Fullkomnunarárátta er samfélagsmein

eftir Oddur Þórðarson

Undanfarið hef ég verið frekar lítill í mér. Í sumarbyrjun, þegar samfélagsmiðlarnir fylltust af myndum úr sólarlandaferðum annarra, leit ég svo á að ég væri ekki beint efni í instagram-fyrirsætu. Því ákvað ég að reyna að taka mér tak, byrja að hreyfa mig og hætta að fyllast vonleysi þegar ég horfi í spegilinn.  Í örvæntingafullri tilraun til að koma mér í gott líkamlegt form í sumar keypti ég mér aðildarkort í World Class. Þangað hef ég farið reglulega í um mánuð og er farinn að sjá örlítinn árangur.

Eins og kannski margir kannast við fann ég fyrir ákveðinni minnimáttarkennd þegar ég fór í ræktina lengst framan af. Mér fannst ég yrði að falla inn í hópinn – bölvuð fullkomnunaráráttan. Vegna þessa stóð ég sjálfan mig að því að setja mikla pressu á sjálfan mig til þess að festa kaup á ýmsu „ræktardóti“ og alls kyns „ræktarfötum“ svo ég gæti nú þóst vita hvað ég væri að gera þegar ég djöflaðist á hlaupabrettinu. Ég fór því auðvitað beint á netið og keypti mér þessar fínu Under Armour flíkur og greip með mér nýjustu bragðtegundina af Amino Energy í næstu verslunarferð. Ég var tilbúinn að puða í fleiri klukkustundir á dag og láta kílóin hrynja af mér. Eftir að hafa séð kortayfirlitið, sem var ákveðið áfall enda námsmaður, fór ég að velta nokkrum spurningum fyrir mér.

Til að byrja með spurði ég mig fyrir hvern ég væri svo að þræla mér í gegnum þetta? Fyrir sjálfan mig? Getur verið að mér hafi átt eftir að líða betur, héldi ég áfram að mæta þeim kröfum sem samfélagið setti á þá sem eru að byrja að stunda líkamsrækt?

Óháð holdafari

Margir telja sig hafa svörin við þessum spurningum. Það er fólk sem ef til vill mun líka betur við mig eða koma öðruvísi fram við mig ef fituprósenta mín væri minni en hún er í dag. En svo eru auðvitað aðrir sem kunna að meta verðleika mína óháð holdafari mínu. Því miður er ég, ásamt mörgum öðrum, alltof upptekinn við að hugsa um hvað fyrrnefnda hópnum finnst.

Margir sem í minni stöðu kunna að hugsa svipaðar hugsanir og ég. Þeir upplifa sjálfa sig sem annars flokks vegna þess að þeir eru ekki í eins góðu formi og þeim finnst þeir eiga að vera. Fyrir vikið er erfiðara að ná sér á strik og koma sér í betra form.

Inn við beinið erum við langflest stundum grunnhyggin og óörugg

Til þess að ná árangri þarf sjálfstraustið að vera í lagi. Maður þarf að trúa á sjálfan sig til þess að geta knúið fram einhvers konar framfarir og bætingu. Það slæma við þá staðreynd er, að vegna þess að fólk hefur ekki gott sjálfsálit til að byrja með, þá lætur árangurinn á sér standa og sjálfstraustið batnar lítið sem ekki neitt. Þessi hvimleiði vítahringur hvatningar og niðurbrots hefur það oft í för með sér að fólk gefst fljótt upp á líkamsrækt

Auðvitað veit ég að aðeins ég hugsa svona neikvætt um sjálfan mig. Aðrir sem koma í líkamsræktarstöðvarnar til þess að leggja rækt við heilsu sína eru sennilega ekki þangað komnir til þess að hugsa um hvað ég sé nú að gera þar. Hvort sem það eru byrjendur eða lengra komnir. Fólkið í kringum mann er nógu upptekið af sjálfu sér til þess að nokkurn tíma velta því fyrir sér hvort fötin sem ég klæðist eða æfingarnar sem ég geri séu annars flokks. Allt þetta fólk er nefnilega að hugsa um sjálft sig. Inn við beinið erum við langflest stundum grunnhyggin og óörugg. Þess vegna verðum við að reyna að horfa framhjá þessari lagskiptingu sem við eigum það til að búa til innra með okkur.

Staðreyndin er sú að fólk sem mætir á líkamsræktarstöðvar er fyrst og fremst að hugsa um eigin árangur eða framfarir en ekki um það hvernig aðrir sem eru þar í sama tilgangi líta út eða eru klæddir. Punkturinn er sá, það er enginn að hugsa um þig þegar þú mætir í ræktina, það er öllum drullusama.

Útlitsdýrkun er eins konar lífstílssjúkdómur í hina áttina

Þegar framangreint er farið að koma í veg fyrir að jákvæð áhrif líkamsræktar náist, þ.e. bætt líkamleg og andleg líðan, erum við komin á villigötur.

Inntak þessa pistils er ekki að láta fólki líða illa með sjálft sig, sé það ekki formi. Þvert á móti. Kjörstaðan væri auðvitað sú að allir gætu stundað líkamsrækt án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því hvað öðrum finnst. Hvatinn á að vera sá að fólk komi sér í form, sé það í hættu á að ná sér í einhvers konar lífstílssjúkdóma vegna ofþyngdar t.a.m. sykursýki eða alls kyns hjartavandamál. Gallinn er bara sá að útlitsdýrkun er eins konar lífstílssjúkdómur í hina áttina. Þess vegna þarf fólk að vanda sig við að feta þessu fínu línu á milli þess að finnast allt í lagi að eiga á hættunni að fá sykursýki og þess að segja að þeir sem ekki í formi eru, séu annars flokks.

Oddur Þórðarson

Stjórn, ritstjórn og pistlahöfundur

Oddur er blaðamaður á Morgunblaðinu og nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur þar af lært eitt ár við University of Southampton á suðurströnd Englands og lætur sig því bresk stjórnmál mjög varða. Hann hefur tekið virkan þátt í pólitísku og menningarlegu starfi undanfarin ár og setið í alls kyns stjórnum, nefndum og ráðum síðan á grunnskólaaldri. Oddur hefur mestan áhuga á dægurmenningu Íslendinga, fólki og stöðum.