Gamlir vindar blása á ný í Evrópu

eftir Kristinn Svansson

Kyrrlát, tvístruð – engum til nokkurs ama hafa öfgafull hægrisinnuð öfl lengi verið í Evrópu. Öfl sem annað hvort hafa verið hunsuð eða afskrifuð sem fjarstæður raunveruleiki fyrir hina frjálsyndu Evrópu – raunveruleiki sem muni aldrei eiga samleið með þeim vestrænu gildum sem hafa þróast í álfunni frá Seinni heimsstyrjöldinni. Svona hefur staðan lengi verið í Evrópu – hægri öfgaflokkum hefur verið haldið á útjaðri hins pólitíska lífs í álfunni. Nú eru hins vegar breyttir tímar.

Flóttamannakrísa, hægur efnahagslegur bati, almenn óánægja með stjórnarhætti Evrópusambandsins ásamt vantrú hins almenna kjósanda á ríkjandi stjórnmálastéttir í Evrópu. Allir þessir þættir ásamt öðrum hafa leitt til uppgangs hægri öfgaflokka í Evrópu.

Um er að ræða gífurlega stórt mengi flokka í Evrópu. Þetta eru ólíkir flokkar, með mismunandi áherslur. Mengið tekur til fasískra öfgahægri flokka á borð við Jobbik í Ungverjalandi og Gylltrar Dögunar í Grikklandi sem og hefðbundnari hægri öfgaflokka eða popúlistaflokka líkt og Frönsku þjóðfylkingarinnar í Frakklandi og Frelsisflokks Geert Wilders í Hollandi. Á norrænni slóðum má svo finna flokka eins og Danska þjóðarflokkinn, Norska framfaraflokkinn, Sanna Finna og svo Sænska þjóðernisflokkinn.

Hægri öfgaflokkar eru ekki nýir af nálinni í Evrópu. Þjóðernissinnaði Frelsisflokkurinn í Austurríki á rætur að rekja til ársins 1956. Hugmyndafræði flokksins má rekja til popúlisma, íhaldssemi, hertari innflytjendalöggjöfar og andúðar í garð Evrópusambandsins. Í forsetakosningum árið 2016 tapaði Norbert Hofer, frambjóðandi Frelsisflokkins naumlega fyrir Alexander van der Bellen, leiðtoga Græningja. Kosningarnar voru þó ógiltar af Hæstarétti Austurríkis og hefur því Hofer annan möguleika á því að verða fyrsti öfgahægri þjóðarleiðtogi í Evrópu frá því að heimsstyrjöldin síðari reið yfir.

Sænski þjóðernisflokkurinn var stofnaður á níunda áratug síðustu aldar. Hugmyndafræði flokksins nær helst til sænskrar þjóðernishyggju, íhaldssemi í þjóðmálum, andúðar í garð flóttafólks og eru þeir einnig á móti Evrópusamvinnu. Frá stofnun flokksins hefur fylgi hans ætíð mælst lágt. Það var ekki fyrr en árið 2014 sem flokkurinn naut loksins góðs meðbyrs og náðu þeir 49 sætum á þingi í síðustu kosningum. Óhætt er að segja að flokkurinn njóti ekki mikillar aðdáunar hefðbundinna stjórnmálaflokka í Svíþjóð. Komist var að samkomulagi árið 2014 á milli hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka um að ekki yrði ráðist í samstarf með Sænska þjóðernisflokknum.

Árið 1972 var Franski þjóðernisflokkurinn (Franska þjóðfylkingin) stofnaður. Flokkurinn höfðar til franskrar þjóðernishyggju, fullveldis Frakklands, íhaldssemi, popúlisma og hertrar innflytjendastefnu. Meðal stofnenda flokksins voru samstarfsmenn þýska Nasistaflokksins. Í dag er flokkurinn leiddur af Marine Le Pen. Líkt og með Sænska þjóðernisflokkinn naut flokkurinn ekki mikils fylgis framan af. Í kosningum til Evrópuþingsins árið 2014 vann flokkurinn hins vegar stórsigur þar sem hann fékk rúmlega 25 prósent atkvæða og náði þar af leiðandi 24 sætum af 72 sem Frakkar eiga á Evrópuþinginu. Niðurstöður kosninganna voru stórtíðindi í Evrópu og olli miklum ugg í bæði Frakklandi og Evrópu. Marine Le Pen verður forsetaframbjóðandi flokksins í forsetakosningunum í Frakklandi árið 2017.

