Gengur borgarstjórnarkapallinn upp?

eftir Tryggvi Másson

Þegar Reykvíkingar ganga að kjörkassanum 26. maí næstkomandi og kjósa sér borgarfulltrúa til næstu fjögurra ára verða ákveðin tímamót. Þá mun borgarfulltrúum í Reykjavík fjölga úr 15 í 23. Það hefur í för með sér að töluvert auðveldara verður fyrir framboð að ná inn kjörnum manni eða rúm 4,3% atkvæða samanborið við rúm 6,6% áður. Nú þegar hafa 12 framboð lýst yfir áhuga að bjóða fram í borginni í vor og eru því allar líkur á að metfjöldi framboða nái kjörnum manni.

Þetta er í fyrsta sinn síðan 1986 sem að hróflað er við fjölda borgarfulltrúa. Ákveðið hafði verið að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í 21 fyrir kjörtímabilið 1982-1986 en sú ákvörðun dregin til baka fyrir kosningarnar 1986. Þá var þeim fækkað aftur í 15. Borgarfulltrúar hafa því aldrei verið fleiri en 15 að þessu eina kjörtímabili undanskildu.

Það var undir forystu Davíðs Oddsonar, þáverandi borgarstjóra, í hans fyrstu borgarstjórn sem þessi ákvörðun var tekin. Það kom ekki sök og náði Sjálfstæðisflokkurinn að bæta við sig fylgi í kosningunum 1986. Þá fékk Sjálfstæðisflokkurinn 9 kjörna borgarfulltrúa, hreinan meirihluta og Davíð Oddsson leiddi borgarstjórnina sem borgarstjóri öðru sinni. Í þessum kosningum fékk Kvennalistinn (Samtök um kvennalista) einn borgarfulltrúa kjörinn en forveri Kvennalistans, Kvennaframboð í Reykjavík hafði boðið sig fram árið 1982 og fékk þá 2 menn kjörna.

Í sveitarstjórnarkosningunum árið 1990 bauð sig fram nýtt framboð í Reykjavík, Nýr vettvangur. Að framboði Nýs vettvangs stóðu meðal annars Fulltrúaráð alþýðuflokksfélaganna í Reykjavík, Félag ungra alþýðubandalagsmanna, Reykjavíkurfélagið, Samtök um borgarmál og Samtök um nýjan vettvang. Markmið Nýs vettvangs var að ná meirihlutavaldi í borgarstjórn í borgarstjórninni í Reykjavík með pólitískum samherjum framboðsins. Það tókst ekki og hlaut framboðið tvo menn kjörna. Aftur á móti bætti Sjálfstæðisflokkurinn enn á ný við sig fylgi og fékk 60% atkvæða og 10 menn kjörna af 15. Þetta var stærsti sigur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Í kjölfarið tók við þriðja borgarstjórnin undir forystu Davíðs Oddsonar. Vorið 1991 bauð Davíð Oddsson sig fram sem formann Sjálfstæðisflokksins gegn félaga sínum Þorsteini Pálssyni og hlaut nauman sigur. Sama vor bauð Davíð sig fram til Alþingis og varð í kjölfarið forsætisráðherra Íslands. Samfara því hætti hann sem borgarstjóri. Við embætti borgarstjóra tók Markús Örn Antonsson. Markús hafði verið borgarfulltrúi 1970-1985. Ákvörðunin þótti margt furðuleg enda Markús sagt skilið við stjórnmálin og var þá sitjandi útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins. Síðar kom í ljós að Árni Sigfússon og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, þá báðir borgarfulltrúar, hafi komist að samkomulagi um að Árni tæki við sem borgarstjóri og Vilhjálmur yrði forseti borgarstjórnar. En Vilhjálmur sá sér ekki fært að standa við samkomulag þeirra og var Markús skipaður í embættið í stað Árna.

Fljótlega tók að halla undir fæti hjá Markúsi sem borgarstjóra, þrátt fyrir að hafa hlotið yfirgnæfandi stuðning í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir næstu borgarstjórnarkosningar þá mældist flokkurinn með 30% stuðning í skoðanakönnunum. Það lauk með því að Markús sagði af sér sem borgarstjóri til þess að axla ábyrgð á stöðu flokksins í skoðanakönnunum. Þá tók Árni Sigfússon við sem borgarstjóri, fjórum mánuðum fyrir kosningar, þá oddviti flokksins í borginni í kjölfar afsagnar Markúsar.

