Fréttir í framtíðinni: seinni hluti – Eignarhald

eftir Arnór Bragi Elvarsson

Í síðasta pistli var fjallað um stórar áskoranir fjölmiðlamarkaðsins. Ein af þeim hugleiðingum sem borið hefur á góma er hvort minnkandi arðbærni fjölmiðla leiði til þess að þeir færist í auknu magni yfir í eignarhald sérhagsmunastofnana og stjórnmálaafla. 

Á Íslandi virðist algengara að eigendur fjölmiðla hafa lítil ef nokkur áhrif á ritstjórnarstefnu fjölmiðla, hvað þá störf blaðamanna. En í ljósi þeirrar þróunar sem á sér stað á heimsvísu sem lýst var í seinasta pistli er áhugavert að skoða hvernig eignarhaldi fjölmiðla er háttað hérlendis.

Óháðir blaðamenn. Háðir eigendur?

Á Íslandi er fjölbreytt fjölmiðlaflóra en markaðurinn er harður og erfitt getur verið að halda rekstri þeirra réttu megin við núllið. Ef teknir eru saman helstu fjölmiðlar landsins má sjá að þeir hafa ýmist dreift eða stakt eignarhald en tengjast þó oft einhverjum böndum við stjórnmálaflokka eða aðilum tengdum flokkum. Þessi tengsl eru sýnd á skýringarmyndinni hér að neðan í einfaldaðri mynd skv. upplýsingum af vef fjölmiðlanefndar. Undir myndinni má finna stutta yfirferð um hvern og einn miðil og rökstuðning um möguleg tengsl eignarhalds þeirra við stjórnmálaflokka. 

Tengsl eignarhalds fjölmiðla við stjórnmálaflokka. Eignarhald eigenda miðlanna sem sýndir eru má sjá í prósentum. Hér má finna myndina í betri upplausn:
https://drive.google.com/file/d/1bGEIiHiguZge9oyzeVsJOXmZ4hCC7r2F/view?usp=sharing

Niðurstaða

Í heild sinni er áhugavert að sjá að fáir miðlar virðast hafa algjörlega óháð eignarhald. Það er einnig áhugavert að sjá hvernig eigendur tengjast innbyrðis er þeir hafa gjarnan tekist á við hvorn annan opinberlega í gegnum árin (sjá að neðan). Það sem kom líka á óvart var að sú ímynd sem Morgunblaðið hefur, að vera málpípa Sjálfstæðisflokksins, virðist ekki vel rökstudd – heldur mögulega mýta. Eignarhaldið er þó í traustri eigu yfirlýsts sjálfstæðismanns, en erfitt er að segja útfrá þessu að blaðamenn Morgunblaðsins aðhyllist málflutning Sjálfstæðisflokksins framyfir aðra flokka. Það sama má segja um blaðamenn flestra annara miðla. Verður slíkt enn raunin eftir tíu ár?

Fjölbreytni í íslensku fjölmiðlaumhverfi virðist helst drifin áfram af framtaksemi og atorku fjölmiðlamanna frekar en sérhagsmunum eigendahópsins. Því mætti teljast varhugavert að reyna að bendla fréttaflutningi miðilsins við ákveðna stjórnmálastefnu. Slíkt er ekki markmið þessa pistils. Að benda á tengsl stjórmálaflokka við eignarhald fjölmiðilsins á hins vegar klárlega erindi við lesendur.

Athugasemdir og ábendingar eru vel þegnar.

Frekari skýringar

365 miðlar, Torg og Sýn [Fréttablaðið, Vísir, Bylgjan og Stöð 2]

365 miðlar er fjölmiðlafyrirtæki í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, athafnakonu og eiginkonu Jóns Ásgeirs athafnamanns sem hafa frá því fyrir aldamót haslað sér völl á fjölmiðlamarkaði. Undir fyrirtækið heyrðu m.a. Fréttablaðið, Vísir, Bylgjan og Stöð 2. Árið 2017 seldu þau Vísi og ljósvakamiðla sína til Vodafone, sem nú heitir Sýn hf. Sýn er á hlutabréfamarkaði, en stærsti einstaki eigandi fyrirtækisins er Heiðar Guðjónsson, forstjóri félagsins, í gegnum félag sitt Ursus ehf. 

