Fyrirmyndir

eftir Elís Orri Guðbjartsson

Fyrir tíu árum var ég tiltölulega nýfermdur fjórtán ára snáði, sem átti þann draum heitastan að gerast atvinnumaður í knattspyrnu. Ég var búsettur í Safamýrinni í Reykjavík og spilaði með bláu riddurunum, knattspyrnustórveldinu Fram, þar sem ég hljóp um iðagræna vellina eins og kiðlingur í klettum. Þótt tíminn sé fljótur að verpa sandi í sporin man ég eins og það hafi gerst í gær þegar íslenska karlalandsliðið mætti því spænska í vináttuleik á Laugardalsvelli um miðjan ágústmánuð 2006. Í spænska landsliðinu voru engir aukvissar, en það samanstóð meðal annars af nokkrum frambærilegustu leikmönnum heims; markahrókurinn Raúl bar fyrirliðabandið og honum til halds og trausts voru Sergio Ramos, Fabregas, David Villa og Fernando Torres, svo fáeinir séu nefndir.

Þar sem líf mitt, og vina minna, hringsnerist á þessum tíma um knattspyrnu datt okkur ekki annað til hugar en að reyna að berja stjörnurnar, sem við litum ekki síður mikið upp til, augum. Við veltum því vel og lengi fyrir okkur hvar við gættum hitt leikmennina og eftir mikinn þankagang áttuðum við okkur á að einhvers staðar þyrftu Spánverjarnir að gista, og tæplega myndu þeir samþykkja hvaða kytru sem er. „Hotel Nordica!“ sögðum við nánast í kór og í barnslegum augunum mátti sjá að við efuðumst ekki í hálft augnablik um að þar myndu hinu suðrænu gestir leggjast til hvílu.

Við fórum á fætur árla morguninn eftir þar sem við vildum ekki missa af þeim spænsku. Á meðan fólk nuddaði stýrurnar úr augunum eftir helgina og keyrði til vinnu gengum við hýrir á brá áleiðis á hótelið. Við gengum vaskir inn í móttökusal hótelsins og er óhætt að segja að fáir hafi verið á ferli. Við vöktum þegar í stað undrun starfsmanna og örfárra árrisulla gesta er við héldum að móttökuborðinu og byrjuðum að leita hófanna um hvort innsæi okkar hafði leitt okkur á rétta braut. Starfsmaðurinn á bakvið borðið horfði á okkur með stálblik í auga og var þögull sem gröfin, þegar hann þóttist ekkert vita hvort rúmlega tuttugu manna knattspyrnulið, ásamt þjálfurum og fylgdarliði, myndi gista á hótelinu eður ei.

Við hegðuðum okkur eins og þaulreyndir diplómatar og reyndum að sjá við honum með ýmsum brögðum, en hans var mátturinn og valdið og sat hann gikkfastur á upplýsingaskorti sínum og sá við okkur í hvert eitt og einasta skipti. Þegar ég hugsa til baka get ég vart ímyndað mér hversu uppáþrengjandi við höfum verið við aumingja manninn, en hann var fljótur að setja okkur úrslitakosti; annað hvort myndum við hætta að haga okkur eins og stagkálfar eða snauta burt. Okkur fannst fráleitt að hlaupast úr brimróðrinum einmitt þegar við töldum lendingu vera í augsýn og lofuðum dýrðlingahegðun, og, misminni mig ekki, mátti glitta í geislabaug á hvíthærðum kollunum. Við sátum grafkyrrir í anddyri hótelsins, sem var enginn hægðarleikur fyrir ærslafulla gleðigosa, og með hverri sekúndunni sem leið misstum við jafnt og þétt vonina á að sjá spænsku hetjurnar.

Klukkan var nokkrum mínútum gengin í fjögur þegar við endanlega gáfumst upp og vorum sannfærðir um að hafa veðjað á rangan hest, enda höfðum við beðið heilan vinnudag. Að okkar mati var þó ekkert annað nægilega ákjósanlegt hótel í boði fyrir hina, í okkar augum, konungsbornu. Hotel Nordica væri meira að segja í göngufæri frá vellinum og allt. Niðurlútir gengum við út um dyrnar og horfðum í síðasta sinn á starfsmanninn við móttökuborðið, sem horfði á eftir okkur járnharður á svipinn.

Við vorum varla komnir út af bílastæðinu þegar við sáum hvíta rútu koma á miklu skriði eftir Suðurlandsbrautinni og ákváðum að sjá hvert hún stefndi. Fermingardrengirnir voru bænhærðir og að sjálfsögðu fór hún rakleitt inn á bílastæði Hotels Nordica. Eins og antílópur spruttum við úr spori og hlupum á móti rútunni á hraða sem sjálfur Usain Bolt gæti verið stoltur af. Á meðan stórstjörnurnar gengu út úr rútunni seildumst við brosmildir eftir pennum og stílabókum. Þrátt fyrir langt ferðalag gáfu þeir allir sér mikinn tíma til að spjalla, sitja fyrir myndum og gefa okkur eiginhandaráritanir. Áhuginn væri svo einlægur að það var engu nær en að við héldum á stuðningsyfirlýsingu við forsetaframboð Ástþórs Magnússonar.

Við stóðum sælir á svip fyrir utan hótelið í þó nokkra stund, líkt og mánaðargömul ungbörn sem hafa drukkið sig mett af móðurmjólkinni, og reyndum að ná okkur niður á jörðina. Þessi rúma klukkustund með leikmönnum spænska landsliðsins var, fyrir unga kórdrengi úr Safamýrinni, á við ævintýri Fróða og Sáms í þríleiknum um Hringadróttinssögu.

 

Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef þulið upp eftirfarandi frásögn, með tilheyrandi leikrænum tilburðum og stjörnur í augunum. Þegar ég hef svo lokið mér af fæ ég nær undantekningarlaust sömu spurninguna frá úrvinda viðmælendum: „En, hvernig fór leikurinn?“

Leikurinn skipti mig engu máli, enda fylgir það ekkert frásögninni hvernig hann fór. Það sem skipti mig mestu máli var möguleikinn á að hitta fyrirmyndirnar mínar, þó ekki nema til þess eins að eiga langa sögu til að segja vinum mínum síðar meir.

Elís Orri Guðbjartsson

Pistlahöfundur

Elís Orri er meistaranemi í alþjóðastjórnmálum við London School of Economics (LSE). Hann tók virkan þátt í stúdentapólitíkinni í Háskóla Íslands og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum, bæði f.h. Röskvu og Stúdentaráðs, ásamt því að sitja í stjórn ungliðahreyfingar stjórnmálaflokks. Hann er nautnaseggur af bestu gerð og nýtur sín best í góðra vina hópi, sérstaklega með rauðvínsglas í hönd.