Fyrir þá sem bera harm sinn í hljóði

eftir Bjarni Halldór Janusson

Alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga er haldinn ár hvert þann 10. september. Markmið þessa dags er að vekja fólk til vitundar um bæði alvarleika og algengi sjálfsvíga. Sjálfsvígstíðni á Íslandi er með því hærra sem þekkist í heiminum, sér í lagi meðal ungs fólks og ekki síst meðal ungra karlmanna. Á Íslandi falla um og yfir 40 einstaklingar fyrir eigin hendi á hverju ári, eða 11-13 manns fyrir hverja hundrað þúsund íbúa landsins. Þá segja um 10% ungmenna á Íslandi að þau hafi einhvern tímann gert tilraun til sjálfsvígs.

Mikilvægt er að bjóða öllum sjúklingum viðeigandi aðstoð vegna sálrænna veikinda sinna. Fyrst og fremst til að fyrirbyggja hið allra versta og draga úr sjálfsvígstíðni, en einnig til að tryggja betri lífsgæði þeirra sem glíma við sálræn veikindi. Í því skyni þurfa viðbrögð heilbrigðisyfirvalda að vera forvarnardrifin, þar sem leitast verður við að fyrirbyggja þróun alvarlegra veikinda, ásamt því að veita viðeigandi heilbrigðisþjónustu eins fljótt og auðið er.

Forvarnir og fjárhagur

Til að bregðast við sársaukafullum áföllum lífsins og hverfulleika tilverunnar er mikilvægt að sérhver einstaklingur geti leitað sér viðeigandi aðstoðar til að koma í veg fyrir að vanlíðan og depurð verði að alvarlegu þunglyndi, að áhyggjur verði að óhóflegum kvíða, og svo framvegis. Hérlendis mælist um fimmti hver kvenmaður á aldrinum 18-25 ára með þunglyndiseinkenni og sjálfsvíg er algengasta dánarorsök karlmanna í þeim aldurshópi. Í ljósi þeirrar tölfræði er ljóst að betur megi ef duga skuli. Svo virðist sem fjöldi fólks neiti sér um sálfræðiþjónustu af fjárhagsástæðum, en um 33% fólks telur sig ekki eiga efni á geðheilbrigðisþjónustu. Þetta virðist sérstaklega eiga við um yngri aldurshópa.

Oftast þarf einstaklingur með kvíða og þunglyndi að gera ráð fyrir að minnsta kosti 10-15 meðferðartímum hjá sálfræðingi. Algengast þykir að greiða hátt í 15.000 krónur fyrir hvern meðferðartíma og samkvæmt því yrðu bein útgjöld vegna slíkrar meðferðar um 150.000 – 225.000 krónur. Fyrir einstakling í leiguhúsnæði nemur síðarnefnda upphæðin um 30% af þeirri upphæð sem LÍN lánar að hámarki til framfærslu hverja önn. Í ljósi þess að ungt námsfólk tilheyrir ekki stéttarfélagi getur það ekki leitað á náðir þeirra og hlotið styrkveitingu vegna sálfræðiþjónustu, ekki nema námsfólk sé í háu starfshlutfalli samhliða náminu sínu.

Fyrsta skref yfirvalda væri því að tryggja fullnægjandi aðgengi að sálfræðiþjónustu eða annars konar sérfræðiþjónustu sem getur fyrirbyggt það að tímabundin sálarangist verði að alvarlegum geðsjúkdóm. Það má ýmist gera með aukinni niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu eða með því að fjölga stöðgildum sálfræðinga sem starfa á vegum hins opinbera.

Fjölþættar lausnir

Mikilvægt er þó að hafa í huga ólíka orsakaþætti sem liggja að baki sálrænna veikinda, enda um fjölþættan vanda að ræða, þar sem veikindi af andlegum toga eru oftar en ekki flókin samsetning ólíkra kvilla og mjög mismunandi milli einstaklinga. Raunar væri réttast af okkur að horfa til sálrænna veikinda með sambærilegum hætti og við horfum til flókinna líffræðilegra sjúkdóma. Enga töfralausn er þar að finna og því þarf að veita sérhæfða þjónustu sem tekur mið af ólíkum aðstæðum og erfðaþáttum hverju sinni.

