Gengur ráðherrakapallinn upp?

eftir Tryggvi Másson

Síðastliðinn fimmtudag tók við áttunda ríkisstjórnin á síðustu tíu árum. Á þessu tímabili hefur fjórum sinnum verið gengið að kjörkassanum og kosið til Alþingis. Miðað við að hefðbundið kjörtímabil eigi að vara í fjögur ár þá verður að telja þetta heldur margar kosningar og ríkisstjórnir á fáum árum.

Ekki nóg með að stjórnarskiptin séu tíð heldur hefur verið mikið uppstokkun á ráðuneytum og ráðherraskipan innan ríkisstjórnanna. Hrókeringar innan ríkisstjórnar eru síður en svo nýjar af nálinni, en viðlíka breytingar og þær sem hafa átt sér stað undanfarin ár eru fordæmislausar.

Forsætisráðuneytið

Höfuð ríkisstjórnarinnar er forsætisráðuneytið. Mikil tímamót hafa átt sér stað í tengslum við embættið á síðustu árum. Jóhanna Sigurðardóttir var fyrsti kvenforsætisráðherra Íslands og fyrsta opinberlega samkynhneigða konan til að gegna slíku embætti í heiminum. Nú á dögum urðu ný tímamót þegar fyrsti „sósíalistinn“ (sem á allavega rætur sínar að rekja til sósíalistaflokks) tók við embætti forsætisráðherra á Íslandi.

Umrót stjórnmálanna lét forsætisráðuneytið ekki ósnert, en allir forsætisráðherrar nema auðvitað  hinn nýskipaði fengu verulega að finna því í sinni valdatíð. Geir H. Haarde leiddi tvær ríkisstjórnir á þremur árum sem endaði með því að honum var stefnt fyrir Landsdómi. Jóhanna Sigurðardóttir átti í miklum erfiðleikum með að halda utan um ríkisstjórn sína og undir lok kjörtímabilsins höfðu ríkisstjórnarflokkarnir misst 6 þingmenn og það tefldi því í tvísýnu hvort ríkisstjórnin hefði í raun meirihluta þingmanna á bakvið sig.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrv. formaður Framsóknarflokksins, kom inn í stjórnmálin eins og stormsveipur. Ekki leið á löngu frá því að hann gekk í flokkinn þar til hann varð orðin formaður hans og stuttu síðar forsætisráðherra. Jafn fljótt og hann skaust upp á stjörnuhimininn missti hann flugið. Wintris viðtalið víðfræga og uppljóstrun Panama skjalanna svokölluðu urðu til þess að Sigmundur Davíð steig til hliðar sem forsætisráðherra og síðar um sumarið 2016 var boðað til kosninga. Sigurður Ingi Jóhannsson, nú formaður Framsóknarflokksins, gegndi þá embætti forsætisráðherra þar til næsta ríkisstjórn tók við.

Sá forsætisráðherra sem tók við af honum, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, fékk einnig slæma útreið í Panama skjölunum svokölluðu. Þrátt fyrir það bætti flokkurinn við sig fylgi í kosningum að hausti 2016 og náði að mynda þriggja flokka ríkisstjórn með Bjartri framtíð og Viðreisn. Það var þó skammgóður vermir því undir lok þess sumars sem nú leið, sleit Björt framtíð stjórnarsamstarfinu eftir að í ljós kom að faðir Bjarna hafi skrifað undir meðmælabréf fyrir uppreist æru hjá einstaklingi sem hafði verið dæmdur fyrir kynferðisafbrot. Í kjölfar þess var boðað til annarra alþingiskosninga og á fimmtudaginn síðasta tók Katrín Jakobsdóttir við sem forsætisráðherra, önnur kvenna.

 

Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðuneytið hefur löngum þótt veigamikið ráðuneyti í ríkisstjórn Íslands, ekki síst í seinni tíð. Það tíðkaðist alla jafna að formaður annars stjórnarflokksins, í þá tíð þegar dugði tvo flokka til að mynda ríkisstjórn, gegndi utanríkisráðherraembættinu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrv. formaður Samfylkingarinnar, var síðasti formaður flokks til þess að vera utanríkisráðherra árin 2007-2009.  Þessi vonarstjarna jafnaðarmanna sem átti að leiða flokkinn og þjóðina í ríkisstjórn að kjörtímabilinu loknu þurfti svo því miður að hætta þátttöku sinni í stjórnmálum vegna veikinda skömmu fyrir kosningar 2009. Flokksbróðir hennar, Össur Skarphéðinsson, tók þá við keflinu og sat út kjörtímabilið 2009-2013.

Í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á árunum 2013 til 2016, sátu tveir utanríkisráðherrar. Gunnar Bragi Sveinsson var utanríkisráðherra fram til þess að Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra. Í stað Gunnars Braga steig fram á sjónarsviðið fullskapaður stjórnmálamaður að nafni Lilja Dögg Alfreðsdóttir og gegndi embætti utanríkisráðherra utan þings fram að kosningum. Þá tók Guðlaugur Þór Þórðarson við sem utanríkisráðherra og situr þar enn í dag.