Þó Árna Sigfússyni hafi tekist að vinna aftur stóran hluta fylgistaps Sjálfstæðisflokksins á þessum stutta tíma dugði það ekki til þess að viðhalda meirihluta flokksins í borginni. Þó sameining félagshyggjuflokkanna hafi ekki tekist í fyrstu tilraun, með Nýju afli, þá tókst það í þetta skiptið. Nýtt sameinað framboð félagshyggjuflokkanna í Reykjavík, Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins, Framsóknarflokksins, Kvennalistans og Nýs vettvangs náði meirihluta í borgarstjórn. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var borgarstjórnarefni R-listans og tók við sem borgarstjóri eftir kosningarnar 1994.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þótti mjög vinsæll borgarstjóri og hélt R-listinn meirihluta sínum og hún borgarstjórnarstóli sínum í sveitarstjórnarkosningunum 1998.

Í þriðja sinn hélt R-listinn meirihluta sínum í borgarstjórn og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hóf sitt þriðja kjörtímabil sem borgarstjóri. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði einum manni þegar Ólafur F. Magnússon fyrrum borgarfulltrúi flokksins klauf sig úr honum og gekk til liðs við Frjálslynda flokkinn og náði kjöri fyrir framboð frjálslyndra og óháðra. Á þessum tíma var nýbúið að stofna Samfylkinguna, sem samanstóð af Alþýðuflokknum, Kvennalistanum, Þjóðvaka og hluta Alþýðubandalagsins. Úr Samfylkingunni kom mikil pressa á Ingibjörgu Sólrúnu að bjóða sig fram til Alþingis, sem hún gerði haustið 2003. Vegna þessa sagði hún af sér sem borgarstjóri þetta sama vor.

Í hennar stað var Þórólfur Árnason ráðinn borgarstjóri. Þórólfur þótti frambærilegur með mikla reynslu af rekstri en hann hafði verið forstjóri Tals og Icelandic Group sem og framkvæmdarstjóri olíufélagsins Essó nokkrum árum áður. Tenging hans við Essó átti eftir að koma honum illa en eftir aðeins eitt og hálft ár í starfi borgarstjóra neyddist Þórólfur til að segja af sér sem borgarstjóra vegna verðsamráðs olíufélaganna þriggja á árunum 1991 til 2003.

1. desember 2004 tók Steinunn Valdís Óskarsdóttir við sem borgarstjóri. Hún hafði þá setið sem borgarfulltrúi fyrir R-listann frá 1994. Steinunn Valdís sat sem borgarstjóri út kjörtímabilið eða fram á haustið 2006.

 

Þar sem allir flokkar sem stóðu að R-listanum upphaflega utan Framsóknarflokks höfðu hætt störfum ákváðu flokkarnir sig fram hver í sínu lagi í stað áframhaldandi samstarfs. Í sveitarstjórnarkosningunum 2006 bættu Sjálfstæðismenn við sig einum manni, Samfylkingin hlaut fjóra kjörna og vinstri græn tvo, bæði í sínum fyrstu borgarstjórnarkosningum. Þá fengu Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn einn mann kjörinn hvor. Landslagið var því töluvert annað en það hafði verið seinustu tvo áratugi. Ekkert framboð náði hreinum meirihluta og alls fengu fimm flokkar kjörna borgarfulltrúa.

Í kjölfar kosninganna náðu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur að mynda meirihluta, þar sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson oddviti sjálfstæðismanna varð borgarstjóri. Upp úr því samstarfi slitnaði tæpu ári seinna vegna deilna um sameiningu Reykjavík Energy Invest og Geysis Green Energy, sem er efni í annan pistil. Þá mynduðu meirihluta allir flokkar nema Sjálfstæðisflokkurinn í október 2007 undir forystu Dags B. Eggertssonar, núverandi borgarstjóra.

Upp úr því stjórnarsamstarfi slitnaði í janúar 2008 þegar Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi Frjálslynda flokksins og fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins myndaði meirihluta með sínum gömlu flokksfélögum gegn því að hann fengi að setjast í borgarstjórastólinn. Samstarfið reyndist afar brösuglegt og óvinsælt og slitu Sjálfstæðismenn því síðla sumars þetta sama ár.