Fyrir þremur árum var þjóðernissinnaði flokkurinn Annar kostur (Alternativ für Deutsch­land) stofnaður í Þýskalandi. Hugmyndafræði flokksins hefur rætur að rekja til þýskrar þjóðernishyggju, popúlisma, andúðar gegn frekari Evrópusamvinnu og hertari innflytjendastefnu. Flokknum tókst ekki að koma inn mönnum á þingið árið 2013. Samkvæmt nýrri skoðanakönnunum er þó ljóst að fylgi flokksins er á uppleið og allar líkur eru á því að flokkurinn verði fyrsti hægrisinnaði flokkurinn til að njóta þingsetu frá seinni heimsstyrjöldinni. Flokkurinn er leiddur af Frauke Petry. Petry er alræmd fyrir róttækar skoðanir í garð múslima en hún hefur til að mynda lagst gegn byggingu moska og að lögreglan ætti að taka upp beitingu skotvopna sem neyðarúrræði til að sporna við straumi ólöglegra innflytjenda.

Hvað eiga þessar flokkar sameiginlegt?

Að framan eru nokkrir flokkar teknir í dæmaskyni sem hafa átt góðu gengi að fagna síðastliðin ár, vert er þó að geta þess að þeir eru mun fleiri. Þessir flokkar eiga margt sameiginlegt þó það sé blæbrigðamunur á stefnum þeirra á milli landa. Undirliggjandi þema í hugmyndafræði þeirra liggur aðallega í útlendingahatri og þjóðernishyggju. Orðræða þeirra svipar á milli landa, frasar á borð við „Frakkland fyrir Frakka“, „Svíþjóð fyrir Svía“ óma hátt í þeirra málflutningi. Þeir vilja vernda ríkisborgara sína frá slæmum áhrifum utanaðkomandi afla. Þeir vilja vernda kristin gildi og kristna menningu gagnvart fjölmenningu sem móttaka flóttamanna hefur óumflýjanlega í för með sér – hræsni skín í gegnum málflutning af þessu tagi. Hatursfull orðræða þeirra sækir grundvöll sinn til andúðar og þá oftast á minnahlutahópum. Sameiningarkraftur þeirra liggur í bágbornum blórabögglum sem eiga að bera ábyrgð á misförum fólks sem hefur orðið undir í lífinu. Sökum ríkrar tilhneigingu þessara flokka til popúlisma eiga stefnur þeirra til með að breytast eftir því hvaða málefni brennur heitast hverju sinni.

Krísan á evrusvæðinu gaf þessum flokkum byr undir báða vængi og beindu þeir flestir spjótum sínum að versnandi efnahag landa sinna. Tilkoma hins fordæmalausa flóttamannastraums til Evrópu og þeirra vandamála sem því fylgdi blés nýju lífi í marga hægri öfgaflokka í Evrópu. Unnu þeir nú hörðum höndum að því að breyta stefnum sínum svo þær tækju nú einnig til flóttamannanna. Fylgi flokka á borð við hinn þýska Annar kostur (AfD) og Frönsku þjóðfylkingarinnar fór að aukast á ný.

Sambærileg öfl stíga sín fyrstu skref á Íslandi

Á Íslandi hefur enginn flokkur svipaður þeim hreyfingum sem nú sækja í sig veðrið í Evrópu náð fjöldafylgi. Þó svo að popúlísk viðhorf hafi lengi verið ríkjandi í íslensku stjórnmálalífi hefur einn þátt skort svo að hreyfingar af þessu tagi nái virkilegu flugi. Ísland hefur orðið fyrir tiltölulega litlum áhrifum Íslamsvæðingar og hér höfum við ekki fundið af hörku fyrir slæmum áhrifum flóttamannakrísunnar.

Þó svo að þennan sameiginlega þátt hafi skort hér á landi, útlendingahatrið eða andúð á múslimskum innflytjendum, má gefa sér að landslagið hér á landi sé að breytast og má helst nefna tvennt í því samhengi.

