Gjáin milli þings og þjóðar

eftir Ritstjórn

Eftir atburðarás undanfarinna vikna hlýtur það traust sem þjóðin ber til Alþingis að vera ofarlega í huga þingmanna sem einhverja virðingu bera fyrir þjóð sinni. Frá hruni hefur Alþingi með engu móti tekist að afla sér tiltrúar fólksins í landinu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Árið 2013 var ítarleg könnun unnin af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, sem ætlað var að varpa ljósi á þær ástæður sem byggju að baki vantrausti þjóðarinnar til Alþingis.

Eflaust kemur það engum að óvörum að niðurstöður könnunar Félagsvísindastofnunar leiddu í ljós að vantraustið beindist fyrst og fremst að starfsháttum sem viðgangast á þingi fremur en Alþingi sem stofnun. Þrjú atriði voru nefnd í þessu samhengi:

  1.     Samskiptamáti og framkomu þingmanna
  2.     Vinnulag
  3.     Ómálefnaleg umræðu

Svo virðist sem vilji þingmanna til að endurheimta traust sé fremur í orði en á borði eins og atburðarás síðastliðinn þriðjudag bar með sér:

Fyrir hádegi hinn 12. apríl lýstu leiðtogar stjórnarandstöðunnar á Alþingi yfir ánægju sinni með fund um aukið samráð sem Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, boðaði til. Á fundinum fullvissaði hann stjórnarandstöðuflokkana um að boðað yrði til kosninga í haust. Að loknum fundi sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar í samtali við fréttastofu RÚV: „Ég held maður eigi að treysta fólki þegar það segist meina það sem það segir, og maður hefur enga ástæðu til að véfengja það. Listinn kemur í vikunni og þá er þá hægt að taka afstöðu til þess hvernig þinghaldi verði háttað í framhaldinu. Við höfum engan áhuga á átökum átakanna vegna, og aðalatriðið er að tryggja að þjóðin fái tækifæri til þess að ganga að kjörborðinu.“

Eftir hádegi kvað við nýjan tón og fór öll umræða í þingsal úr skorðum enda kom vægast sagt til snarpra orðaskipta á milli þingmanna vegna þess að endanleg dagsetning kosninganna lægi ekki fyrir. Stjórnarandstaðan brigslaði stjórnarflokkunum um að þeir hefðu í hyggju að svíkja gefið loforð um kosningar í haust. Orðaskiptin mögnuðust og hrópaði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata meðal annars að Ragnheiði Ríkharðsdóttur, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, á leið úr ræðustól að hún ætti að skammast sín.  „Nei það geri ég ekki Birgitta Jónsdóttir,“ svaraði Ragnheiður.

Atburðarásin er í senn kómísk og lýsandi. Hún endurspeglar viðhorf þjóðarinnar til vantrausts á Alþingi. Þjóðinni er enginn sómi sýndur með slíku framferði enda ekki til þess fallið að skapa traust. Til að Alþingi geti endurvakið það traust sem þjóðin á heimtingu á, er nauðsynlegt að huga að frekari samvinnu allra flokka á þingi. Kannski að fundur fulltrúa stjórnarandstöðunnar í Iðnó í gær sé fyrsta skrefið í vegferð þeirra til betri umræðuhefðar í þinginu. Niðurstaða fundarins var að „auðmýkt” og „heiðarleiki” skyldu í hávegum höfð. Góð gildi og þörf í ljósi vantrausts þjóðarinnar gagnvart þinginu. Þjóðin bíður þess í ofvæni að þingmenn verði samkvæmir sjálfum sér í orði og gjörðum, bæði fyrir og eftir hádegi.

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.