365 miðlar seldu svo helmingshlut í Torg ehf. útgáfufélagi Fréttablaðsins, til félags í eigu Helga Magnússonar, þekkts athafnamanns. Í nýlegri ævisögu hans eftir Björn Jón Bragason segir hann meðal annars frá því er hann sagði skilið við Sjálfstæðisflokkinn og tók þátt í stofnun Viðreisnar.

Árvakur [Morgunblaðið]

Morgunblaðið, elsti prentmiðill landsins, hefur lengi vel verið talið nátengt Sjálfstæðisflokknum og oft ásakað fyrir að virka sem málpípa flokksins. Slíkt mætti rekja til þess að á síðustu öld átti blaðið jafnvel fulltrúa á þingflokksfundum flokksins til þess að geta gert betur grein fyrir stefnumálum flokksins. Styrmir Gunnarsson hefur þó gert grein fyrir í bók sinni hvernig aðskilnaður milli flokksins og blaðsins átti sér stað á tíma hans sem blaðamaður. Í dag eru Sjálfstæðisflokkurinn og miðlarnar ekki alltaf samstíga. Morgunblaðið og mbl.is eru í eigu Árvakurs hf.

Miklar ritdeilur hafa átt sér stað á milli ritstjórnar Morgunblaðsins og forystu Sjálfstæðisflokksins undanfarið, sérstaklega vegna þriðja orkupakkans. Þar vill ritstjórn Morgunblaðsins meina að forysta Sjálfstæðisflokksins fari harkalega gegn samþykktum landsfundar flokksins. Þó ritstjórinn fylgi ekki forystu flokksins, breytir það því þó ekki að stærsti eigandi Árvakurs er Eyþór Laxdal Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík með rúmlega 20% hlut og ritstjóri þess Davíð Oddsson, fyrrum forsætisráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Í gegnum tíðina hefur blaðið gjarnan veitt flokknum aðhald, en aðilar innan flokksins vilja meina að í gagnrýni sinni á hendur flokksins gangi Davíð fulllangt og hallist jafnvel að málflutningi Miðflokksins. Davíð er ekki þekktur fyrir að sitja á skoðunum sínum en hann og fyrrnefndur Jón Ásgeir hafa t.d. lengi eldað grátt silfur saman.

Miðillinn er þó ekki einungis í eigu áhrifafólks tengdum Sjálfstæðisflokknum heldur á Kaupfélag Skagfirðinga 20% hlut sem gjarnan er þekkt fyrir tengsl við Framsóknarflokkinn og önnur félög í sjávarútvegi eiga um 37% hlut.

Myllusetur [Viðskiptablaðið]

Viðskiptablaðið er í eigu Mylluseturs ehf. sem er í meirihlutaeigu Péturs Árna Jónssonar og einblínir á viðskiptatengda fréttaumfjöllun. Skrif miðilsins ríma því oft vel við stefnu viðskiptamiðaðra flokka.

Pétur Árni er starfsmaður fasteignafélags innan Gamma og tók þátt í prófkjöri fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 2006.

DV

DV, áður þekkt sem Dagblaðið Vísir, hefur undanfarin ár flakkað í eignarhaldi. Til ársins 2010 var blaðið og vefsvæðið dv.is rekið af Birtingi, sem var í eigu Baugs, félags Jóns Ásgeirs til ársins 2008 þar til Hreinn Loftsson, stjórnarmaður í Baugi keypti félagið. Árið 2010 var félagið keypt af Reyni Traustasyni og Lilju Skaftadóttur o.fl. þar til Björn Ingi Hrafnsson, kenndur við Framsóknarflokkinn og síðar Miðflokkinn, yfirtók miðilinn. Hann keypti fyrst ráðandi hlut í félaginu 2014. Þá stofnuðu Reynir, sonur hans Jón Trausti og aðrir blaðamenn DV miðilinn Stundina.

Stormurinn var ekki liðinn, því Björn Ingi var síðar keyptur út úr félaginu af Frjálsri fjölmiðlun ehf. sem er skráð í 100% eigu lögmannsins Sigurðar G. Guðjónssonar. Hann er fyrrum forstjóri Norðurljósa, sem þá var rekstrarfélag Fréttablaðsins, Bylgjunnar og Stöð 2 áður en það var keypt af Baugi. Eftir að nýjir eigendur tóku við af Birni Inga hjá DV, stofnaði hann vefmiðilinn Viljann. Sigurður G. Guðjónsson hefur starfað áður fyrir Samfylkinguna og framboð Ólafs Ragnars Grímssonar.

