Góður sáttmáli

eftir Ritstjórn

Nýsamþykktur stjórnarsáttmáli lofar afar góðu. Áherslurnar sem í honum eru kynntar eru flestar ef ekki allar frjálslyndar og þoka stöðu mála hér á landi í rétta átt. Ef eitthvað ætti að gagnrýna væri það einna helst að hann sé ekki nógu afdráttarlaus og gangi of skammt. Samanborið við stjórnarsáttmála síðustu tveggja ríkisstjórna er þó um kraftaverk að ræða.

Þar eru nokkur góð mál sem ekki náði að klára líkt og á síðasta þingi líkt og frumvarp um námsstyrki. Fyrst og fremst virðist þó eiga að snerta á viðkvæmum málum sem fyrri ríkisstjórnir hafa ekki haft þor í sér til að gera. Má þar nefna mjólkuriðnað og landbúnaðarmál í heild sinni. Auk þess er gott að heyra að sala ríkisbanka er komin á dagskrá. Þá má nefna hugmyndir sem eru ekki nýjar en hafa hingað til ekki komist í framkvæmd líkt og stöðugleikasjóð auðlindagjalda.

Bjarni ræður nýjan Seðlabankastjóra og Benedikt þarf að horfa á

Athyglisvert var þó að lesa er Stundin greindi frá því að Seðlabanki Íslands færi frá fjármálaráðuneytinu yfir til forsætisráðuneytisins. Í lögum um Seðlabanka Íslands segir að Seðlabankastjóri skuli skipaður á fimm ára fresti og jafnframt að ekki megi skipa sama einstaklinginn oftar en tvisvar til fimm ára. Þetta hefur í för með sér að Bjarni Benediktsson en ekki Benedikt Jóhannesson mun taka ákvörðun um skipan næsta Seðlabankastjóra. Slíkt hlýtur að teljast til mikilla tíðinda enda liggur stærsti ágreiningur Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins í peningamálum. Það kemur því á óvart að Benedikt hafi fallist á að Bjarni hefði málefni Seðlabankans á sinni könnu. Haldi stjórnin til 2019 verður forvitnilegt að sjá hvernig ráðning nýs Seðlabankastjóra fer fram.

Illdeilur áhyggjuefni

Í ljósi lítils meirihluta stjórnarinnar er áhyggjuefni að Sjálfstæðisflokkurinn, burðarás stjórnarinnar, deili innbyrðis og það á hveitibrauðsdögunum. Formaður flokksins var í erfiðri stöðu við ráðherraskipanir enda leiddu karlmenn fimm kjördæmi af sex og í ofanálag þurfti Ólöf Nordal, varaformaður flokksins, að draga sig tímabundið í hlé frá stjórnmálum vegna veikinda. Hins vegar virðist Bjarna Benediktssyni ekki hafa náð að leysa vanda sinn í fullkominni sátt og sú skringilega staða uppkominn að einstaklingar sem töpuðu í prófkjöri voru verðlaunaðir með embætti.

Þá hlýtur að sæta furðu, einkum og sér í lagi í samhengi stjórnarsáttmálans, að Jón Gunnarsson hafi verið skipaður í embætti samgönguráðherra. Á meðan er Páll Magnússon, sem vann stórsigur í prófkjöri, látinn dúsa í kuldanum.

Fyrir ríkisstjórnarmyndunina var það Sjálfstæðisflokkurinn sem var hræddur við að samstarfsflokkarnir myndu sprengja stjórnina en nú lítur frekar út fyrir að mesta hættan liggi hjá honum. Það er afar mikilvægt að Sjálfstæðismenn slíðri sverðin ef þeim á að lukkast að halda lífi í efnilegri ríkisstjórn með framúrskarandi stjórnarsáttmála.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.