Gleymdu konurnar

eftir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Æskuvinkona mín ein var í neyslu. Hún hafði verið misnotuð sem barn, misst foreldri í upphafi unglingsáranna, 12 ára gömul var hún byrjuð að reykja gras og við 16 ára aldur var hún komin í harða neyslu. Á þessum árum neyddist hún til að fjármagna neyslu sína, ekki bara með innbrotum og smáglæpum, heldur einnig með því að selja blíðu sína. Þrátt fyrir að hafa farið ítrekað í meðferð dugði ekkert fyrr en hún fór í meðferð í Noregi. Í dag er hún glæsileg ung kona í námi og vinnu, en ég get nefnt um 4-5 dæmi þar sem fólk í áþekkri stöðu hefur þurft að fara úr landi, ýmist til Noregs eða Svíþjóðar, í meðferð til að ná bata. Erfiðar heimilsaðstæður eða kynferðisleg misnotkun er samt ekki alltaf baksaga þeirra sem eiga við fíknivanda að stríða, en þó hefur um helmingur kvenna sem sótt hafa aðstoð hjá SÁÁ hafa slíka sögu að segja.

Að vera kona í meðferð sem er sniðin að körlum

Í íslenskum og erlendum rannsóknum á konum í áfengismeðferð hefur komið fram að margar þeirra eru þjakaðar af skömm eða sektarkennd yfir því að hafa ekki staðið sig í sínum hefðbundnu kynhlutverkum t.d. sem mæður eða eiginkonur, ásamt því að upplifa hjálparleysi og vantrú á sjálfum sér. Algengara er hjá konum en körlum að hafa alist upp með alkóhólista á heimilinu, auk þess sem konurnar hafa frekar orðið fyrir kynferðislegri misnotkun í æsku. Þær eiga því erfiðara með samlagast öðrum börnum eða unglingum, og hófu drykkju snemma til að deyfa sig. Sjálfsmynd þeirra er mjög brotin og einkennandi er að þær leiti í áfengi og í óheilbrigð ástarsambönd til að reyna draga úr vanlíðan sinni. Sumar hafa endað í heimilisofbeldis-samböndum þar sem áfengi er notað sem deyfilyf eða sem aðferð til að gera uppreisn. Svona lífsreynsla hefur eðlilega mjög neikvæð áhrif á viðhorf kvenna til karla og í meðferð eiga þær því mjög oft erfitt með að tala um vandamál sín og líðan innan um karlmenn. Annar munur milli kvenna og karla í meðferð er að konur sem misnota áfengi eru óánægðar með líf sitt og kenna sjálfum sér um hluti sem þær eru ófærar um að breyta. Karlar kenna hins vegar frekar öðrum um ófarir sínar eða sjá þær sem afleiðingu aðstæðna. Það er því kynjamunur á því hvernig fíknin þróast en rannsóknir á meðferðarþörfum einstaklinga með fíknivanda eru yfirleitt mjög karlægar, þar sem karlar hafa yfirleitt verið helstu svarendur í gegnum árin. Það grefur augljóslega undan skilvirkni þessa meðferðarúrræða fyrir konur.

,,Meðferð með manninum sem nauðgaði mér”

Í síðustu viku fékk ég að flytja 5 mínútna ræðu sem frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins á fundi samtakanna Rótarinnar, félags um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda. Rótin gerði rannsókn á upplifun kvenna í meðferð og einnig hvort þátttakendur hefðu orðið fyrir áreitni og ofbeldi í meðferð eða orðið vitni að slíku. Niðurstöðurnar voru sláandi.

Það að konurnar verði fyrir ofbeldi og áreiti í meðferð er sérstaklega slæmt í ljósi þess að um rúmlega helmingur þátttakenda höfðu orðið fyrir kynferðislegri misnotkun í æsku, og 75% kynferðislegu ofbeldi á fullorðinsárum, 88% fyrir andlegu ofbeldi og 56% fyrir líkamlegu ofbeldi. Þessar konur eru því flestar sennilega með áfallastreituröskun, sem meðferðin er ekki að huga að og bætir jafnvel olíu á eldinn. Fyrir utan mörg dæmi þess að þolendur mæti gerendum sínum í meðferð.

