Góðir menn og réttsýnir

eftir Gestahöfundur

Fram yfir miðja síðust öld var ákæruvald hérlendis nátengt hinu pólitíska valdi og ekki varð á því gagnger breyting fyrr en með stofnun sjálfstæðs embættis ríkissaksóknara árið 1961. Hugmyndir um sérstakt embætti saksóknara ríkisins áttu sér langan aðdraganda. Gunnar Thoroddsen, alþingismaður Mýrasýslu, lagði fram frumvarp til laga haustið 1934 um stofnun slíks embættis og mælti fyrir málinu í jómfrúarræðu sinni á Alþingi. Þar fórust honum meðal annars svo orð:

 

Það hefir geysimikla þýðingu, í hverra höndum ákæruvaldið er og hvernig með það er farið. Það er hin mesta nauðsyn, að það sé í höndum góðra og réttsýnna manna og að því sé beitt með fullu réttlæti. Í meðferð þess er tvenns að gæta. Annars vegar, að því sé aðeins beitt gegn öllum þeim, sem glæpi hafa drýgt, og hins vegar, að því sé ekki beitt gegn saklausum mönnum.

Það getur haft geigvænleg áhrif, ef maður er ákærður fyrir afbrot sem hann er alsaklaus af, jafnvel þótt hann verði sýknaður að lokum. Ákæran ein, með öllum þeim réttarhöldum, vitnaleiðslum, varðhaldi, yfirheyrslum og umtali manna í milli, sem sakamálarannsókn eru samfara, getur gert honum slíkt tjón, bæði andlega og efnalega, að hann bíði þess seint bætur.

 

Þessi bútur úr ríflega 82 ára gamalli þingræðu varð kveikja að margvíslegum vangaveltum mínum. Þrátt fyrir að lagabókstafur sé jafnan skýr verður ekki fram hjá því litið að öll framkvæmd laga er í höndum einstaklinga, manna af holdi og blóði. Í greinargerð með frumvarpi Gunnars var komist svo að orði að í meðferð ákæruvalds hér á landi væri „gengið á svig við það, sem rétt er og löglegt, og það notað til ofsóknar eða yfirhylmingar“. En á þessum tíma voru opinberir ákærendur starfandi innan ráðuneytis dómsmála og því nátengdir hinu pólitíska valdi. Slíkt fyrirkomulag bauð hættunni heim á misnotkun ákæruvalds. Frumvarpið hlaut ekki brautargengi og alls liðu 27 ár þar til stofnað var sérstakt embætti ríkissaksóknara. Þá var stórt skref stigið í átt til traustara réttarríkis hér á landi.

 

Fyrsti ríkissaksóknarinn var Valdimar Stefánsson (1910–1973), en hann hafði áður gegnt embætti sakadómara í Reykjavík og sinnt öðrum lögfræðistörfum. Hann naut trausts og virðingar, hafði ekki komið nærri stjórnmálavafstri og stjórnmálaskoðanir hans voru samstarfsmönnum hans ekki kunnar. Afstaða hans til mála réðst heldur ekki af neinum þess háttar sjónarmiðlum og ekki er til þess vitað að pólitísk rök hafi legið til skipunar hans í embættið, líkt og svo mörg dæmi eru um hér á landi. Einn fyrrverandi samstarfsmanna hans sem ég ræddi við sagði Valdimar hafa verið „stóran persónuleika“, hafinn yfir dægurþras og stjórnmál. Hann hafi aldrei ákært nokkurn nema telja að ákæra leiddi til sakfellingar.

 

Sumir eftirmanna Valdimars hafa allt að því fyllst „ákærugleði“. Hin vönduðu fræðilegu vinnubrögð Valdimars hafa ekki alltaf verið höfð að leiðarljósi og stundum verið ákært þegar ljóst mátti vera að ekki voru yfirgnæfandi líkur á sakfellingu eða jafnvel litlar líkur. Sama hefur gilt um ýmsa sérstaka saksóknara.

 

Þessar vangaveltur hafa leitt huga minn að að hugtaki sem er vel þekkt í íslensku máli, „milt yfirvald“. Meðal alþýðu manna hefur hér á landi verið talið ein besta einkunn sem hægt væri að gefa embættismanni að hann hefði beitt valdi sínu af mildi. Gott réttarfar næst ekki eingöngu fram með góðum lögum, einnig þarf að huga að framkvæmd þeirra. Vísi-Gísli Magnússon (1631–1696) orðaði þetta svo á 17. öld: „Betri eru góðir embættismenn en góð lög.“ Hann var sýslumaður Rangæinga 1659–1696, á þeim tíma er galdrafárið stóð sem hæst hérlendis. Enginn var líflátinn fyrir galdra á Suðurlandi á sama tíma og sextán manns voru brenndir á Vestfjörðum fyrir galdur, en mildi Gísla sýslumanns hefur löngum verið álitin ein helsta ástæða þess að engir galdramenn voru líflátnir sunnanlands. Gísli var vinsæll af alþýðu manna, mikils metinn og var hjálpsemi hans við brugðið.

 

Enginn þarf að velkjast í vafa um að þeir einstaklingar sem fara með opinbert vald hafa mikil áhrif á framkvæmd laga og hin fornu varnaðarorð Vísa-Gísla eru í fullu gildi um að betri séu góðir embættismenn en góð lög. Vondir embættismenn eru allt eins líklegir til að ganga í hina áttina og beita valdi sínu af miskunnarleysi og ósanngirni. Galdrafárið hér á 17. öld er líklega versta dæmi þar um en „galdrafár“ hafa birst okkur í öðrum myndum á seinni árum.

 

Meira um það síðar.

 

541798_10201968243993559_1830701580_nBjörn Jón Bragason er sagnfræðingur og lögfræðingur að mennt. Hann hefur stundað fræðimennsku undanfarin ár. Eftir hann liggja þrjár útgefnar bækur og fjöldi greina.