Fríhöfnin: Markaðsskekkja í boði íslenska ríkisins

eftir Friðrik Þór Gunnarsson

Ísland óx hratt úr grasi. Um aldamótin 1900 voru Íslendingar vanþróað samfélag á hjara veraldar, sem hélt sér á floti meira eða minna eingöngu með sjálfsþurftarbúskap. Við erum vissulega enn á hjara veraldar, en þær breytingar sem hafa orðið á markaðskerfi, lífsgæðum og samfélagi Íslendinga á seinustu rúmum 100 árum eru ekki minna en stórkostlegar. Vegurinn var þó ekki þráðbeinn og má hreinlega segja að Íslendingar hafi svolítið skakklappast í gegnum efnahagsstjórn á 20. öldinni í átt sinni að velmegun. Í dag hafa ítök ríkisins blessunarlega verið takmörkuð að miklu leyti á íslenskum markaði. Þó eimir enn eftir af gömlum tímum á ákveðnum sviðum.

Í dag standa íslensk fyrirtæki í sí auknum mæli frammi fyrir alþjóðlegri samkeppni, hvort sem um er að ræða með komu stórfyrirtækja á borð við Costco eða með verslun á netinu. Það er vel, þar sem að ein varfærnasta fullyrðing sem setja má fram er að virk samkeppni muni leiða til hagsbóta fyrir neytendur. Það má því spyrja sig hvort það skjóti ekki skökku við að til staðar sé verslunarrisi, á innlendum mælikvarða, í eigu ríkisins sem situr ekki við sama borð og önnur fyrirtæki á innlendum markaði. Fyrirtæki sem starfar fyrir utan kerfi virðisaukaskatts og vörugjalda. Hér er um að ræða Fríhöfnina, sem er í eigu Isavia, sem er aftur í 100% eigu ríkisins. Fríhöfnin rekur 6 verslanir auk  umboðs fyrir Victoria‘s Secret undirföt. Að auki sinnir fyrirtækið umfangsmiklu markaðsstarfi og netverslun. Í sumum vöruflokkum, t.d. fyrir snyrtivörur og sælgæti, má jafnvel staðhæfa að fyrirtækið sé með markaðsráðandi stöðu. Þó er fyrirtækið ekki skilgreint af samkeppniseftirlitinu sem aðili á innlendum markaði og lýtur þ.a.l. ekki innlendum samkeppnisreglum.

Það má vera ljóst að skattfrjáls verslun á flugvellinum mun ávallt ganga á hlut innlendrar verslunar. Þetta kann að vera gleðiefni fyrir suma, sérstaklega þá sem nýta sér skattfrjálsa verslun Fríhafnarinnar mikið. Það ætti hins vegar líka að vera ljóst að þessi markaðsskekkja mun rýra kjör neytenda til lengri tíma litið. Innlend velta dregst saman frá því sem yrði, skatttekjur hins opinbera rýrna og aðstöðumunur skapast, bæði á milli innlendra rekstraraðila sem og innlenda neytendur sem búa við breytileg kjör og nýta því skattfrjálsa verslun í mismunadi mæli.

Áþekkt fyrirkomulag og í Fríhöfninni er óþekkt erlendis, t.a.m. hafa komuverslanir verið á miklu undanhaldi í flestum vestrænum ríkjum. Í flestum fríhöfnum eru verslanir til staðar einungis fyrir brottfararfarþega, sem miða eðli málsins samkvæmt aðallega að tækifærissölu til ferðamanna á heimleið. Það er mikilvægt í þróuðu ríki að virk samkeppni sé til staðar þar sem jafnræðis er gætt. Það er því vert að velta fyrir sér fyrir komandi kjörtímabil hvort það sé ekki kominn tími til þess að  ríkið leggji niður reksturinn og komi honum í hendur einkaaðila, eins og þekkist á flestum öðrum flugvöllum heims. Í það minnsta er lítið sem ekkert sem mælir fyrir núverandi fyrirkomulagi.

Friðrik Þór Gunnarsson

Pistlahöfundur

Friðrik Þór er hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Hann er víðförull og hefur búið bæði í Bandaríkjunum og London. Hann hefur tekið virkan þátt í starfi Vöku fls. og var formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík frá 2017 til 2018.