Gavin the joiner og krísa Verkamannaflokksins

eftir Oddur Þórðarson

Það var eins og hann væri gráti næst. „Them lot are all such know-it-alls, thinking they know what it’s like having to see everyday as a struggle to get by. No matter how much all of these posh people in London read their books and research their way through life, they don’t know what it’s like, living on the dole” Þetta er kannski ekki alveg orðrétt en það var nokkur veginn svona sem hann sagði þetta, maðurinn sem sat við hliðina á mér á leik Southampton og Watford í ensku úrvaldsdeildinni 30. nóvember síðastliðinn. 

Hann heitir Gavin og er á miðjum aldri. Uppá ensku kallast hann “joiner” – einhver sem vinnur við trésmíðar í húsum. Einhver sem smíðar og setur saman stiga, gluggakarma, hurðir og annað úr við. Gavin er semsagt gamaldags, breskur iðnaðarmaður með gular tennur í renndri hettupeysu. Ég er námsmaður í frakka, með vínrauðan trefil um hálsinn og Erasmus+ styrk inná bankareikningi mínum. 

Ég er í skiptinámi í Southampton – legg stund á stjórnmálafræði. Southampton er á suðurströnd Englands í sýslu sem heitir Hampshire. Þar er fólk menntað og ríkt að jafnaði, sérstaklega í samanburði við landa sína í norðurhluta Englands. Samt er í Southampton og gjörvöllu Bretlandi allt krökkt af fólki eins og Gavin. Fólk sem finnst ekkert sértaklega mikið koma til stjórnmálastéttarinnar í London. 

Þrátt fyrir að hafa setið við hliðina á Gavin á seinustu fimm heimaleikjum Southampton á þessu tímabili í hafði ég aldrei spjallað við Gavin áður, hvað þá spurt hann út í hvað hann ætlaði að kjósa í nýliðnum þingkosningum í Bretlandi – og þegar upp var staðið gerði ég það ekki beint út í þetta skiptið heldur. Aðspurður virtist hann þó augljóslega ekkert sérstaklega hrifinn af stjórnmálum og stjórnmálamönnum. Stjórnmálamenn væru upp til hópa snobbhænsn sem halda að þau séu betri en allir aðrir. 

Make Britain Great Again!

Ímyndum okkur þær aðstæður sem Gavin elst upp við. Hann er líklega fæddur á sjöunda eða áttunda áratugnum inn í einskonar kjarnafjölskyldu. Fáar fjölskyldur voru neitt annað en akkúrat það í Bretlandi þess tíma. Southampton er fyrst og fremst hafnarborg. Pabbi Gavins hefur mögulega getað hafa verið í sjóhernum eða unnið á höfninni þar sem vörur, vinnuafl og ferðamenn komu með skipum frá meginlandi Evrópu. Pabbi Gavins hefur líklega ekki þurft mikið að hugsa um hvaða menntun hann þyrfti til þess að finna fjölskyldu sinni húsaskjól og mat. Til þess vann hann fyrir kaupi hjá þeim sem gat veitt honum það kaup. Gavin elst síðan upp við þessi skilyrði, þessa menningu og þetta hugarfar. Kannski lauk Gavin einhverju grunnnámi en ólíklegt er að hann hafi talið sig þurfa að mennta sig frekar en það. Þess þurfti bara einfaldlega ekki þá. 

Í dag er öldin önnur. Flestir þeir sem ofan á verða í bresku samfélagi eru menntaðir. Það verður enginn sérfræðingur á sviði alþjóðaviðskipta hjá HSBC eða verkefnastjóri á virtri verkfræðistofu án þess að hafa klárað tilskilin próf. Þeir sem hafa tögl og haldir í samfélaginu eru menntaðir. Þeir stýra orðræðunni og hagnast á því hverjir hafa aðgang að orðræðunni. Gavin er ekki einn af þeim. Gavin hefði þó einu sinni getað búið við sama fjárhagslega öryggið og sérfræðingurinn hjá HSBC eða notið álíka virðingar í samfélaginu og farsæli verkfræðingurinn. Síðan þá hafa hlutirnir breyst.

Með alþjóðavæðingu hefur líf allra Gavin-a breyst. Fólk úti í heimi getur unnið störf þeirra fyrir mun minni pening en þeir og því verða þeir ekki lengur gildandi í sínu samfélagi. Þeir verða úrelt vinnuafl með enga þekkingu. Minna virði en þeir sem enn njóta vegsemdar og virðingar. Fyrir vikið verður staða þeirra viðkvæmari og þeir fara í vörn gagnvart þeim umheimi sem sífellt virðist vera að snúast gegn þeim. Líf þeirra fer að litast af einskærri baráttu gegn sífellt versnandi tilvistarkreppu sem þeir upplifa. Allt það sem þeir höfðu er nú farið. Það að búa við fjárhagslegt öryggi og örugg atvinnutækifæri er ekki lengur fasti í lífi þeirra heldur fjarlæg minning. Það sem í staðinn hefur komið er alþjóðavæðing með öllum sínum innflytjendum, femínisma, rétthugsun, áherslu á umhverfismál og krítísku gagnrýni á menningu og lifnaðarhætti Vesturlanda. 

