Gullfoss eða Drullufoss?

eftir Sigurður Tómasson

Sjaldan hefur mér fundist jafn gaman að labba um miðbæ Reykjavíkur og núna í sumar. Ekki hefur skínandi gott veðrið skemmt fyrir en fyrst og fremst stafar gleði mín af öllu þessu fólki. Skælbrosandi ferðamenn valsa um borgina og finnst virkilega gaman að vera hér, af öllum stöðum. Eftir að Eyjafjallajökull skeit á Evrópu hefur komið alda af brosandi ferðamönnum til landsins og maður getur rétt ímyndað sér hver áhrifin verða af gengi íslenska landsliðsins í fótbolta. Það er erfitt að hugsa sér að ferðamönnum muni fara fækkandi, heldur fari frekar fjölgandi.

Þó maður grínist með að hér sé ekki þverfótað fyrir ferðamönnum líkt og það sé einhver kvöð finnst mér þetta frábært. Það er ekki langt síðan bærinn var hálftómur nema á næturnar þegar við Íslendingar deyfðum mannfæluna með áfengi, en nú er öldin önnur. Sælkerum til mikillar gleði hafa frábærir veitingastaðir sprottið á hverju horni (og þeir þrauka yfir veturinn, stór plús), við bjórdrykkjumennirnir höfum aldrei getað dreymt um jafn fjölbreytt vöruúrval þar sem Víking gylltur eða Egils Gull heyra sögunni til, og vinsælasta fataverslun landsins, H&M, er loksins að koma hingað.

Þá hefur ferðamannaiðnaðurinn átt stóran þátt í að blása þjóðarskútunni út úr þessari blessuðu kreppu. Gjaldeyrir hefur streymt til landsins og er ferðamannaiðnaðurinn í dag stærsta útflutningsgreinin okkar (31% af heildarútflutningi árið 2015). Jafnframt hefur mikil eftirspurn eftir vinnuafli í ferðaþjónustunni hjálpað til við að keyra niður atvinnuleysið sem er sama og ekkert í dag (2,2% í maí – takk og bless).

Síðan er Reykjavík ekki eina svæðið sem hefur grætt á ferðamönnunum heldur þvert á móti. Þeir stökkva flestir upp í rútu eða bílaleigubíl og skoða allt landið, bæði okkar helstu gersemar og einnig fábrotna lífið í afskekktustu smábæjum. Ferðamannaiðnaðurinn hefur verið betri byggðastuðningur en nokkurt stjórnmálaafl hefur geta boðið upp á (ehem, Framsókn) og viti menn, byggðastuðningur í boði markaðarins! Bændur út um allt land hafa jafnframt getað losað sig úr fátækragildru íslenska landbúnaðarkerfisins með bændagistingu og sölu á ýmissi afþreyingu. Svo eru bændabýli líka falleg (þó ég haldi reyndar að ferðamenn komi hingað frekar út af auðninni).

Snilldin ein? Nei. Ekki alveg.

Ferðamennirnir eru margir – og labba mikið

Landið okkar er takmarkað stórt og getur tekið á móti takmarkað mörgum ferðamönnum. Því minna sem við fjárfestum í innviðum og uppbyggingu ferðamannastaða, því fyrr verða ferðamennirnir orðnir of margir fyrir landið. Og þegar þeir eru orðnir of margir fara þeir ekki heim og segja við vini sína og fjölskyldu að Ísland sé dásamlegt heldur að það hafi verið let down og drullusvað, og þá fer ferðamönnunum að fækka aftur. Þá gætum við vel fengið að kynnast öðrum efnahagsskelli.

Sumarið 2014 heimsóttu 60% ferðamanna Gullfoss og Geysi og þá voru ferðamennirnir um milljón talsins. Þeim fjölgaði síðan um 29% á milli ára og spáir Íslandsbanki jafnmikilli aukningu á þessu ári, svo þeir verði samtals rúmlega 1,6 milljón! Djöfull munu margir þá horfa á vatnið hrynja niður við Gullfoss og skjótast upp við Geysi. Og djöfull munu margir labba þarna um. Fer ekki Ísland að breytast í drullusvað fljótlega?

