Get ég bjargað heiminum?

eftir Elín Margrét Böðvarsdóttir

Lögga skaut eiginkonu og tvö börn. Yfir 400 börn í ómerktri fjöldagröf. 15 ára fangelsi án dómsúrskurðar. Þjóðarmorð framin á Rohingjum. Neyðist til að segja af sér eftir að hafa sótt brúðkaup samkynhneigðs frænda. Úrræðalaus vegna eltihrellis. Skaut heimilislausan mann sem bað hana um að færa Porsche-bíl sinn. Ósáttir við val fyrsta kvenforsetans. Tóku soninn úr skóla vegna kyns annars barns. Eru með fjölskyldur vígamanna í haldi. Börn á flótta verða fyrir miklu ofbeldi. Unglingsstúlku haldið nauðugri í húsbíl í 29 daga.

Allt eru þetta fyrirsagnir sem birst hafa í íslenskum fjölmiðlum í þessari viku, ýmist af innlendum eða erlendum vettvangi. Þetta eru bara örfá dæmi en á hverjum einasta degi eru framin mannréttindabrot í heiminum.

Grundvallarsáttmáli um mannréttindi

„Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum. Allir eru gæddir skynsemi og samvisku og ber að breyta bróðurlega hverjum við annan.“

Svo hljóðar fyrsta grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1948. Mannréttindayfirlýsingin er metnaðarfullt plagg en hún samanstendur af alls 30 greinum sem kveða á um mannréttindi sem allir eigi jafnt tilkall til, án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.

Ákvæði um hvers konar mannréttindi í alþjóðasáttmálum, lögum, reglum og stjórnarskrám ríkja víða heim, byggja á mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna sem segja má að sé ákveðinn grundvallarsáttmáli um mannréttindi í heiminum.

Samt eru framin mannréttindabrot á hverjum degi og það liggur við að maður fyllist vonleysi og upplifi sig algjörlega máttlausan.

Þrífst best í myrkrinu

Oft hef ég séð fólk fórna höndum og segja: „þótt ég skrifi nafnið mitt á blað þá er það ekki að fara að bjarga heiminum.“ Það er líka alveg rétt.

Enginn einn getur bjargað heiminum en það er mikill misskilningur að baráttan beri ekki árangur. Til að baráttan beri árangur aftur á móti þurfum við í fyrsta lagi að vera meðvituð. Mannréttindabrot þrífast nefnilega best í myrkrinu.

Í öðru lagi er það okkur flestum fært að leggja baráttunni lið með einum eða öðrum hætti. Velur hver og einn með hvaða hætti hann kýs að leggja baráttunni lið. Hvort sem það er með því að styrkja mannréttindasamtök, taka þátt í undirskriftasöfnun, skrifa greinar, fara í sjálfboðastarf, fræða aðra, fordæma, mótmæla eða öskra.

Í þriðja lagi er hægt að reyna að hrífa fólk með sér og hvetja aðra til þess að taka þátt.

Meinlaust að leggja sitt af mörkum

Ef ekki væri fyrir alla þá þrotlausu baráttu sem unnin hefur verið í þágu aukinna mannréttinda, í hvaða formi sem sú barátta kann að vera, sæjum við eflaust aldrei fyrirsagnir á borð við þessar hér:

Þurfa að endurskoða nauðgunarmál tíu ára móður. Tveir handteknir vegna heimilisofbeldis. Fyrrverandi vistmenn fá 8 sálfræðiviðtöl. Veita 8 milljarða í neyðaraðstoð. Forsætisráðherra Ástralíu styður samkynja hjónavígslur. Framlög vegna móttöku flóttafólks nær þrefölduð. Rannsaka fjöldamorð á frumbyggjum. Hvetur yfirvöld til að sýna mannúð. #höfumhátt.

Vissulega gefa þessar fyrirsagnir til kynna að ekki sé allt með felldu, en eitthvað virðist þó vera að þokast í rétta átt. Þess vegna megum við ekki gefast upp og það allra hættulegasta er ef umheimurinn lokar augunum. Enginn einn getur bjargað heiminum og oft er ómögulegt að vita fyrirfram hvort og þá með hvaða hætti baráttan skili árangri. En það er okkur að meinlausu að minnsta kosti að reyna.

Elín Margrét Böðvarsdóttir

Pistlahöfundur

Elín Margrét er nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og fréttamaður á Stöð 2. Hún starfaði áður sem blaðamaður á mbl.is og Morgunblaðinu og ritstýrði Stúdentablaðinu skólaárið 2016-2017. Hún er einn stofnenda og fyrrverandi varaformaður ungmennaráðs UN Women á Íslandi og hefur einnig tekið þátt í starfi Vöku fls.