Golf er fyrir alla

eftir Oddur Þórðarson

Í dag fer fram annar dagur af fjórum á Íslandsmótinu í höggleik 2019. Um 200 kylfingar á öllum aldri taka þátt og hundruðir manna mæta á völlinn sem áhorfendur og taka þannig þátt í gleðinni. Einna helst á sunnudeginum þegar úrslitin ráðast. Svona viðburð væri svo ekki hægt að halda með eins miklum glæsibrag og raun ber vitni, ef ekki væri fyrir alla sjálfboðaliðana sem hjálpa til við skipulag og framkvæmd mótsins. Í ár er leikið á Grafarholtsvelli, öðrum tveggja valla Golfklúbbs Reykjavíkur, en þar var mótið seinast haldið fyrir 10 árum síðan, árið 2009. Þá vann Ólafur Björn Loftsson út Nesklúbbnum eftir hádramatískan lokakafla á sunnudeginum.

Aldrei er neinn ekki nógu fínn til að byrja

Golf er mjög oft misskilið. Íþróttin er í fyrsta lagi ansi oft ekki einu sinni talin íþrótt þangað til viðkomandi prófar sjálfur. Þá er það svolítið svart á hvítu að golf er íþrótt. Og alls ekki auðveld íþrótt í þokkabót. Annar misskilningur er að golf sé bara fyrir ríka og fína fólkið. Vel má vera að sú hafi raunin verið fyrir einum hundrað árum eða svo en slíkt gæti ekki verið fjarri sannleikanum í dag. Fólk kvartar oft yfir því að það eigi ekki fatnað eða græjur til þess að byrja að stunda golf. Svo sé startkostnaður þess sem ætlar að byrja svo hár” Frægt er að það „megi ekki” vera í gallabuxum á golfvelli. Það er ekkert heilög regla en ég persónulega gæti ekki skilið hver myndi vilja vera í gallabuxum í golfi. Maður sér fólk sjaldnast stunda líkamsrækt eða íþróttir í gallabuxum.

Það eru allir í golfi

Það hafa líklega flestir orðið varir við á sínum vinnustað, í sínum vinahópi eða innan fjölskyldunnar að það eru hreinlega allir alltaf í golfi. Einhverjir hafa verið í mörg ár og eru betri, aðrir voru bara að byrja og eru því enn að taka sín fyrstu skref. Það skiptir ekki máli hvar fólk stendur, það geta allir verið með. Og það geta allir spilað með öllum. Golf er svo yndislegt að því leyti. Fólk getur líka byrjað á hvaða aldri sem er. Ótal margir sem ég hef hitt segja að þeir séu ekki alveg tilbúnir til þess að byrja núna en geti svo vel hugsað sér að gera það þegar þeir eru komnir á efri árin.

Félagsskapurinn er bestur

Hvort sem það er með vinum, fjölskyldu eða vinnufélugum, er það oftast félagsskapurinn sem er bestur. Þrátt fyrir fallega landslagið, góða veðrið, hollu hreyfinguna og góðu hressinguna í lok hrings, þá væri þetta ekkert gaman nema í góðu föruneyti skemmtilegs fólks. Ég hvet því alla til þess að skella sér í golf eftir vinnu á þessum sólríka föstudegi. Hvort sem þið væruð að fara í fyrsta skipti, þúsundasta skipti eða aftur eftir langa pásu. Ekki síður hvet ég alla til að leggja leið sína á Grafarholtsvöll til þess að fylgjast með tilþrifum þeirra bestu á Íslandi.

Oddur Þórðarson

Stjórn, ritstjórn og pistlahöfundur

Oddur er grunnnemi í Stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur tekið virkan þátt í pólitísku og menningarlegu starfi undanfarin ár og setið í alls kyns stjórnum, nefndum og ráðum síðan á grunnskólaaldri. Oddur hefur mestan áhuga á dægurmenningu Íslendinga og popp-kúltúr.