Jú – og það er eiginlega nú þegar orðið þannig (dæmi: 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 9, o.s.frv.).

Þannig við þurfum að gera eitthvað í þessu og þetta vandamál er þess eðlis að við þurfum að setja meiri pening í þetta. Stóra spurningin er: Hvernig?

Minna og minna skilið eftir

En áður en við svörum stóru spurningunni þarf ég að árétta eitt fyrst með smá servíettureikningum um hversu mikið þessir blessuðu ferðamenn skilja eftir hér á landi (ekki gefast upp á lestrinum). Árið 2012 komu hingað til landsins um 670 þúsund manns og eyddi hver ferðamaður að meðaltali 160.600 krónum. Árið 2015 komu tæpar 1,3 milljónir(!) manns og eyddu ferðamennirnir 161.600 krónum hver. Aukning? Nei. Leiðrétt fyrir verðbólgu voru meðalútgjöldin um 174 þúsund krónur árið 2012 miðað við 161 þúsund krónur árið 2015. Við köllum þetta „samdrátt“ á góðri íslensku.

Á sama tíma fjölgar störfum hratt í greininni. Árið 2012 voru ferðaþjónustutengd störf 17.500 talsins en árið 2014 voru þau orðin 21.600! Ef við gerum ráð fyrir að 2015 hafi þau verið jafnmörg og árið 2014 (vantar nákvæm gögn) þá kemur frekar bitur veruleiki í ljós. Útgjöld ferðamanna á hvern starfsmann í ferðaþjónustunni minnkaði um 25%, úr 10 krónum per starfsmann í 7,5 krónur. Á þremur árum.

Þannig ferðamönnum fjölgar og þeir eyða minna. Á sama tíma ræður landið varla við traðkið og við þurfum nauðsynlega að afla fjár til þess að ráða við allan þennan þunga.

Ég, persónulega, vil öðruvísi þróun. Mér er sama þó ferðamönnum fjölgar ekki, ég vil að við fáum meiri tekjur af þeim og ég vil halda landinu fallegu.

Góðgerðarlandið

Í grunninn eru tvær leiðir í boði til þess að búa um innviðina og náttúruperlurnar (sem er það sama):

a. Einhvers konar gjaldtaka

b. Óbreytt ástand

Pælum fyrst í óbreyttu ástandi. Ísland verður áfram ódýrt þannig að fólk kemur til landsins og skilur lítið eftir þar til landið er „traðkað í drasl“. Gjöldin sem ferðamenn borga eru nánast öll þau sömu og hinn almenni Íslendingur borgar þó Íslendingurinn myndi ekkert ferðast innanlands. Hann borgar vask, bensínskatt, einhvern flugskatt þegar hann flýgur til útlanda o.s.frv. Eina sem hann borgar almennt ekki sem ferðamaðurinn borgar er gistináttaskatturinn sem nemur 100 krónum á hvert gistirými, hverja nótt og hann hefur verið óbreyttur frá 2012. Hundrað krónur!

Sumir hafa rökstutt óbreytt ástand með því að segja að hér séu útlendingarnir gestir í okkar landi og við séum gestgjafar. En þá verða þeir sömu að sætta sig við það að við séum að niðurgreiða alla ferðamenn frekar feitt, til að hjálpa þeim að traðka landið. Til þess að koma í veg fyrir að landið sé traðkað þarf bara að gjöra svo vel að hækka skatta, til þess að niðurgreiða ferðir útlendinga til landsins. Og þá erum við að treysta á það að ríkið fari vel með peningana okkar.

Hitt er svo að hækka bara gistináttaskattinn. Það gera flest lönd og vegna einfaldleikans er ég hlynntur því til að gera eitthvað sem fyrst. Gallinn er hins vegar sá að skatturinn leggst á marga sem koma ekki til að skoða náttúruperlur landsins og margir sem gera það komast undan skattinum. Hvorki þeir sem koma með skemmtiferðarskipum (dagsferðargestir, sem eru þeir sem koma með skipum og dvelja ekki næturlangt í landinu, voru 100 þúsund árið 2015) né þeir sem gista í bílum sínum þurfa til að mynda að greiða gistináttaskattinn. Svo veit maður ekki hversu margir leigja út íbúðina sína án þess að rukka og greiða gistináttaskatt.

