Fyrsta frjálslynda ríkisstjórnin

eftir Ritstjórn

Á föstudag dró loks til tíðinda í stjórnarmyndunarviðræðum. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, var á mörkum þess að skila stjórnarmyndunarumboðinu til forsetans þegar ákveðið var að Sjálfstæðisflokkur, Björt framtíð og Viðreisn skyldu setjast niður og reyna að mynda stjórn.

Í kjölfar þessara vendinga hefur Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, fengið kaldar kveðjur frá vinstri flokkunum. Hver þingmaðurinn á fætur öðrum hefur látið út úr sér ummæli um meint svik hans og flótta frá eigin sannfæringu. Hefur því verið lýst yfir að Óttarr hafi ekki trú á Píratabandalaginu sáluga, en bandalagið hefur ekki einu sinni meirihluta á Alþingi.

Minna fúsk, meiri stjórnmál

Miðað við þessi viðbrögð samstarfsfélaga sinna verður á brattann að sækja fyrir Óttarr hvað helsta stefnumál hans varðar, breytta umræðuhefð í þinginu. Hefur hann gert sig gildandi sem  talsmaður breiðrar samstöðu, samtals og samstarfs ríkisstjórnar við minnihlutann til þess að ná málum í gegn í meiri sátt. Líkt og nefnt var í síðasta ritstjórnarpistli þá er sú stjórn sem er í burðarliðnum kjörin fyrir Óttarr til þess að tryggja slíkt samstarf.

Samstarfsfélagar hans virðast hafa litla trú á því að hann verði samur við sig en Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata spáir því að Óttarr verði hataður að loknu þessu kjörtímabili þrátt fyrir að vera vingjarnlegasti og kurteisasti maður sem hann þekkir. Þessi viðbrögð Jón Þórs sýna að það er langur vegur framundan fyrir Óttarr að bæta umræðuhefðina. Það er sem vinstri flokkarnir vinni eftir hinni ævafornu og úldnu reglu: „You’re either with us, or against us”.

Sjálfstæðisflokksins besta hlið

Á sama tíma hryggir Smári McCarthy sig á því að Óttarr skuli velja íhaldið frekar en frjálslyndið. Með því á hann við að Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn séu í raun báðir íhaldsflokkar á meðan Píratar séu frjálslyndir. Satt best að segja verður teljast jafnvel ólíklegra að 5 flokka ríkisstjórn með íhaldsflokkinn Vinstri græn í broddi fylkingar verði frjálslyndari en DAC-stjórnin. Með bjartsýnina að vopni höldum við í vonina með Smára um að frjálslyndi flokkanna þriggja, Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks beri íhaldsarm Sjálfstæðisflokksins ofurliði og hér taki við fyrsta frjálslynda ríkisstjórn í sögu lýðveldisins.

Ríkisstjórn af þeim toga ætti að geta komið til leiðar mikilvægum frjálslyndum málum. Svo aðeins eitt dæmi sé tekið, gæti skapast breið sátt um að afnema það undarlega fyrirkomulag að íslenska ríkið selji sjálft áfengar veigar. Málið er ekki þungavigtarmál í sjálfu sér og ekki flókið heldur, en prinsippmál er það. Í ljósi þess að Píratar hafa, líkt og Óttarr, talað fyrir breiðri sátt um grundvallarmál og bættri umræðuhefð, hefði mátt búast við að þeir styddu við einfalt og gott mál sem þetta. Píratar eru enda frjálslyndur flokkur að eigin sögn.

Staðreyndin þó sú, að jafnvel einföldustu mál virðast geta vafist fyrir Pírötum, þrátt fyrir að vera „smámál” í hugum margra og einföld í framkvæmd. Þótt margir í röðum Pírata séu hlynntir því að áfengi sé selt í matvöruverslunum virðist það ekki hafa ratað á stefnuskrá þeirra fyrir kosningarnar sem verður að teljast undarlegt í meira lagi. Og hver er þá íhaldið?

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.