Framsókn og flugvallarvinir

Árið 2014 býður Framsókn sig fram til borgarstjórnarkosninga í Reykjavík. Framboðinu Framsókn og flugvallarvinir var skrapað saman undir forystu Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur. Popúlískara fyrirbæri verður varla fundið en að skíra flokkinn eftir einu helsta stefnumáli þeirra. Með þessum hætti höfðaði flokkurinn beint til tilfinninga fólks. Það var þó ekki nafngift framboðsins sem er ástæða þess að framboðið er hér nefnt. Í kosningabaráttu framboðsins voru þau ummæli höfð uppi um að rétt væri að afturkalla úthlutun lóðar undir mosku. Rökum á borð við að við værum hér með þjóðkirkju og ættum þess vegna ekki að úthluta lóðum undir byggingar eins og mosku var teflt fram af hálfu oddvitans – þessi skoðun er byggð á reynslu en ekki fordómum var haft eftir honum. Orðræða sem ekki er ósvipuð þeim sem sjá má í hreyfingum hægri öfgaflokka í Evrópu. Á þessum tíma var úthlutun lóðarinnar til mikillar umræðu og útspil framboðsins því til þess fallið að draga til sín töluvert fylgi sem aðhylltist sömu skoðun og oddvitinn. Eftir að kosningunum lauk var þó dregið í land og því haldið fram að meint múslimaandúð og afturköllun lóðarinnar hafi verið á misskilningi byggt – dæmi hver fyrir sig.

Íslenska þjóðfylkingin

Fyrir nokkrum mánuðum fæddist hér á landi nýtt stjórnmálaafl sem ber heitið Íslenska þjóðfylkingin. Sá munur er á fyrrnefndu framboði Framsóknar og Flugvallarvina og Íslensku þjóðfylkingarinnar að engin dulúð hvílir yfir fyrirhuguðum áætlunum þess síðarnefnda. Íslenska þjóðfylkingin dregur ekki dul á útlendingahatri sínu og blygðunarlausri þjóðernishyggju. Af stefnuskrá Íslensku þjóðfylkingarinnar má draga þá ályktun að hér sé í mótun fyrsta raunverulega öfgahægri stjórnmálaflið á Íslandi.

Í stefnuskrá flokksins má finna stefnumál á borð við herta innflytjendalöggjöf, bann við byggingu moska á Íslandi, bann við búrkum ásamt banni við skólahaldi íslamista á Íslandi. Jafnframt styður flokkurinn við kristin gildi og viðhorf – því fátt samræmist kristnum gildum og kærleik betur en hertari skilyrði við móttöku okkar sárþjáðu bræðra – flóttamanna. Fylkingin styður augljósa og beina mismunun gagnvart minnahlutahópum samkvæmt stefnuskrá sinni. Ef stefnumál flokksins eru borin saman við þau sem eru að finna í hægrisinnuðum öfgaflokkum í Evrópu sést glögglega að líkindin eru mikil. Þjóðernishyggja, íhaldssemi, verndun íslenskrar þjóðmenningar og hertari innflytjendastefna er hugmyndafræði hreyfingarinnar sem höfð er að leiðarljósi við stefnumótun hennar.

Í nýafstöðnum Alþingiskosningum hlaut fylkingin alls 303 atkvæði. Höfnun íslenskra kjósenda á málflutningi hreyfingarinnar hlýtur að teljast fagnaðarefni. Þótt að gengi hinnar Íslensku þjóðfylkingar hafi ekki verið merkilegt í kosningunum hefur henni tekist eitt. Hún hefur ljáð hinum fáláta leynda lýð á Íslandi rödd sína – raddir sem hafa framan af átt sína heimahaga undir grjóti.

Kristinn Svansson

Pistlahöfundur

Kristinn er laganemi við Háskóla Íslands og er stúdent úr Menntaskólanum við Sund. Hann starfar hjá Símanum í dag. Kristinn hefur mikinn áhuga á lögfræði, líkamsrækt, ferðalögum og góðum bjór. Skrif Kristins í Rómi beinast einna helst að lögfræði, sögu og málefnum líðandi stundar.