Bottom line: Óbreytt ástand þýðir að Íslendingar niðurgreiði ferðir annarra til landsins enn frekar með því að greiða hærri skatta eða eiga hættu á að landið traðkist, eða að einungis hækka gistináttaskattinn en þá eru ekki allir rukkaðir sem koma hingað og njóta landsins.

Græðum! (og græðum svo landið)

Þá er það hitt, að beita einhvers konar gjaldtöku (sem gistináttaskatturinn fellur tæknilega séð undir en ég ákvað að skipta þessu öðruvísi upp). Náttúrupassinn er mjög sniðugur en hann er því miður dauður. Erfitt væri að fylgjast með bílastæðagjaldi þar sem allir, Íslendingar jafnt sem ferðamenn, leggja út um allar trissur hvort eð er. Komugjald á flugferðir á síðan við svipað vandamál að glíma og gistináttaskattur en hann er skattbyrði á marga einstaklinga sem eru ekki endilega að fljúga hingað til að skoða landið.

Þá er bara eitt eftir. Gjaldtaka við náttúruperlurnar.

Íslendingar hata þá hugmynd. Allir urðu brjálaðir þegar það komst í fréttirnar að hellaskoðun í Borgarfirði kostaði 6500 krónur, og við skulum ekki einu sinni byrja að tala um Bláa lónið. Mér finnst þessi reiði furðuleg. Einhverja hluta vegna teljum við okkur eiga rétt á að skoða allt landið frítt vegna þess að við erum Íslendingar á meðan aðrir eigi að borga, sem er bara einhver þjóðrembingur. Auk þess finnst mér skrítið að þeir sömu séu ekki tilbúnir að borga gjald til að styðja við þá staði sem þeim þykir vænst um, í stað þess að fjármagnið týnist í peningatætara ríkisvaldsins. Síðan ferðast margir Íslendingar lítið sem ekkert og ættu alls ekki að vera skattlagðir enn meira til að greiða fyrir þjónustu sem þeir nota ekki.

Ég er ekki að tala um að einkavæða þetta allt saman þó mér finnist það í nánast öllum tilfellum vera betri kostur – ef það er hægt – en það er annar pistill. Ég er bara að tala um að hafa tekjurnar nær svæðunum sem virkilega þurfa á þeim að halda. Þannig er aðgengi takmarkað að einhverju leyti og meira fjármagn berst til staðanna sem þurfa mest á því að halda. Það má til að mynda rétt ímynda sér uppbygginguna í kringum Gullfoss og Geysi ef ferðamenn þyrftu að greiða fyrir aðganginn. Með gjaldtöku á ferðamannastöðunum sjálfum verður meira fjármagn eftir í hagkerfinu til þess að fjárfesta, borga hærri laun og búa til verðmætari störf, sem ferðamannaiðnaðurinn býður ekki upp á eins og er. Við Íslendingar ættum að fagna þessu.

Fyrir ykkur sem nenntuð ekki að lesa þá er þetta í raun bara þannig að til að vernda náttúruna og skapa verðmæti er hagkvæmast að beita gjaldtöku á ferðamannastöðum, og af hverju í fjandanum ættum við viljandi að gera eitthvað óhagkvæmt?

 

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.

Sigurður Tómasson

Pistlahöfundur

Sigurður er hagfræðingur með M.Sc. úr Kaupmannahafnarháskóla og B.Sc. úr Háskóla Íslands. Sigurður starfar nú sem ráðgjafi í Danmörku en áður starfaði hann hjá Viðskiptaráði Íslands og viðskiptafréttadeild Morgunblaðsins. Skrif hans í Rómi beinast einna helst að hagfræðilegum málefnum.