Frelsi, jafnrétti, bræðralag og búrkubann

eftir Pétur Marteinn Urbancic Tómasson

Frönsku lögin frá 2010

Haustið 2010 voru lög samþykkt í Frakklandi sem bönnuðu fólki að hylja andlit sitt á almannafæri. Þannig var bannað að nota lambhúshettur, grímur, búrkur sem hylja andlit og niqab andlitsslæður á almannafæri. Opinberlega var markmið laganna að auðvelda fólki að bera kennsl hvert á annað, þar sem hulin andlit væru bæði öryggishætta og vegna þess hve mikilvæg svipbrigði væru í samskiptum fólks. Eins og allir góðir og gegnir borgarar vita þarf maður sífellt að vera á varðbergi gagnvart ógnandi svipbrigðum á almannafæri. Annað gæti endað hörmulega.

Undirliggjandi markmið laganna virðist samt einfaldlega hafa verið að banna andlitsslæður múslima. Aðdragandi laganna var að Nicolas Sarkozy, þáverandi forseti Frakklands, sagði að andlitsslæður sem hefðu trúarlegt gildi væru ekki velkomnar í Frakklandi. Hann hélt því fram að lögin væru til þess gerð að vernda konur, enda veit enginn betur hvað er múslimskum konum fyrir bestu en Nicolas Sarkozy. Nefndin sem undirbjó lögin leit einnig svo á að notkun andlitsslæða bryti gegn gildum Frakklands – Liberté, egalité, fraternité (í. frelsi, jafnrétti, bræðralag).

Mannréttindanefnd Frakklands (f. Commission nationale consultative des droits de l‘homme) mælti gegn alsherjarbanni, þar sem það gæti jaðarsett múslima og gert líf þeirra kvenna sem notuðu slæðu erfiðara. Æðsti stjórnsýsludómstóll Frakklands (Conseil d‘État), sem sinnir einnig ráðgjafarhlutverki, mælti einnig gegn banni sem einblíndi sérstaklega á trúarlegar slæður. Væri banni komið á ætti það að takmarkast við aðstæður þar sem nauðsynlegt væri að bera kennsl á fólk af öryggisástæðum. Engu að síður varð almennt bann að lögum. Þess má geta að svipuð lög voru samþykkt í neðri deild þingsins í Belgíu árið 2010 en ríkisstjórnin féll áður en efri deild þingsins gat samþykkt lögin. Jafnframt voru á Ítalíu líkar reglur samþykktar á ákveðnum svæðum, en stjórnarskrárdómstóll landsins taldi það ekki samrýmast ítölsku stjórnarskránni.

Frönsku lögin eru í reynd tvíþætt. Annars vegar er bannað að hylja andlit sitt á almannafæri og varðar það sektum. Hins vegar er bannað að neyða einhvern til að hylja andlit sitt. Það varðar háum sektum og mögulega fangelsi í allt að eitt ár. Ef markmiðið var raunverulega að vernda kúgaðar konur (hvort sem það er gott markmið eða ekki) væri að mínum dómi engin þörf á fyrri hlutanum. Ef markmiðið var að auðvelda samskipti fólks þá bjarga þessi lög vonandi einhverjum sem hafa lent í þeirri hörmung að ræða við manneskju með lambhúshettu.

Dómur Mannréttindadómstólsins

Nokkuð fyrirsjáanlega voru ekki allir á eitt sáttir með þessi lög. Franskir dómstólar töldu lögin ekki brjóta gegn stjórnarskrá landsins og þá varð að snúa sér að Mannréttindadómstóli Evrópu (MDE).

Í máli S.A.S. gegn Frakklandi var deilt um búrkubannið. S.A.S. var múslimi og gekk stundum í búrku með niqab, þó ekki alltaf. Þegar hún hitti vini sína var hún sjaldnast í búrku, hvort sem það var á almannafæri eða ekki. Henni þótti heldur ekkert vandamál að taka niqabið niður þegar öryggisráðstafanir kröfðust þess, svo sem í bönkum og flugvöllum. Hún vildi þó hafa möguleikann á að geta gengið í búrku og með niqab þegar hún vildi, t.d. á meðan Ramadan stóð, til að tjá trúarsannfæringu sína. S.A.S. virðist að mínum dómi ekki vera svakalega kúguð. Eiginlega ekki neitt kúguð.

