Fréttir í framtíðinni: fyrri hluti

eftir Arnór Bragi Elvarsson

Hér birtist fyrri hluti af tveimur um umhverfi fjölmiðla

Kröfur sem lesendur gera til fjölmiðla eru skiljanlega miklar. Fréttir sem við lesum þurfa að vera hlutlausar en vel rökstuddar, einfaldar en ítarlegar, áhugaverðar en ekki bara smellibeitu-falsfréttir. Fréttaveitur eiga jafnframt að veita almenningi upplýsingar um allt það sem þeim við kemur. Almenningur leggur því mikla ábyrgð á herðar fjölmiðla en stilla þeim svo upp milli steins og sleggju: fréttirnar eiga nefnilega að vera ókeypis.

Nýlega var birt ársskýrsla Reuters stofnunar Oxford-háskóla sem mbl.is gerði góð skil á. Skýrslan er víðfeðm og má finna þar aragrúa áhugaverðra gagna. Helst er þó vert að benda á nokkrar ályktanir um áskoranir fjölmiðlageirans á næstu árum frá þremur mismunandi sjónarmiðum:

Fréttafólk – Traust til fjölmiðla fer minnkandi

Aðeins 42% fólks á heimsvísu treystir því að fréttir séu rétt fluttar. Þetta hlutfall er á niðurleið. Leiðtogar á heimsvísu tala gjarnan fyrir því að ákveðnir miðlar flytji falsfréttir og grafa undan fjölmiðlum í heild sinni. Ein helsta áskorun fréttamanna er að sannfæra lesendur sína að efnið sé trausts þeirra virði, á sama tíma og krafa er gerð um auðlesanleika efnisins. 

Lesendur – Fólk vill ekki borga fyrir fréttir

Minnihluti fólks er með áskrift af fjölmiðli; mest 34% í Noregi, en minnst 7% í Japan. Enn fremur er staðan sú að það fólk sem er með áskrift, er vanalega einungis í viðskiptum við einn fjölmiðil. Þetta leiðir til þess að áskriftir rata frekar til stóru fjölmiðlafyrirtækjanna sem eru með stærsta úrval af efni. Aukinheldur leitar fólk í fréttir í gegnum netmiðla og snjallsíma frekar en prentmiðla. Þetta lýsir kröfu lesenda um að efnið skuli vera auðlesanlegt, fljótmeltanlegt og ekki ílengjast í smáatriðum. Afbrigði slíkra frétta kallast á ensku “Junk food news”. Þessar fréttir eru auðvinnanlegar í skrifum og kosta lítið í framleiðslu. Á sama tíma og þessar fréttir eru fluttar á kostnað rannsóknarblaðamennsku og ítarlegri fréttaskýringar, er þversögn lesenda eftirfarandi: lesendur vilja auðmeltanlegt efni, en ekki á kostnað gæða upplýsingaflæðis.

Eigendur – Arðbærni ekki í takti við gæði fréttaflutnings

Tekjustreymi fjölmiðla er helst byggt á auglýsingatekjum. Eigendur vilja hámarka fjölda flettinga og geta lent í því að ýta undir slíkt á kostnað þess að vinna hágæðaefni, enda slíkt kostnaðarsamt. Margir eigendur og ritstjórar sjá því mögulega hag sinn í því að ýta undir pólariserandi efni sem fjölgar flettingum og þ.a.l. auglýsingatekjum. Þess vegna virðist hættan einungis aukast, að hagsmunaaðilar – eins og stjórnmálaflokkar og fjársterkir sérhagsmunahópar – taki yfir rekstur fjölmiðla og/eða láti hagsmuni sína ráða för.

Hver ber ábyrgð?

Þetta vekur upp spurningar. Ef halda á uppi hágæðafréttaflutningi fyrir lesendur sem vilja þó ekki borga fyrir efnið – og á sama tíma treysta lesendur fjölmiðlum síður vegna gæða – er skiljanlegt að eigendur séu knúnir til að endurskoða hvort breyta þurfi um stefnu. Stóru miðlarnir komast líklega vel undan þessu álagi með auglýsingatekjum. Ekki er víst að slíkt gildi fyrir minni miðla, hvað þá prentmiðlana.

Þegar kemur að fjármögnun fjölmiðla er þó spurningin sem situr eftir ósvöruð: Hversu mikla ábyrgð bera fjölmiðlar á því að segja rétt og satt frá, og hversu mikla ábyrgð bera lesendur sjálfir?

Annar hluti mun fjalla um fjármögnun fjölmiðla á Íslandi. Hann má finna með því að smella hér.

Arnór Bragi Elvarsson

Pistlahöfundur

Arnór Bragi er samgönguverkfræðingur með áhuga á sjálfakandi bifreiðum og innviðum.

Arnór hefur óþarflega mikinn áhuga á kaffigerð.