 

Fjármálaráðuneytið

Á síðustu árum hefur embætti fjármálaráðherra þótt eftirsóknarverðara en utanríkisráðherrans. Fyrst mátti marka það eftir að Árni M. Mathiesen hætti sem ráðherra málaflokksins árið 2009. Í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi formaður Vinstri grænna, við embættinu, en hann gegndi síðar embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann var aðeins einn af þremur sem gegndu embætti fjármálaráðherra á kjörtímabilinu því í lok árs 2011 tók Oddný G. Harðardóttir við sem ráðherra og síðar á árinu Katrín Júlíusdóttir sem sat út kjörtímabilið. Á þessum síðari hluta kjörtímabilsins sátu þingmenn Samfylkingarinnar því í forsætis-, utanríkis- og fjármálaráðuneytinu sem er afar óvenjulegt í sögu ríkisstjórna Íslands.

Bjarni Benediktsson tók við embætti fjármálaráðherra í annað sinn nú á dögunum en hann gegndi því embætti einnig árið 2013-2016. Náfrændi hans, Benedikt Jóhannesson fyrrv. formaður Viðreisnar, hélt sætinu heitu í millitíðinni eða í tæpa 11 mánuði á árinu sem er að líða.

Mennta- og menningamálaráðuneytið

Embætti menntamálaráðherra er það embætti þar sem einn og sami ráðherrann hefur í öllum tilvikum á síðustu tíu árum þraukað út líftíma sinnar ríkistjórnar. Það gerði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir í þau tvö skipti sem hún gegndi embættinu fyrir hrun. Það sama má segja um núverandi forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur, sem sat sem fastast í fjögur ár, jafnvel eftir að hún hafði tekið við formennsku í Vinstri grænum. Í kjölfarið tók Illugi Gunnarsson við embættinu en hann átti heldur brösuga valdatíð sem endaði með því að hann bauð sig ekki aftur fram til þings að loknu kjörtímabilinu árið 2016. Þá tók Kristján Þór Júlíusson við embættinu og loks Lilja Dögg Alfreðsdóttir, sem situr þar nú.

Þess má geta að fjórir af þessum fimm ráðherrum sitja enn/aftur á þingi í dag. Aðeins Illugi Gunnarsson gerir það ekki.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Umhverfis- og auðlindamál skipa æ mikilvægari sess í stjórnsýslu hins opinbera um allan heim. Engin undantekning er á því hér á landi. Líkt og menntamálaráðuneytið sitja þeir sem eru ráðherrar umhverfismála nokkuð fast í sínum sætum yfir á meðan ríkisstjórnin situr. Á því eru þó undantekningar. Kolbrún Halldórsdóttir var umhverfisráðherra í fyrri ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur en hún náði ekki kjöri á Alþingi í kosningunum 2009. Síðar tók Svandís Svavarsdóttir við keflinu. Í valdatíð Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks frá 2013 til 2016  kaus Sigurður Ingi Jóhannsson einhverra hluta vegna að gegna embætti umhverfisráðherra á sama tíma og hann var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, allt þar til Sigrún Magnúsdóttir tók við af honum í lok árs 2014.

Miðað við reynslu síðustu ára af setu utanþingsráðherra verður áhugavert að fylgjast með örlögum nýskipaðs umhverfis- og auðlindaráðherra Guðmundar Inga Guðbrandssonar í þessari ríkisstjórn.

Dómsmálaráðuneytið og Samgöngu- og sveitafélagaráðuneytið

Þegar væsir ekki um þá sem sinnt hafa embætti dómsmálaráðherra síðustu ár. Í kjölfar #Metoo-bylgjunnar rifjaði Ragna Árnadóttir, fyrrverandi dómsmála- og mannréttindaráðherra, upp mótmæli sem áttu sér stað fyrir utan heimili hennar á meðan hún var í embætti. Mótmælin áttu sér stað vegna ákvörðunar um brottvísun hælisleitenda sem fellur undir verksvið ráðherrans. Þeir ráðherrar sem á eftir henni hafa einnig verið milli tanna fólks vegna embættisverka sinna.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, þá innanríkisráðherra, sagði af sér embættinu vegna Lekamálsins svokallaða þar sem aðstoðarmaður hennar lak minnisblaði um hælisleitandann Tony Omos úr ráðuneytinu til fjölmiðla. Við henni tók Ólöf Nordal heitin sem þingmenn báru ómælda virðingu fyrir þvert á flokka. Ólöf lést langt fyrir aldur fram snemma á þessu ári eftir erfiða baráttu við krabbamein.