Viljinn

Björn Ingi Hrafnsson stofnaði í lok seinasta árs Viljann, borgaralegan vefmiðil, sem skv. vefsíðu Fjölmiðlanefndar er í eigu föður hans. Hann hefur verið stuðningsmaður Sigmundar Davíðs, fyrst er hann var í Framsóknarflokknum og síðar Miðflokknum. Björn Ingi hefur í ritstjórnarpistlum sínum verið duglegur að hnýta í forystur Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins. 

Hringbraut

Í febrúarmánuði 2015 stofnaði Guðmundur Örn Jóhannsson, fyrrum sjónvarpsstjóri ÍNN, sjónvarpsstöðina Hringbraut. Meðal fyrstu starfsmanna stöðvarinnar var Sigmundur Ernir Rúnarsson, fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar. Fyrst um sinn virtist miðillinn eiga margt sameiginlegt með fylkingu Viðreisnar, sem enn hafði ekki verið formlega stofnuð sem stjórnmálaflokkur. Í dag er breið flóra af fréttaefni í boði, en eignarhaldið er í höndum Sigurðar Arngrímssonar, einum helsta bakhjarli Viðreisnar, sem einnig hefur átt í málaferlum við Heiðar Guðjónsson.

Kjarninn

Kjarninn er fjölmiðill stofnaður af Þórði Snæ Júlíussyni og Magnúsi Halldórssyni og fjórum öðrum starfsmönnum miðilsins. Fleiri fjárfestar komu að fjölmiðlinum um ári eftir stofnun. Eftir að þáverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar, Vilhjálmur Þorsteinsson, kom að fjármögnun félagsins hafa sumir reynt að benda á tengsl einstakra eigenda miðilsins og Samfylkingarinnar (sjá t.d. hér). Þessu hefur ritstjóri Kjarnans svarað. Vilhjálmur Þorsteinsson á um 17,21% en situr ekki lengur í stjórn miðilsins. Frá því að fjárfestar komu að eignarhaldi Kjarnans hefur Guðrún Inga Ingólfsdóttir setið í stjórn miðilsins sem óháður stjórnarmaður en hún á ekki hlut í miðlinum. Hún er fyrrverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Þórður Snær gaf meðal annars út bókina Kaupthinking nýlega sem fjallar um starfsemi Kaupþing banka fyrir hrun. Þórður Snær og kollegi hans Magnús hafa einnig verið virkir í því að gagnrýna aðra forsvarsmenn fjölmiðla eins og Davíð Oddsson og Jón Ásgeir á opinberum vettvangi.

Stundin

Stundin var stofnuð 2015 af fráfarandi blaðamönnum DV sem yfirgáfu miðilinn er Björn Ingi Hrafnsson tók miðilinn yfir. Stundin er einn af fáum vefmiðlum sem fara fram á að lesendur greiði áskrift fyrir lestur á miðlinum en fjölmiðillin er m.a. í eigu blaðamanna sem þar starfa og ýmissi annara aðila. Stundin hefur verið dugleg að gagnrýna alla flokka í gegnum tíðina og erfitt er að tengja miðilinn við ákveðinn flokk. Helst hafa þó verið gagnrýndir Sjálfstæðis-, Framsóknar- og Miðflokkur.

Rétt er að taka fram að félag Reynis Traustasonar á 1,6% en ekki 12% í útgáfufélagi Stundarinnar.

RÚV

Seinast en ekki síst er það Ríkisútvarpið. RÚV er eini fjölmiðillinn í ríkiseigu og oft bitbein stjórnmálamanna sem vilja að Ríkisútvarpið verði lagt niður. Helstu talsmenn þess eru gjarnan hægra megin á stjórnmálaásnum, eða tengjast rekstri fjölmiðla. Ríkisútvarpið sankar að sér miklum auglýsingatekjum, sem mögulega myndu annars renna til annarra fjölmiðlafyrirtækja.

Ríkisútvarpið hefur gjarnan verið ásakað að viðhalda ekki hlutleysi sínu. Slíkar ásakanir koma jafnt frá vinstri- og hægri-vængnum.

Arnór Bragi Elvarsson

Pistlahöfundur

Arnór Bragi er samgönguverkfræðingur með áhuga á sjálfakandi bifreiðum og innviðum.

Arnór hefur óþarflega mikinn áhuga á kaffigerð.