Fyrir MDE hélt S.A.S. því fram að franska ríkið hefði sýnt henni ómannlegri eða vanvirðandi meðferð, brotið gegn friðhelgi einkalífs, trúfrelsi, tjáningarfrelsi, fundafrelsi og banni við mismunun (3., 8., 9., 10., og 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu). MDE tók til skoðunar hvort brotið hefði verið gegn friðhelgi einkalífs, trúfrelsi og tjáningarfrelsi en vísaði öðrum rökum frá.

Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að bannið væri ekki réttlætanlegt vegna öryggissjónarmiða. Hægt væri að ganga styttra til að tryggja öryggi en fullkomið bann á almannafæri, t.d. með því að sýna andlit þegar þörf væri á. Dómstóllinn féllst heldur ekki á þau rök franska ríkisins að lögin væru réttlætanleg til að tryggja jafnrétti kynjanna. Ríki gætu ekki haldið því fram að það væri verið að vernda konur gegn háttsemi sem þær sjálfar stunduðu og vörðu (sjá andstæða niðurstöðu, sem mikið var gagnrýnd, hér). Dómstóllinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að bannið stæðist til að vernda réttindi og frelsi annarra. Það var því (nokkuð óvænt) fallist á „living together“ rök franska ríkisins, að það væri nauðsynlegt að sjá andlit allra sem maður ætti í samskiptum við. Réttindi þeirra sem tala við S.A.S. vega þannig meira en réttindi hennar til að ákveða hvernig hún er klædd. Þá taldi dómstóllinn bannið ekki brjóta gegn meðalhófi með því að ganga of langt.

Í augum Mannréttindadómstóls Evrópu getur algjört búrkubann því verið löglegt. Þessar röksemdir eiga þó ekki við um búrkíníbannið sem nú er deilt um í frönskum strandbæjum, þar sem búrkíní hylur yfirleitt ekki andlit. Það mál er á leið fyrir franska dómstóla og Frakkar þurfa því að finna nýjar röksemdir til að halda í búrkíníbannið.

Mætti þetta á Íslandi?

Á Íslandi heyrast reglulega raddir þess efnis að banna eigi búrkur og að þær (eða jafnvel íslam eins og trúin leggur sig) séu andstæðar stjórnarskrá. Íslenska þjóðfylkingin hefur verið sérstaklega hávær í þessum efnum. Hvaða greinar stjórnarskrárinnar búrkur og íslam eiga að brjóta get ég ekki einu sinni giskað á. En með vaxandi íslamófóbíu og útlendingaandúð er tilefni til að spyrja sig hvort búrkubann myndi standast fyrir íslenskum dómstólum.

Mannréttindasáttmáli Evrópu (MSE) á að tryggja lágmarksréttindi og aðildarríkjum er fullkomlega heimilt að veita borgurum sínum ríkari vernd en þar er að finna. Mannréttindakafli íslensku stjórnarskrárinnar var endurskoðaður árið 1995 og sniðinn að MSE. Íslenskir dómstólar hafa oftast túlkað mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar í samræmi við MSE og dóma MDE. Það er í raun ekkert sem ég kem auga á í íslenskum lögum sem veitir konum ríkari vernd til að vera í búrkum og niqab en veitt er í MSE. Það verður þó að líta til þess að „living together“ röksemdin, sem varð til þess að MDE féllst á að búrkubannið væri löglegt, var sérstaklega talið franskt fyrirbæri. Slík röksemd gæti því haft minna vægi hérlendis og dómstólar, bæði íslenskir og evrópskir gætu því komist að annarri niðurstöðu ef samskonar atvik ætti sér stað hér á landi.

Í öllu falli vonast ég til að það reyni ekki á það fyrir íslenskum dómstólum hvort banna megi konum að vera í búrku. Þó að Frakkar hafi kannski gleymt einkennisorðum sínum um stund vona ég að við á Íslandi reynum að virða þau – frelsi, jafnrétti, bræðralag.