Það er því auðvelt fyrir populískan stjórnmálamann að benda á alla þessa hluti og mála þá upp sem óvin. Gavin er mjög viðkvæmur og móttækilegur gagnvart öllum hugmyndum að það sé einhverjum óvini að kenna hvernig komið sé fyrir honum. Allir þeir stjórnmálamenn sem segja að Gavin sé rasisti fyrir að hata innflytjendur, sóði fyrir að menga, heimskur fyrir að taka ekki undir með femínistum og öðrum rétthugsuðum, ná eðlilega ekki til Gavins. Þeir virðast enda ekkert vilja ná til hans. Hvert snýr Gavin sér þá? Nú auðvitað til þeirra sem hugga hann og segja að það sé einfaldlega ekkert rangt við þær skoðanir sem hann hefur. 

Gavin kýs því Brexit, Nigel Farage, Trump eða einhvern annan popúlista. Það er erfitt að lá honum það. Auðivtað kýs hann ekki flokk sem virðist standa fyrir að úthrópa hann sem rasista og ómenntaðan heimskingja sem ekkert skilur. Hann kýs flokk sem vill færa landið hans nær því sem það áður var. Land sem veitti Gavin fjárhagslegt öryggi og örugga atvinnu. 

Verkamannaflokkurinn í Bretlandi fékk sína verstu kosningu síðan á eftirstríðsárunum nú á dögunum. Talað var um að Boris Johnson, formanni Íhaldsflokksins, hafi tekist að brjóta svokallaðan ‘rauða vegg’ Verkamannaflokksins á bak aftur með því að ná til Brexit-kjósenda í þeim kjördæmum sem hafa verið á valdi Verkamannaflokksins heila mannsævi. Það má færa rök fyrir því að þetta hafi einmitt orðið vegna þess að Verkamannaflokkurinn hafi ekki tekist að sannfæra alla Gavin-ana í Bretlandi um að hann tali í raun og veru þeirra máli – máli verkamanna. 

Skortur á einlægni

Ég ætla ekki að fara að meta hvort stjórnmálamenn í Bretlandi beri raunverulega hag kjósenda sinna fyrir brjósti eða ekki, þótt flestir stjórnmálamenn segjast auðvitað gera það. Það virðist þó vera alvarlegur skortur á einlægni innan Verkamannaflokksins þegar hann segist vinna í þágu þeirra sem versta standa í landinu – a.m.k. í garð fólks eins og Gavin. Eflaust mætti heimfæra sömu fullyrðingu á Demókrataflokkinn í Bandaríkjunum. Því hvort sem þessum flokkum líkar það betur eða verr, þá eru það oft þeir verst stöddu sem eru rasistar, karlrembur og afneitunarsinnar þegar kemur að loftslagsmálum. Nákvæmlega fólkið sem þessir flokkar segjast vilja reyna að hjálpa að einhveru marki. 

Þó svo ég geti auðvitað ekkert slegið því föstu að allir þeir sem kjósi Brexit séu eins og Gavin og hvað þá að Gavin sé í raun og veru eins og ég ímynda mér, þá finn ég það sannarlega í kringum mig að allir Gavin-ar heimsins gleymast. Þeir verða útundan í umræðu um fólk sem á um sárt að binda og þurfa hjálp þeirra sem eiga meira. Þessir einstaklingar hafa ekki trú á þeirri þróun sem átt hefur sér stað seinustu áratugi og hefur gert svo ótal öðrum kleift að lifa betra lífi.

Þeir eru oft afskrifaðir vegna skoðana og lífsviðhorfa sem samræmast ekki því sem rétt og gott þykir í dag. Það er ekki af því þeir eru heimskir og óviðbjargandi. Þeir urðu bara eftir þegar flestir aðrir fóru á ljóshraða í gegnum þær samfélagsbreytingar sem alþjóðavæðing síðustu 30 ára hafði í för með sér. Fólk og flokkar sem gefa sig út fyrir að vilja hjálpa bágstöddum þurfa einfaldlega að nálgast þennan hóp af meiri einlægni og snobbleysi. Reyna að skilja þær aðstæður sem þessi hópur fólks finnur sig í og sannfæra hann síðan um að hvorki Brexit, Donald Trump, Nigel Farage, Viktor Orban eða neinn slíkur séu raunverulega að vinna í þeirra þágu. 

Fólk hræðist það sem það skilur ekki. Gavin er ekki heimksur eða rasisti fyrir að hafa kosið Brexit eða trúa ekki á Verkamannaflokkinn. Hann er bara hræddur við þær óskiljanlegu og kaotísku breytingar sem orðið hafa í samfélagi hans síðustu áratugi. Og það er vandamál sem flokkar á borð við Verkamannaflokkinn þurfa að takast á við ef þeir ætla sér að lifa af næstu ár og áratugi í vestrænni pólitík.  

Oddur Þórðarson

Stjórn, ritstjórn og pistlahöfundur

Oddur er blaðamaður á Morgunblaðinu og nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur þar af lært eitt ár við University of Southampton á suðurströnd Englands og lætur sig því bresk stjórnmál mjög varða. Hann hefur tekið virkan þátt í pólitísku og menningarlegu starfi undanfarin ár og setið í alls kyns stjórnum, nefndum og ráðum síðan á grunnskólaaldri. Oddur hefur mestan áhuga á dægurmenningu Íslendinga, fólki og stöðum.