Frumskógar atferlisins

eftir Friðrik Þór Gunnarsson

Ósýnilega höndin. Hver hefur ekki heyrt um hina margrómuðu ósýnilegu hönd? Fyrir suma er hugmyndin jafn sjálfsögð og sólarupprás í austri. Fyrir aðra er hún einungis nærsýnt þvaður úr fílabeinsturninum. Þessi byltingarkennda hugmynd er af lang flestum talin eiga uppruna sinn hjá skoska heimspekingnum Adam Smith á 18. Öld. Fyrir framlag sitt hefur Adam jafnframt verið kallaður „faðir hagfræðinnar“. Í sinni einföldustu mynd er hugmyndin sú að ef allir hegða sér með sína eigin hagsmuni að leiðarljósi munu frjáls viðskipti leiða til samfélagslega hagkvæmrar niðurstöðu, líkt og ósýnileg hönd skerist í leikinn og ýti okkur þangað.

Þessi einfalda hugmynd markaði upphafsspor kerfisbundinnar skoðunar á gangi efnahagslífsins og hegðun mannsins í heimi takmarkaðra gæða – fræðigrein sem við köllum í dag hagfræði. Hugmyndin um ágæti frjálsra viðskipta hefur allar götur síðan verið þróuð, prófuð, betrumbætt, skýrð og túlkuð.

The Rational Economic Man

Fræðigreinin hefur varpað ljósi í dimm horn og gefið okkur skýr svör við fjöldan allan af erfiðum spurningum. Það er þó þannig að efnahagsmál geta verið flókin og torskiljanleg. Oft er nauðsynlegt að einfalda raunveruleikann, í því skyni að finna vísbendingar sem beina okkur í rétta átt. Ein slík einföldun er forsendan um að maðurinn sé ávallt hagsýnn og rökréttur í hegðun. Sú forsenda hefur í langan tíma verið allsráðandi í fræðilegri hagfræði. Forsendan hefur fært hagfræðingum í hendur öflug tól til þess að greina efnahagslífið og er fjarri því óraunveruleg, í hinu stærra samhengi.
Það er þó mikilvægt að átta sig á takmörkunum forsendunnar og hvenær hin hefðbundna (nýklassíska) hagfræðilega greining á ekki endilega við í raunheimi.

Í nýlegri bók Michael Lewis, The Undoing Project, er meistaralega fjallað um tvo ísraelska sálfræðinga og vinnu þeirra. Annar þeirra eyddi æskunni á hlaupum frá nasistum í Frakklandi á tímum seinni heimsstyrjaldar. Hinn fæddist í Haifa í Ísrael. Báðir voru þeir komnir af rabbínum, en báðir voru yfirlýstir trúleysingjar. Báðir voru þeir djúpt markaðir af reynslum sínum sem hermenn í ísraelska hernum og báðir höfðu þeir einskæra ástríðu fyrir undrum mannlegrar hegðunar. Þar enduðu þó líkindin.
Daniel Kahnemann var þögull, inni í sér og fullur efasemda. Amos Tversky var rafmagnaður orkubolti sem geislaði af sjálfstrausti. Þessir tveir sálfræðingar áttu þó eftir að mynda ótrúlegt teymi og hefur sameiginleg vinna þeirra, ásamt vinnu annarra fræðimanna á borð við Richard Thaler, hróflað við grunnforsendum félagsvísinda og opnað nýja og spennandi vídd.

Ertu eitthvað bilaður, maður?

Meginstef þessarar vinnu er að maðurinn er ekki ávallt rökréttur. Heilinn virðist oft á tíðum nota einskonar „þumalputtareglur“ (e. heuristics) til þess að taka ákvarðanir. Skildi engan undra – oft er flækjustig heimsins hátt og tíminn takmarkaður. Þumalputtareglur þessar eru til þess fallnar að einfalda líf okkar og eru til staðar einmitt vegna þess að þær virka yfirleitt. Stundum gera þær það þó ekki, sem getur leitt til alvarlegra mistaka.

