Gapastokkur nútímans

eftir Bergþór Bergsson

Eitt sinn voru opinberar refsingar daglegt brauð. Hýðingar fóru fram á torgum úti. Fólk lá með beran hálsinn í gapastokk. Blátt blóð rann um Place de la Concorde árið 1789 á meðan böðullinn lyfti hárkollulausu aðalshöfði, fyrir villt öskur almennings. Líkamlegar og niðurlægjandi refsingar mátti einnig finna í Jónsbók og Stóradómi. Slíkar refsingar eru nú horfnar, því þær eru ómannúðlegar og brjóta gegn íslensku stjórnarskránni og fjöldamörgum alþjóðasattmálum.

Í hinum vestræna heimi eru slíkar refsingar sjaldgæfar. Hins vegar, hefur það færst í aukana að fólk verði fyrir barðinu á samfélagslegum refsingum með tilkomu internetsins og möguleika þess.

Puttagikkur lyklaborðsins

Undanfarin ár hefur orðníð á internetinu orðið að vinsælli íþrótt. Yfirleitt má rekja orðreiðina til heimskulegra ummæla sem fólk hefur látið falla á netinu, eða stigið feilspor á breiðgötu lífsins, sem síðar hefur verið halað á netið. Hér er oftast ekki um að ræða saknæman verknað.

Frægasta málið hér á landi má rekja til smáhundsins Lúkasar þar sem grunur lék á að drengur hefði drepið hund með því að sparka ítrekið í dýrið. Strákurinn fékk morðhótanir, nafnlaus sms og nafn hans dregið í svaðið. Bloggsíður loguðu með ógeðfelldum lýsingum á atburðinum. Haldnar voru kertafleytingar hundsins vegna, en sömu fleytingar hefði mátt halda um orðspor drengsins. Seinna fannst hvuttinn við hestaheilsu.

Kommentakerfið

Í kjölfar bloggsíðnanna komu kommentakerfin. Við þekkjum þau öll, þar sem fólk fær að vaða í flór mannlífsins. Hér er fólk tekið á teppið. Fólk lætur ófögur orð falla um útlit og karaktereinkenni Sigmundar Davíð, en eiginkona hans hefur til að mynda tjáð sig um að þetta hafi gengið mjög nærri henni. Bubbi Morthens hefur sagt að kommentakerfin séu full af obeldismönnum og orðræðan þar einkennist af óvirðingu. Vissulega eru Bubbi og Sigmundur opinberar persónur, en þeir mega ef til vill búast við meiri gagnrýni en aðrir.

Gagnrýnin er samt ekki einskorðuð við opinbera aðila. Frægt er þegar áður ókunn ung stúlka, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir varð á einni nóttu holdgervingur ofdekraðra pjattrófna og eiginhagsmunaseggja.

Sumir segja að dagar kommentakerfisins séu liðnir. Tússtafla almennings dregur frekar úr upplýstri umræðu en eykur hana. Fólk þorir vart að tjá sig opinberlega. Feit pæling, sem gekk ekki upp.

Blár fuglasöngur

Ljóst er að Facebook er bara fyrir gamalt fólk og kommentakerfin fyrir botnskaf þessa gamla hóps. Ungt fólk hefur fært sínar gagnrýnisraddir á Twitter. Twitter er gott til margra nota. Byltingar hafa orðið í almenningsvitund vegna bláa fuglsins. Hver man ekki eftir #freethenipple. Þar sem þolendur hrellikláms skiluðu skömminni. Einnig var tekið fyrir það samfélagslega norm að brjóst séu kynfæri.

Twitter er samt tvíeggjað sverð. Gott dæmi þess er ,,Donglegate”, en Adria Richards, forritari, var að sækja ráðstefnu um forritun þegar tveir menn bak við hana fóru með óviðeigandi brandara. Í kjölfarið tók hún mynd af þeim og dreifði á twitter. Fyrr en varði höfðu þeir báðir misst vinnuna, og það sem meira er, hún varð einnig atvinnulaus. Enginn vildi verða atvinnulaus, en sú varð samt niðurstaðan. Hópur fólks á netinu, sitthvor fylkingin, hraunaði yfir báða aðila.

Með Twitter er auðvelt að finna ókunnugt fólk sem samsamar sig við þig. Auðvelt er að búa til breiðfylkingu fólks með sömu skoðanir, án þess að þau þekkist innbyrðis. Fyrir tíð Twitter komu fram hneykslismál, en núna er hins vegar auðveldara fyrir þau að myndast. Með einu ,,retweet-i“ má sýna málstaðnum stuðning, og sýna samstöðu. Það lítur vel út, þér er ekki sama.

Hýðisvöndur almennings

Kommentakerfið er komið á elliheimilið. Twitter er í blóma lífsins. Við búum í heimi örrar birtingarmyndar, og það vill enginn týnast í fjöldanum. Við viljum öskra, og slá á brjóst okkar. Við erum hneykslunarkynslóðin.

En við gleymum því oft, að það er annað fólk sem við erum að hneykslast yfir. Myndum við vilja vera kölluð hálfvitar á almannafæri, og að hafa þau orð steypt í iðnaðarsteypu internetsins, sem aldrei hverfur. Allt sem stendur þar, mun standa þar til eilífaðar.

Hver man t.d. ekki eftir ræðuliði FSu, þar sem unglingsdreng datt í hug að herma eftir barnaníðingi á netinu. Öllum fannst það bjánalegt. Sumum meira en öðrum. Núna eru þessi myndbönd, og þessi orð, það sem fyrsta sem finnst, þegar leitað er að þessum manni á netinu. Hverjum er það til gagns? Hver gerði ekki heimskulega hluti í ungdóm sínum?

Ég veit ekki hvernig þetta hagsmunamat á að fara fram. En ég mun hugsa mig tvisvar um, áður en ég hengi annað fólk, í gapastokki nútímans.

 

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.

Bergþór Bergsson

Pistlahöfundur

Bergþór er laganemi við Kaupmannahafnarháskóla. Hann kemur frá Pétursey í Mýrdalshreppi og situr í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Sjálfstæðisflokksins. Bergþór er áhugamaður um sögu, íslenskt samfélag í tímans rás, tísku, tónlist, kvikmyndir og matargerð.