Kynjaskipt meðferð en bara fyrir karla

Þess verður þó að geta að SÁÁ hefur staðið sig vel í aðstoða þúsundir Íslendinga við að ná bata síðast liðin 40 ár og verið brautryðjandi á Íslandi. Stofnunin hefur breyst og vaxið í tímans rás með auknu fjármagni og árið 1995 var sett á laggirnar sérstök kvennameðferð á Vík á Kjalarnesi. SÁÁ hefur því líkt og allar aðrar heilbrigðisstofnanir aðlagast nýrri þekkingu með árunum, en þótt þátttakendur í rannsókn Rótarinnar hefðu í gegnum árin flestir farið í meðferð hjá SÁÁ, sótti um þriðjungur meðferð hjá Landspítalanum. Því þarf ekki að vera að sömu verkhættir og vandkvæði sem leiddu af sér niðurstöður Rótarinnar séu eingöngu hjá SÁÁ né að öllu leyti enn við lýði.

Hins vegar má ekki líta framhjá því að þó boðið sé upp á kvennameðferð þurfa konur í áfengis- og vímuefnameðferð að deila húsnæði með körlum, bæði í byrjunarmeðferð og í framhaldsmeðferð. Karlar hins vegar þurfa einungis að deila húsnæði með konum í byrjunarmeðferð á Vogi, nema þeir karlar sem að fara í framhaldsmeðferð á Vík. Eina meðferðarúrræðið á Íslandi sem er algjörlega kynjaskipt er karlameðferðin á Staðarfelli. Flestum meðferðum erlendis er hagað þannig að þær eru sniðnar að kynjunum og ólíkum hópum en fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á jákvæð áhrif kynjaskiptingar meðferðar svo sem aukna meðferðarheldni, betri árangur til langs tíma, minni kynferðislega áreitni, aukin félagsleg úrræði svo sem barnapössun og aðstoðar við að útvega húsnæði, úrvinnslu úr áföllum og fleira. En í ljósi þess að 85% kvenna sem leita sér aðstoðar á Íslandi eiga börn má sjá hversu gríðarlega mikilvægt það er að meðferðarúrræði kvenna á Íslandi séu heildstæð.

Ég er hrædd um að hér sé annað dæmi um að í heilbrigðisgeiranum sé litið framhjá þörfum kvenna. Þrátt fyrir augljósan langtímaágóða þess að hér séu almennileg meðferðarúrræði sem hugi að þörfum kvenna til jafns við karla er vandanum viðhaldið vegna skorts á fjárveitingum til SÁÁ og breytingum á verkferlum, en SÁÁ eru að öllum vilja gerð til að gera breytingar til framfara. Í lok sumars sendi Rótin heilbrigðisráðuneytinu tillögur að breytingum sem taka mið af erlendum og íslenskum rannsóknum á upplifun kvenna, en í þeim er einnig fjallað um hvað það er sem skilar langvarandi árangri fyrir þær í meðferð. Þá er spurningin: Ætla yfirvöld að gera eitthvað í þessu eða bara halda áfram að viljandi gleyma þessum konum?

Greinahöfundur mælir með að áhugasamir kynni sér óskalista Rótarinnar á þessari síðu http://www.rotin.is/oskalisti-rotarinnar/ þar sem einn pistill er alls ekki nóg til að lýsa vandanum.

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Pistlahöfundur

Alda María er MS nemi í Þjónustustjórnun og varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins en hún er einnig með BS gráðu í sálfræði. Hennar helstu áhugamál eru heilbrigðismál, hagfræði, fólk, samfélagið í heild og eftirréttir.