Gjaldtaka í sjávarútvegi: Reynsla á ólíkum leiðum

eftir Hallveig Ólafsdóttir

Undirrituð hefur hvorki mígið í saltan sjó né marga fjöruna sopið. Undirituð er nefnilega nýliði í sjávarútvegi.

Nú berast þær fréttir að stjórnarmyndunarviðræður hafi strandað m.a. vegna sjávarútvegsmála. Ef til vill er þó ekki rétt að tala um ágreining vegna sjávarútvegsmála, enda virðast flestir stjórnmálaflokkar vera sammála um umgjörð og regluverk í kringum atvinnugreinina. Styr stendur hins vegar um gjaldtöku af fiskveiðiauðlindinni. Enga greinir á um mikilvægi þess að atvinnugreinin skili sínu til samfélagsins. Kappið má þó ekki bera fólk ofurliði. Ólíkar leiðir við gjaldtöku á auðlindum fela í sér ólíka hvata til verðmætasköpunar og mikilvægt er að ákvarðanir byggi á góðum greiningum.

Ólíkar leiðir við gjaldtöku

Á Íslandi er annars vegar bein gjaldtaka í formi veiðigjalds og hins vegar óbein gjaldtaka þar sem á hverju fiskveiðiári eru fyrirtæki skert um 5,3% úthlutuðra aflaheimilda. Þær aflaheimildir er m.a. nýttar af hálfu stjórnvalda til byggðaaðgerða og strandveiða.

Önnur leið sem hefur verið nefnd í tengslum við gjaldtöku af fiskveiðiauðlindinni er uppboðsleið. Skýr útfærsla þeirra hugmynda virðist ekki liggja fyrir, en rætt hefur verið að setja t.d. 3% aflaheimilda á uppboð. Fyrirtæki geta reynt að verja sinn 3% hlut sem fór á uppboðs með þátttöku í uppboðunum. Ef það tekst ekki þá skerðast hins vegar aflaheimildir fyrirtækisins um 3%. Ef fyrirtæki tekst að vera á meðal hæstbjóðenda á hverju ári sem uppboð fara fram og kaupir þar með ár hvert 3%, verður fyrirtækið búið að kaupa allar fyrri aflaheimildir sínar aftur eftir 33 ár.
Hægt er að fara ólíkar leiðir þegar þróa á leiðir til gjaldtöku á auðlindum. Mikilvægt er að tryggja að gjaldtaka sé sjálfbær líkt og við nýtingu fiskistofna. Það er því varhugavert að horfa til leiða sem gætu rýrt möguleika fyrir ófæddar kynslóðir að njóta tekjuöflun til þágu samfélagsins, 33 ár er ekki langur tími í samhengi við auðlindanýtingu né auðlindagjaldtöku.

Takmörkuð reynsla

Takmörkuð reynsla er á uppboði aflaheimilda í fiskveiðum. Færeyingar gerðu tilraunir með uppboð á litlum hluta aflaheimilda í makríl árið 2012. Þeir hurfu frá því fyrirkomulagi og tóku upp veiðigjald á makríl og var það fyrsta tegundin sem þeir innheimtu veiðigjöld af.

Í sumar gerðu Færeyingar aðra tilraun með uppboð þar sem að fleiri tegundir voru undir, þ.e. makríll, kolmunni, norsk – íslensk síld og botnfiskur í Barentshafi. Í öllum þessum veiðum er erlent eignarhald umsvifamikið og framlegð há. Heildartekjur færeyska ríkissjóðsins voru um 750 milljónir íslenskra króna í uppboðunum í sumar. Í því samhengi er rétt að benda á að HB Grandi greiddi um 1,2 milljarða króna í tekjuskatt árið 2015. Stofnar sem einskorðast við heimamið voru ekki á uppboði. Ástæðan er sú að þar hafa stofnar verið ofveiddir og þorskstofninn hefur verið við líffræðileg hættumörk síðan árið 2005. Samkvæmt nýrri skýrslu frá yfirvöldum í Færeyjum er engin arðsemi í þeim veiðum og því ekki grundvöllur til sérstakrar gjaldtöku.
Önnur lönd sem hafa boðið upp hlut af aflaheimildum sínum eru Eistaland og Rússland. Tilraunir beggja landanna stóðu yfir í tvö ár og horfið var frá þeim m.a. vegna minnkandi hagnaðar sjávarútvegsfyrirtækja og aukinnar skuldsetningu. Síle hefur einnig boðið upp aflaheimildir á nokkrum stofnum. Uppboð þessi eru enn framkvæmd, sem bendir til þess að afkoma fyrirtækjanna sé í það minnsta viðunandi.