Ímyndaðu þér að þú sért í samkvæmi. Þú tekur í hendina á taugaóstyrkum og illa hirtum manni með gleraugu. Maður þessi passar kannski við þína steríótýpu af tölvunarfræðingi og þú ályktar þ.a.l. að þetta hljóti að vera tölvunarfræðingur. Þetta er auðvitað burtséð frá því að flestir eru ekki tölvunarfræðingar, sama hversu „líkir“ þeir kunna að vera einum slíkum. Þetta er dæmi um það sem nefnist samsvörunarreglan (e. representativeness heuristic) – þ.e. tilhneiging okkar til þess að meta hluti út frá hversu líkir þeir eru einhverju huglægu líkani okkar af táknmynd þess hlutar.
En það er ekki aðeins það. Ímyndaðu þér nú að einstaklingurinn reynist ekki vera tölvunarfræðingur, heldur knattspyrnumaður. Þetta kemur þér verulega á óvart. Næst þegar þú rekst á aðila sem minnir þig á þennan knattspyrnumann, manstu vel eftir fyrra atvikinu. Þú ert nú líklegri til þess að ofmeta líkurnar á því að svipaður aðili sé knattspyrnumaður. Þetta er dæmi um það sem nefnist tiltækireglan (e. availability bias) – þ.e. tilhneiging okkar til þess að ofmeta líkurnar á einhverju ef það er auðvelt að framkalla minningu um eitthvað svipað sem henti í fortíðinni.

Hvers vegna virðist það svo vera þannig að aðilar sem geisla af sjálfstrausti virðast alltaf vera svo fjandi hæfir til verka, jafnvel óstöðvandi? Það gæti verið vegna „the halo effect“ – þ.e. tilhneigingu okkar til þess að sjá aðeins styrkleika einhvers (jafnvel þeir sem eru ekki til staðar) þegar við hugsum um einhvern einn tiltekinn styrkleika. Þeir sem hafa orðið ástfangnir (eða lent í ástarsorg) kunna að gera tengingu hér.

Þetta eru kannski heldur „abstract“ dæmi, en þegar við áttum okkur á þeim möguleika að allir hugsi svona fer mikilvægið að skýrast.

Þegar hlutabréf byrja að falla, þá kann það að líkjast huglægu líkani fjárfesta af efnahagshruni (representativeness heuristic) og markaðsaðilar ofmeta því líkurnar á því að hagkerfið sé á leiðinni í klósettið, sem hraðar aðeins ferð þess ofan í skólpið.

Þegar þú lest eitthvað eftir hagfræðing, þá manstu svo auðveldlega eftir því að hagfræðingar „spáðu ekki fyrir um hrunið“ og ályktar því að hagfræðingurinn viti ekkert, og illu heilli hunsar ráðleggingarnar (availability bias).

Hver hefur svo ekki verið blekktur í einhver misgáfuleg kaup af hæfum sölumanni sem hefur áralanga reynslu af því að framkalla „the halo effect“?

Hægt væri að fylla mun meira af pappírsplássi í að ræða allar þær leiðir þar sem mannsheilinn verkar ekki alveg í samræmi við fullkomna rökhugsun. „Anchoring“, „loss aversion“, „gamblers fallacy“ eru fleiri dæmi, en hugsanavillurnar eru nær óteljandi.

Áfram, hærra

Það mikilvæga til þess að taka með sér er meðvitund um hvernig ákvarðanir eru teknar í raun og veru. Eitt dæmi um spennandi afurð slíkrar meðvitundar liggur í því sem nefnist „framreiknaðar væntingar“ (e. extrapolative expectations) – þ.e. að fólk skapi væntingar sínar um hluti með því að nota nýlega þróun þess hlutar og einfaldlega framreikna fram í tímann. Einfalt skýridæmi er aðili sem sér að húsnæðisverð hefur tvöfaldast á seinustu tveim árum og myndar væntingar sínar með því að framreikna þá aukningu yfir í næstu tvö ár. Kenningin hefur verið notuð til þess að skoða bólumyndanir á húsnæðismarkaðnum (1), hlutabréfamörkuðum (2) og almennt til þess að skoða hagsveifluna (3).

Óvíst er hvort þessi tiltekna kenning taki rót en það er með því að hugsa svona, út fyrir kassann, að hinar raunverulegu framfarir eiga sér stað í vísindunum. Efnahagskerfin og mannverurnar sem skapa þau eru undursamlega margbrotnar. Félagsvísindi gefa ógrynni af vísbendingum í rétta átt. En í heimi þar sem sannleikur virðist skipta æ minna máli, upplýsingaflæðið er gríðarlegt og s.k. „alternative facts“ liggja á hverju horni, er nauðsynlegt að þekkja sinn eigin hug nógu vel til þess að treysta honum ekki.

(1) http://www.nber.org/papers/w20426.pdf

(2) http://faculty.som.yale.edu/jameschoi/extrapolative.pdf

(3) http://users.cla.umn.edu/~jianfeng/Extrapolative_Production.pdf

Friðrik Þór Gunnarsson

Pistlahöfundur

Friðrik Þór er hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Hann er víðförull og hefur búið bæði í Bandaríkjunum og London. Hann hefur tekið virkan þátt í starfi Vöku fls. og var formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík frá 2017 til 2018.