Glöggt er gests augað

eftir Ritstjórn

Skapsveiflur Íslendinga eiga það til að vera árstíðabundnar og á veturna finnum við landinu, stjórnvöldum, myrkrinu og öðru flest til foráttu og oft má greina það viðhorf yfir veturinn að á fróni sé ekki gott að búa. Aftur á móti kveður við annan tón þegar birtan færist yfir landið og þjóðarsálina á sumrin og flestir láta vel af landi og þjóð.

Þegar viðhorfið sveiflast svona á milli árstíðanna getur verið bæði hollt og gott að fá utanaðkomandi mat á stöðuna. Eitt slíkt mat barst í vikunni þegar OECD birti skýrslu um stöðu og horfur íslensks efnahags. Heilt yfir má segja að horfurnar séu mjög góðar enda mesti hagvöxtur hér af öllum löndum OECD og svo vel gengur að ofhitnun er ein helsta hættan sem skýrsluhöfundar sjá steðja að íslensku hagkerfi. Þrátt fyrir það þykir víst að þjóðin standi frammi fyrir þremur tegundum áskorana á næstu árum. Í fyrsta lagi að viðhalda þjóðhagslegum stöðugleika, í öðru lagi að gera ferðaþjónustu sjálfbæra og opna aðgengi almennings að henni og í þriðja lagi að auka skilvirkni vinnumarkaðarins.

Þessar áskoranir snerta allar á heitum viðfangsefnum samtímans þegar kemur að pólitík. Fyrir það fyrsta hafa verið afar skiptar skoðanir um peningamálastefnu landsins, einkum gjaldmiðlastefnu, sem snertir með beinum hætti þjóðhagslegan stöðugleika til framtíðar. Ein tillaga skýrsluhöfunda er að ráðist verði í aðgerðir til þess að draga úr sveiflum á gengi íslensku krónunnar. Aftur á móti er vissum efasemdum lýst um fýsileika þess að festa gengi krónunnar einhliða með því að taka upp myntráð. Helstu rökin fyrir því er að einhliða fastgengisstefna hafi ekki burði og stofnanalegan stuðning alþjóðlegra seðlabanka til þess að ráða við spákaupmennsku. Þar gengur skýrslan jafnframt út frá því að upptaka evru í gegnum aðild að Evrópusambandinu sé um þessar mundir “pólitískur ómöguleiki.”

Í þessu samhengi er rétt að velta fyrir sér hvort tækifæri felist í því að taka rafmyntum opnum örmum. Þær eru að verða sífellt vinsælli og næsta ljóst að hröð þróun verður á þeim vettvangi í náinni framtíð. Ekki er auðvelt að fullyrða um hvert hlutverk þeirra getur orðið en þar er mögulega komin leið til þess að leysa hinn pólitíska ómöguleika og losna undan hinni sveiflukenndu örmynt samtímis. Það getur því verið skynsamlegt fyrir íslensk stjórnvöld og hagsmunaaðila að fylgjast vel með þróuninni og eftir atvikum auðvelda innlendum aðilum notkun á slíkum myntum í greiðslukerfinu.

Í annan stað leggur skýrslan til að gjaldtaka á ferðamannastöðum verði færð í aukana en það hefur verið bitbein í opinberri umræðu undanfarin ár. Nóg hefur verið um hugmyndir um hvernig skuli haga gjaldtöku á ferðamönnum m.a. til þess að stemma stigu við fjölgun þeirra og stýra aðgengi að helstu náttúruperlum landsins. Frægust er hugmyndin um náttúrupassa en slíkar heildsölulausnir við gjaldtöku hafa alltaf akkílesarhæl því þær hefur engin áhrif til þess að dreifa ferðamönnum innan landsins heldur hefur frekar til þess að ferðamenn velji annan áfangastað. Gjaldtaka sem er staðbundin og rukkar notandann sjálfan hefur mikilvægt aðgangsstýringarhlutverk innan landsins og getur stuðlað  að jafnari dreifingu ferðamanna á vinsælustu náttúruperlur landsins.

Í þriðja lagi leggja skýrsluhöfundar áherslu á að innleiða það sem hérlendis hefur verið kallað norrænt vinnumarkaðsmódel. Þeir segja mikilvægt að kjaralotur hefjist á því að aðilar komi sér saman um viðmið fyrir samningaviðræður en útfrá þeim viðmiðum verði allar greinar að vinna. Jafnframt þurfi ríkissáttasemjara að vera færð aukin völd til þess að tryggja að viðmiðunum sé fylgt eftir. Hvað varðar þennan flokk áskorana má vera fullljóst að viðvörunarbjöllur hafa hringt um nokkuð skeið. Bæði þegar SALEK samkomulagið svokallaða var sett á ís en einnig má segja að kjör Ragnars Þórs Ingólfssonar sem formanns VR hafi markað spor í átt til harðari og sérhlífnari kjarabaráttu en hefur þekkst síðan Þjóðarsáttin náðist í gegn árið 1990. Af þeim sökum er sérstaklega mikilvægt stjórnvöld taki tillögum skýrslunnar með opnum huga og skoði alvarlega hvort ekki sé skynsamlegt að innleiða þær að hluta eða í heild.

Allar þjóðir glíma við áskoranir og það er mikilvægt að Íslendingum takist að leysa sínar farsællega. Það er þó gleðilegt að gests augað segir land og þjóð standa býsna vel í alþjóðlegum samanburði og því ættu þeir sem segja að allt sé hér í óefni að hugsa sig tvisvar um áður en þeir hafa í frammi digurbarkalegar yfirlýsingar.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.