Sameining ráðuneytanna í Innanríkisráðuneytið árið 2011 gekk til baka fyrr á þessu ári. Ráðuneytinu var þá aftur skipt upp í Dómsmálaráðuneyti og Samgöngu- og sveitafélagaráðuneyti. Þá tók Sigríður Ásthildur Andersen við sem dómsmálaráðherra snemma á þessu ári. Líkt og áður var engin lognmolla í Dómsmálaráðuneytinu. Það endaði með því að Björt framtíð sleit ríkisstjórnarsamstarfinu, sem áður sagði, vegna málsins um uppreist æru, sem er einmitt á borði dómsmálaráðherra. Sigríður situr þó áfram sem dómsmálaráðherra í nýrri ríkisstjórn.

Samgöngu- og sveitafélagaráðherrar hafa á síðustu árum siglt lygnan sjó samanborið við dómsmálaráðherra fyrir utan umdeilt kjördæmapot, sem kjósendur eru þó fljótir að gleyma.

Velferðarráðuneytið

Útgjaldaráðuneytin tvö sameinuðust í eitt, árið 2011; Velferðarráðuneytið. Embætti heilbrigðisráðherra hefur löngum þótt eitt erfiðasta ráðuneytið þar sem gífurlegar kröfur eru sífelldar útgjaldaaukningar í málaflokkinn. Fyrir vikið hafa átta manns setið í ráðuneytinu á síðustu tíu árum. Það sama má segja um félagsmálaráðherrann en undir þessum tveimur ráðherraembættum hvílir velferðarkerfið að mest öllu leyti.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Það eru ekki nema nokkur ár síðan að það voru fjórir ráðherrar í því sem tilheyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í dag. Stuttu síðar fór það í einn ráðherra, þegar Steingrímur J. Sigfússon ætlaði að sinna verkunum öllum, en nú eru þeir tveir. Á tíu árum voru fjögur ráðuneyti sameinuð í eitt og fólu þær í sér talsvert umrót á ráðherrum og hlutverki þeirra.

Utan skipulagsbreytinga í ráðuneytunum hafa ráðherrar ráðuneytisins siglt lygnan sjó. Jón Sigurðsson tók við sem formaður Framsóknarflokksins eftir að Halldór Ásgrímsson sagði af sér árið 2006. Þá tók hann við sem viðskipta- og iðnaðarráðherra þrátt fyrir að sitja utan þings. Jón náði ekki kjöri í alþingiskosningunum 2009 og sagði af sér formennsku í kjölfarið.

Þegar ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri Grænna tók við árið 2009 átti sér stað sameining Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins annars vegar og Efnahags- og viðskiptaráðuneytisins hins vegar. Ríkisstjórnin leitaði utan raða þingflokkanna við skipan í tvö embætti. Líkt og fram hefur komið þá var Ragna Árnadóttir dóms- og mannréttindamálaráðherra. Þá var Gylfi Magnússon, dósent í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands skipaður viðskiptaráðherra.

Nú, í aðdraganda stjórnarmyndunarviðræðna nýrrar ríkisstjórnar, vaknaði aftur upp umræða um svokallaða villiketti. Það var í samhengi við ákvörðun þingmanna VG Andrésar Inga og Rósu Bjarkar  að styðja ekki aðilaviðræður við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Einn þeirra, sem kallaður hefur verið villiköttur, er Jón Bjarnason en hann var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á árunum 2009-2012. Hans þingseta endaði með því að hann hætti sem ráðherra og sagði sig úr Vinstri grænum og náði ekki aftur kjöri á Alþingi.

Þá gegndi Sigurður Ingi Jóhannsson embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þar til hann varð forsætisráðherra vorið 2016. Ragnheiður Elín Árnadóttir var á sama tíma iðnaðar- og viðskiptaráðherra en hún galt afhroð í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi haustið 2016 og tók ekki sæti á lista.

Gengur kapallinn upp?

Ótal breytingar hafa átt sér stað bæði á skipan og skipulagi ráðuneyta á síðustu árum. Samfara þessum breytingum hefur umburðarlyndi almennings í garð aðgerðaleysis og mistaka ráðherra minnkað til muna. Það brýst fram í umræðum í fjölmiðlum, samfélagsmiðlum, mótmælum á Austurvelli og þegar heiftin var sem mest, fyrir utan heimili ráðherra.

Þó heiftin hafi minnkað er umburðalyndið enn lítið og endurspeglast það í því að tvær ríkisstjórnir hafa skrifað undir stjórnarsáttmála á innan við einu ári. Fyrir vikið má velta því fyrir sér hvort það sé liðin tíð að ríkisstjórnir hafi tíma til að klára öll spilin í stokknum og láta kapalinn ganga upp.

Tryggvi Másson

Ritstjórn

Tryggvi er viðskiptafræðingur sem útskrifaðist frá Háskóla Íslands vorið 2016. Hann starfar sem sérfræðingur á Efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins. Tryggvi var hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands skólaárið 2015-2016 ásamt því að sitja í ráðinu og hefur áður setið í stjórn Vöku fls. Aðaláhugamál Tryggva eru félagsstörf, hagsmunabarátta og stjórnmál. Skrif hans í Rómi eru að mestu leyti tengd menntamálum og viðskipta- og efnahagsmálum.