Þær aðstæður sem lýst er hér að ofan, það er ofveiði og lág arðsemi, hafa gert það að verkum að Færeyingar telja sig nauðbeygða til að þróa nýtt fyrirkomulag við stjórnun fiskveiða. Ekki liggur enn fyrir hvaða leiðir þeir kjósa fara en samkvæmt nýrri skýrslu yfirvalda, sem þegar hefur verið vísað í, er stefnt að því koma á aflamarkskerfi sambærilegu því kerfi sem Íslendingar vinna eftir.

Samkeppnishæfni

Á Íslandi hefur verið sérstök gjaldtaka af fiskveiðum í formi veiðigjalda síðan árið 2004. Ísland hefur skapað sér ákveðna sérstöðu hvað varðar sérstaka gjaldtöku af fiskveiðum miðað við helstu samkeppnislönd. Í dag er veiðigjald á allar tegundir við Ísland. Í Færeyjum er lagt veiðigjald á þrjár tegundir og engin sérstök gjaldtaka er á fiskveiðar í Noregi. Noregur er helsta samkeppnisþjóð Íslands í bæði uppsjávarafurðum og botnfiskafurðum.

Mikilvægt er að vanda vel til verka og gæta þess að raska ekki samkeppnishæfni íslensk sjávarútvegs og þar af leiðandi rýra möguleika til gjaldtöku í framtíðinni. Fyrirtæki eru misvel undir það búin fjárhagslega að keppa á takmörkuðum markaði og verður að teljast líklegt að þau fyrirtæki sem hafa aðgang að fjármagni eru í sterkari stöðu til að verja þá hlutdeild sem sett yrði á uppboð. Eftir stæði einsleitur sjávarútvegur. Fjölbreytni í íslenskum sjávarútvegi er einn af styrkleikum atvinnugreinnarinnar. Sem dæmi má nefna þá framleiða dagróðrabátar og frystitogarar mjög ólíkar vörur og keppa á mismunandi mörkuðum.

Nauðsynlegt er að reyna að skapa sátt við gjaldtöku í fiskveiðum. Hún mun ekki nást ef skapa á óvissu, draga úr atvinnuöryggi og jafnvel rýra tekjur starfsmanna sjávarútvegsfyrirtækja ár hvert. Af þessum sökum hafa forsvarsmenn sjómanna og verkalýðsfélaga sett varnagala á leiðir sem kalla fram mögulega skerðingu á aflaheimildum á hverju ári.

Veiðigjaldafyrirkomulagið er ekki gallalaust. Það byggir t.a.m. á gömlum upplýsingum sem endurspegla ekki gengi greinarinnar hverju sinni. Veiðigjöld fyrir þetta fiskveiðiár eru lægri en þau hafa verið undanfarin fiskveiðiár. Ástæðan er sú að hagnaður í sjávarútvegi dróst saman á milli áranna 2013 og 2014 um 25 milljarða króna eða alls um 40%. Margt hefur þó áunnist við útreikning veiðigjalds og má þar nefna að veiðigjaldanefnd reiknar framlegð fyrir hverja einustu tegund við Ísland. Það gerir það mögulegt að hægt er að leggja gjald í samræmi við þau verðmæti og kostnað við veiðar á hverri einustu tegund við Ísland. Eins og áður hefur komið fram þekkist ekki jafn vítæk gjaldtaka í fiskveiðum meðal samkeppnisþjóða okkar.

Ofan á þessa lækkun má búast við því að veiðigjöld verði 300-500 milljón krónum lægri en á venjulegu fiskveiðiári vegna þess að engin loðna hefur fundist. Það er miður. Enginn loðnukvóti fyrir árið 2017 þýðir mikið tekjutap fyrir þjóðarbúið allt og sér í lagi þá sem starfa við veiðar og vinnslu á loðnu.

Samsetning ríkisstjórnar á ekki að vera áhættuþáttur í velgengni sjávarútvegs. Áskoranir sem að sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir þessa stundina eru til muna stærri og ná langt út fyrir landsteinana. Hvorki fleiri né færri en fjórir mikilvægir markaðir eru í mikilli óvissu. Rússlandi er eins og stendur haldið sofandi, Nígería og Tyrkland liggja á gjörgæslu og Bretland er í biðstofunni. Þetta eru ytri þættir sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa enga stjórn á. Þau geta hvorki leyst gjaldeyrisvanda Nígeríu né haft áhrif á breskan almenning í þjóðaratkvæðagreiðslu, það væri þó óskandi.

Hallveig Ólafsdóttir

Pistlahöfundur

Hallveig Ólafsdóttir er hagfræðingur og stafar hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Samhliða námi starfaði hún sem vallarstarfsmaður á Laugardalsvelli og á greiningardeild Vinnumálastofnunar ásamt því að sitja í ritstjórn Studentablaðsins.