha.is. Hann var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands frá 2016-17 en var skólaárið 2015-16 framkvæmdastjóri Stúdentaráðs og formaður Ökonomiu, félags hagfræðinema við háskólann. Áður var hann markaðsstjóri nemendafélags Verzlunarskóla Íslands. Meðal áhugamála Kristófers Más eru knattspyrna, hagfræði og skák. Skrif hans í Rómi beinast einkum að hagfræði, fjármálum og hagsmunabaráttu ungs fólks.