Annað mikilvægt skref væri því að tryggja að sjúklingar fái þá þjónustu sem ólíkar aðstæður þeirra og einkenni krefjast hverju sinni. Þegar kemur að geðheilbrigðisþjónustu er þetta sérstaklega mikilvægt, einkum þegar þekktar geðraskanir og persónuleikaraskanir eru eins ólíkar og raun ber vitni. Þjónusta sem hentar einum þarf ekki að henta öðrum og lyf sem hjálpar einum getur verið skaðlegt öðrum. Þess vegna er samstarf ólíkra sérfræðinga mikilvægt, svo sem samstarf geðlækna og sálfræðinga, þar sem samnýta þarf þekkingu þeirra til að veita réttar lausnir. Í því skyni er ekki nóg að heildstæð sýn sé fyrir hendi, heldur verður einnig að fylgja henni eftir og framkvæma í samræmi við fyrirheit

Fordómar

Þó svo að aðgengi að sálfræðiþjónustu yrði fullnægjandi og þó svo að heildstæð sýn myndi skapast í þessum málaflokki, þá verður að taka einnig á þætti samfélagsins í þessum efnum. Nefna ber þá staðreynd að ekki allir hjálparþurfi leiti sér viðeigandi aðstoðar, einkum vegna menningar- og samfélagsbundinna fordóma. Vinna þarf gegn þeim viðhorfum sem mála geðheilbrigðisþjónustu sem óæðri gerð heilbrigðisþjónustu. Geðheilbrigði er grundvallarforsenda heilbrigðis og almennrar vellíðan. Sú þjónusta sem snýr að geðheilbrigði okkar er þess vegna ekki síðri heilbrigðisþjónusta en annars konar heilbrigðisþjónusta.

Að öðru leyti mætti rekja sökina til kynjakerfis sem steypir fólki í sama mót. Kerfi sem segir til um hvernig atferli og hugsun manneskju eigi að vera, svo það samræmist fyrir fram ákveðnum gildum og viðmiðum þessa kynjakerfis. Afleiðing þessa eru þær staðalímyndir sem við lifum við hversdagslega, eins og sú skaðlega staðalímynd að karlmenn geti ekki leitað sér aðstoðar vegna sálrænna veikinda, því slík veikindi stangist á við hefðbundin karllæg gildi; í stað þess að viðurkenna tilvist þessa veikinda eigi að bæla niður þessar tilfinningar og afneita þessum veikindum.

Framtíðin

Á síðustu misserum hefur átt sér stað tímabær og þörf vitundarvakning í samfélaginu um geðheilbrigðismál. Frekari stuðningur yfirvalda og samfélagsins alls hlýtur að vera rökrétt framhald í þessum málaflokki. Mikilvægt er að almenningur hafi aðgang að eins fullnægjandi þjónustu og unnt er að veita hverju sinni og í því skyni verður að nýta kosti allra úrræða. Sagt er að besti mælikvarðinn á ágæti samfélags sé hvernig það hlúir að hinum bágstöddu. Gott samfélag sér til þess að hjálparþurfi einstaklingar komi ekki að lokuðum dyrum og neyðist til að bera harm sinn í hljóði. Gott samfélag tryggir gott geðheilbrigði.

Bjarni Halldór Janusson

Stjórn & pistlahöfundur

Bjarni Halldór er stjórnmálafræðingur að mennt og hefur nýlokið meistaranámi í stjórnmálaheimspeki við University of York í Bretlandi. Skrif hans hverju sinni munu beinast að helstu málefnum félags- og hugvísinda. Þá verða málefni líðandi stundar og hugmyndafræðilegar vangaveltur fyrst og fremst til umfjöllunar. Hann hefur lengi látið sig félagsmál varða, en þar ber helst að nefna varaþingmennsku á Alþingi og setu í Stúdentaráði HÍ.