Fyrirtæki sem er bara alveg sama

eftir Oddur Þórðarson

Ameríska skáldið Carl Sandburg á að hafa sagt: “Ef staðreyndir málsins eru þér ekki í hag, vísaðu þá til laganna. Ef lögin eru þér ekki hliðholl, bentu þá á staðreyndir málsins. Ef hvorki staðreyndir málsins né bókstafur laganna liggja fyrir þér, berðu þá í borðið og öskraðu hástöfum.”

Það er svolítið það sem forvarsmenn Samherja virðast vera að gera þessa dagana: berja í borðið. Óútpældur þáttur þeirra, þar sem útlistaðar eru ásakanir á hendur RÚV og Helga Seljan um að hafa falsað gögn sem notuð voru í umfjöllun um fyrirtækið, er í besta falli vandræðalegur. Í ljós kom strax daginn eftir birtingu þáttarins að ekkert væri hæft í ásökunum fyrirtækisins. Engin gögn voru fölsuð og ekki var efnislega “átt við” neitt sem í þeim stóð.

Ég held að þetta útspil Samherja sé meira en bara hlægilegt: það er hættulegt. Óhuggulegur fyrirboði um það sem komið getur frá Samherja í framtíðinni. Í þessu tilfelli er eitthvað ráðgjafabatterí ráðið til þess að reyna að stýra fjölmiðlaumfjöllun um fyrirtækið í aðdraganda aðalmeðferðar í skaðabótamáli forstjóra þess, Þorsteins Más Baldvinssonar, og fyrirtækisins sjálfs á hendur Seðlabanka Íslands. Greinilega átti að þyrla upp ryki svo að það færi ekki framhjá neinum að Samherji ætli að ná sér niður á vondu ríkisstofnuninni sem einungis sinnti sínu lögbundna eftirlitshlutverki, þegar stofnunin gerði húsleit í húsakynnum Samherja.

Sama hvernig það skaðabótamál fer á endanum stendur eftir, að það virðist sem Samherja hafi verið alveg sama um hvernig umfjöllun um fyrirtækið yrði, eftir að öllu rykinu hefur verið þyrlað upp. Það hefði ekki þurft almannatengil með áratuga reynslu til þess að sjá hversu furðulegur skæruhernaður Samherja gegn Helga Seljan var. Afstaða Samherja var greinilega að spá bara ekkert í því sem þeir voru að gera. Þessir menn eru ekki heimskir, þeir vissu hver viðbrögðin yrðu. Það er virkilega hættuleg afstaða fyrir valdamikið fyrirtæki að taka.

Ef fyrirtæki eins og Samherji, með jafnmikil ítök í íslensku samfélagi og það, er alveg sama um almannaálit í sinn garð þá auðvitað hættir almannaálitið að skipta máli í öllu skyni. Enginn venjulegur Íslendingur stundar viðskipti við Samherja dag frá degi í beinum skilningi, ekki vegna þess að fólki er svo illa við fyrirtækið eða stjórnendur þess. Samherji selur bara ekki afurðir sínar á þeim markaði sem venjulegir Íslendingar versla á.

Við erum þarmeð með fyrirtæki sem stjórnar nær alveg veiðum úr fiskveiðiauðlind okkar Íslendinga, hefur mikil áhrif á trúverðugleika íslensks viðskiptalíf erlendis en hefur enga hagsmuni af því að fyrirtækið sé vinsælt heima fyrir. Það getur því hagað sér eins og það sýnist algjörlega afleiðingalaust.

Samherji getur þannig veitt öðrum fyrirtækjum í svipaðri stöðu gagnvart íslenskum almenningi, íslenskum fyrirtækjum, stjórnvöldum og stofnunum, fordæmi til þess að hirða ekkert um almenningsálit í garð fyrirtækisins. Það er hættulegt.

Ef staðreyndir málsins eru þér ekki í hag, vísaðu þá til laganna. Ef lögin eru þér ekki hliðholl, bentu þá á staðreyndir málsins. Ef hvorki staðreyndir málsins né bókstafur laganna liggja fyrir þér, berðu þá í borðið og öskraðu hástöfum. Ef það virkar heldur ekki, hættu þá bara að pæla í því og gerðu það sem þér sýnist.

Oddur Þórðarson

Stjórn, ritstjórn og pistlahöfundur

Oddur er blaðamaður á Morgunblaðinu og nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur þar af lært eitt ár við University of Southampton á suðurströnd Englands og lætur sig því bresk stjórnmál mjög varða. Hann hefur tekið virkan þátt í pólitísku og menningarlegu starfi undanfarin ár og setið í alls kyns stjórnum, nefndum og ráðum síðan á grunnskólaaldri. Oddur hefur mestan áhuga á dægurmenningu Íslendinga, fólki og stöðum.