Þá mynduðu Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn aftur meirihluta en nú voru það Hanna Birna Kristjánsdóttir og Óskar Bergsson sem handsöluðu málefnasamning meirihlutans fyrir hönd sinna flokka. Óskar Bergsson tók við sem borgarfulltrúi af Birni Inga Hrafnssyni sem sagði af sér embætti eftir að hafa verið harðlega gagnrýndur af samflokksmönnum fyrir fatakaupa í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna 2006. Hanna Birna tók við embætti borgarstjóra í þessum meirihluta en samkomulag á að hafa verið um það í borgarstjórnarhópi Sjálfstæðisflokksins að Hanna Birna tæki við sem borgarstjóri seinna árið í meirihluta með Frjálslynda flokknum, sem lifði þó ekki svo lengi. Engu að síður hefur samkomulagið haldið innan Sjálfstæðisflokksins og Hanna Birna varð borgarstjóri.

Eftir vægast sagt stormasamt kjörtímabil á árunum 2006-2010 tóku við óvenjulegar borgarstjórnarkosningar vorið 2010. Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin, Vinstri græn, Framsóknarflokkunin og Frjálslyndi flokkurinn misstu öll einn mann. Í stað þeirra náði nýtt framboð 6 borgarfulltrúum kjörnum. Það var Besti flokkurinn sem helsta markmið var að gera alls konar fyrir aumingja. Það segir ýmislegt til um tíðaranda þessa „eftirhrunsára“ að Reykvíkingar fylktu sér á bakvið þetta framboð skemmtikrafsins geðþekka Jóns Gnarr. Í kjölfarið myndaði Besti flokkurinn meirihluta með Samfylkingunni og sat út kjörtímabilið. Í sérstökum útvarpsþætti Tvíhöfða á Rás 2 í október 2013 tilkynnti Jón Gnarr að hann hygðist ekki bjóða sig fram aftur í borgarstjórn og að Besti flokkurinn myndi ganga inn í Bjarta framtíð. Það var því fyrirséð að töluverðar breytingar yrðu á borgarstjórn Reykjavíkur í sveitarstjórnarkosningunum 2014.

Mikil hreyfing var á fylgi stjórnmálaflokkanna í Reykjavík allt fram að kjördegi 31. maí 2014. Arftaki Besta flokksins, Björt framtíð náði tveimur mönnum kjörnum, Píratar náðu einum manni kjörnum í sínum fyrstu sveitastjórnarkosningum. Framsóknarflokknum tókst að afla sér nægs fylgis á lokametrum kosningabaráttunnar með öfgafullum málflutningi gegn uppbyggingu Moskvu í Reykjavík. Samfylkingunni tókst að bæta við sig tveimur borgarfulltrúum og fylgi Sjálfstæðisflokksins hélt áfram að dala sjöunda kjörtímabilið í röð og hlaut 4 fjóra borgarfulltrúa. Samfylkingin myndaði meirihluta með Bjartri framtíð, Vinstri grænum og Pírötum og hefur borgarstjórnir siglt nokkuð lygnan sjó allt kjörtímabilið.

Allt bendir þó til þess að í aðdraganda næstu borgarstjórnarkosningar 26. maí næstkomandi muni færast fjör í leikanna. Frambjóðendur tveggja stærstu flokkanna Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar hafa dregið strik í sandinn og munu ekki sjá sér fær að vinna saman að loknum kosningum. Það verður svo áhugavert að sjá hvort að önnur framboð eigi eftir að taka þátt í sandkassaleik þessa tveggja flokka.

Að lokum er það mikil synd hversu illa er haldið utan um sögu kjörinna borgarfulltrúa í Reykjavík. Næsta ómögulegt er að nálgast upplýsingar um sitjandi borgarfulltrúa hverju sinni. Helsta gagnaveitan er að vanda www.kosningasaga.wordpress.com en þess utan eru gamlar fréttir helsta heimildin. Ekkert yfirlit er til um það ef borgarfulltrúar segja af sér, hvaða varamenn taka þeirra sæti eða aðrar hrókeringar borgarfulltrúa á meðan kjörtímabilinu stendur. Reykjavíkurborg hlýtur að búa yfir þessum upplýsingum og væri það bæði til gagns og gaman ef þær yrðu gerðar almenningi aðgengilegar.

Tryggvi Másson

Ritstjórn

Tryggvi er viðskiptafræðingur sem útskrifaðist frá Háskóla Íslands vorið 2016. Hann starfar sem sérfræðingur á Efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins. Tryggvi var hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands skólaárið 2015-2016 ásamt því að sitja í ráðinu og hefur áður setið í stjórn Vöku fls. Aðaláhugamál Tryggva eru félagsstörf, hagsmunabarátta og stjórnmál. Skrif hans í Rómi eru að mestu leyti tengd menntamálum og viðskipta- og efnahagsmálum.