Gatið á hurðinni

eftir Daníel Ingvarsson

Ég keypti mér nýlega íbúð og flutti út úr foreldrahúsum. Heima hjá pabba hefur alltaf verið gat í miðri útidyrahurðinni. Mér hefur alltaf þótt það eðlilegt en fjölskyldan fékk þar inn einhverskonar póst á blaði sem voru ýmist reikningar, bréf frá bönkum og tryggingastofnunum eða annað slagið póstkort. En fjölskyldan fékk líka stóra bæklinga á hverjum degi, eitthvað sem pabbi hlýtur að hafa beiðið um. Þessir bæklingar voru settir á eldhúsborðið, stundum renndi einhver í gegnum þá, svo var þessu hent í ruslið. Ég man að ég þurfti alltaf að fara með þessa bæklinga í sérstaka söfnunargáma svo að það væri hægt að endurnota þá, síðar meir kom sérstök blá tunna sem maður fyllti af þessum blöðum á tveggja vikna fresti. Mér fannst stundum þægilegt að það var svona gat í hurðinni en ég pantaði stundum vörur á netinu sem póstþjónustan getur sett inn til mín.

Þegar ég flutti á nýjan stað þá tók ég eftir að þar var líka svona gat í hurðinni til þess að fá póst. Mér fannst það allt í lagi þar sem ég fæ stundum póst eða varning  á netinu. Það fór hins vegar að versna þegar ég tók eftir því að það var sífellt verið að troða rusli inn í gegnum gatið á hurðinni, svona alveg eins bæklingar og pabbi fékk heim til sín. Ég hafði nú aldrei beðið um að fá þessa bæklinga heim til mín og mér fannst mjög leiðinlegt að byrja hvern einasta morgun á því að taka þetta bréfrusl og setja það í bláu tunnuna sem er fyrir utan húsið mitt. Ég hugsaði líka hvað það væri skrítið að þessir aðilar sem væru að troða svona pappírsdrasli inn um gatið á hurðinni hjá mér hafi sett nafnið sitt með stórum stöfum á sönnunargögnin. Stundum stendur “Fréttablaðið” en það virðist koma á hverjum degi. Svo fæ ég oft annað svona blað sem stendur á “Morgunblaðið”.

Ég ákvað að hafa samband við þessa tvo aðila og spurja þau hvort það væri ekki einhver misskilningur í gangi því að ég hafi nú aldrei beðið um þessa bæklinga heim til mín, kannski höfðu þau sem bjuggu í íbúðinni á undan mér pantað þetta. Mér var tilkynnt að ekki væri um neinn misskilning að ræða heldur væri þetta venjulegur hlutur að troða rusli inn inn í hús hjá fólki út um allan bæ. Þegar ég spurði hvort þau gætu vinsamlegast hætt að setja þessa bæklinga inn í húsið hjá mér þá sögðu þau að ég þyrfti að fara einhvert út í bæ, sækja límmiða og líma á hurðina hjá mér. Af hverju á ég að þurfa að skemma útlitið á fallegu 70 ára gömlu gegnheilu viðarhurðinni hjá mér svo að það sé ekki verið að troða rusli í gengum hana?

Strangari reglur á tölvupóst

Á seinustu árum hefur GDPR verið mikið í umræðunni. Þar er meðal annars tekið á því að fyrirtæki séu ekki að senda rusltölvupósta á öll netföng sem þau komast yfir. Notandi þarf því að “opt-in” til þess að leyfilegt sé að senda honum fréttabréf í formi tölvupósts. “Opt-in” þýðir einfaldlega að notandi þarf annað hvort að vera spurður og segja já, eða að biðja um að fá fréttabréf. Þessar reglur hafa hjálpað fólki gríðarlega á að ná stjórn á innhólfinu sínu þar sem það fær nú einungis póst sem það vil fá.

Er ekki frekar skrýtið að það séu strangari reglur hvað varðar tölvupóst heldur en útprentaðan póst?

Þó að mikið af þessum blöðum geti verið úr endurunnum pappír þá er samt verið að flytja inn gríðarlega mikið af pappír sem þarf svo að flytja aftur út úr landi til að endurvinna hann. Fyrir mér er ruslpóstur ekki þessir stöku þunnu Bauhaus blöð’sem koma á nokkra mánaða fresti, ruslpósturinn er þessi stóru þykku fréttablöð sem fara beint í ruslið á mörgum heimilum og koma á hverjum degi.

Ég er ekki að segja að þetta eigi að hætta, enda nota einhverjir þessa bréfbæklinga, ég er að segja að það eigi ekki að vera að senda út þessi blöð að óþörfu.

Hvað er til ráða?

Ég vil vera spurður hvort að ég vilji fá bréfbæklinga inn um lúguna á hjá mér. Það er ekki í mínum verkahring að merkja lúguna mína um að ég vilji ekki bréfbæklinga. Það ætti að setja reglur á svona póst alveg eins og á tölvupóst, fyrirtæki ættu að þurfa að spurja hvort þau megi troða blöðum inn um lúguna hjá fólki. Í rauninni ættu þeir sem vilja póstinn frekar að merkja lúgurnar sínar heldur en þeir sem ekki vilja póstinn.

Daníel Ingvarsson

Pistlahöfundur

Daníel rekur hugbúnaðarhúsið Bonsai og þróar þar vefforrit. Hann er með BS gráðu í hugbúnaðarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Daníel hefur gaman af ferðalögum, tækni og fótbolta.