Frelsaður maður frelsar Napolí

eftir Björn Már Ólafsson

Hvers virði er nafnlaus frægð í nútímasamfélagi? Að geta ekki baðað sig í sjálfskipuðu sviðsljósi samfélagsmiðla eða öðlast einfalda leið upp metorðastiga menningarheimsins. Vera ekki boðið í heitustu svallveislur listamanna heldur vera alltaf nafnleysingi sem skapar hamingju til handa öðrum. Meðtaka aðdáun annarra á sjálfum þér án þess að þeir geri sér grein fyrir því hver þú sért í raun. Í því er kannski fólgin hamingja í sjálfu sér.

Listamaðurinn Banksy er kannski frægasti fjöllistamaðurinn um þessar mundir sem fetað hefur þennan stíg en annað og ekki síður skemmtilegt dæmi er rithöfundurinn Elena Ferrante sem skrifað hefur magnaðar uppvaxtarsögur frá Napolí sem slegið hafa í gegn um allan heim. Ég hef áður fjallað um Ferrante og það hvernig dulúðin sem hún hefur skapað sér getur ýtt undir vinsældir bókanna. En Ferrante er ekki eini listamaðurinn frá Napolí sem nýtir sér hulinsskikkjuna til að koma boðskap sínum á framfæri. Listamaðurinn Liberato er rafltónlistarmaður frá sömu borg og hefur hann með karabískri miðjarðarhafs reggaeton raftónlist í bland við gríðarlega nútíma-realískum tónlistarmyndböndum aflað sér mikilla vinsælda um alla Ítalíu. Líkt og Elena Ferrante fer hann huldu höfði og enginn veit raunverulegt nafn hans. Og líkt og með Elenu Ferrante hafa fjölmiðlar og leynilögreglur samfélagsmiðlanna reynt að komast að því hver tónlistamaðurinn sé í raun og veru. Skoðaðar hafa verið skattskýrslur hjá grunsamlegum íbúum Napolí og smíðaðir hafa verið algóryþmar til að greina tónlistina og bera saman við aðra tónlistamenn til að komast til botns í málinu en enginn hefur haft erindi sem erfiði.  

Vill hinn raunverulegi Liberato vera svo vænn og standa upp?

Eða hvað? Nú í nóvember kom út bók eftir ítalska blaðamanninn Gianni Valentino þar sem blaðamaðurinn reynir að komast að því hver Liberato sé í raun og veru. Niðurstaðan bókarinnar er að Liberato sé í raun leikarinn og tónlistarmaðurinn Livio Cori sem fer með hlutverk í mafíuþáttunum Gomorrah. En Cori hefur vísað þessu harðlega á bug og virðist sem blaðamanninum Valentino hafi ekki tekist að afla öflugra sönnunargagna í rannsóknarleiðangri sínum. Titill bókarinnar segir gerir lítið til þess að sannfæra lesendur um að hann hafi svipt hulunni af tónlistarmanninum því hún ber heitið „Ég er ekki Liberato.” Hinn raunverulegi Liberato þarf því ekki að standa upp heldur verður áfram nafnlaus um ókomna tíð.

En hvers vegna hefur þessi tónlistamaður frá Napolí náð svona vinsældum, jafnvel á Norður-Ítalíu? Eins og lesendur vinkvennabóka Elenu Ferrante vita þá er í Napolí töluð mállýska sem kölluð er dialect sem er jafnvel óskiljanleg fyrir aðra íbúa Ítalíu. Liberato syngur einmitt á dialect eins og sést gjarnan á titlum laganna. Endalausar úrfellingar og styttingar og bókstafurinn J sem almennt er ekki að finna í ítölskum orðum. Tungubrjótar á borð við Tu t’e scurdat’ e me, Me staje appennenn’ amó, Je te voglio bene assaje. Þessi lög eru unglingar allt frá Tórínó til Mílanó farnir að söngla. Tónleikar sem Liberato hélt í Mílanó í vor, mörg hundruð kílómetrum frá heimkynnunum í Napolí, seldust upp á hálftíma. Þá vakti hann einnig mikla lukku á Sónar tónleikunum í Barcelona í sumar.

Í listsköpun Liberatos fléttast saman tónlistin, dulúðin í nafnleysi hans og tónlistarmyndböndin. Því lögin hans taka fyrir menningu sem annars fær sín ekki notið, sérstaklega á Suður-Ítalíu. Transmenning, hinseginmenning, afrómenning, allt fær þetta pláss í list hans en þó án þess að skilaboðin séu sérstaklega skýr.

Realisminn í Napolí

Frumraun Liberatos var lagið Nove Maggio (í. níundi maí) sem kom út þann, haldið ykkur fast, 9. maí 2017. Í myndbandinu sjáum við litla stelpu rölta um hið goðsagnakennda Scampia hverfi sem þekkt er fyrir heljartök mafíunnar og félagsleg vandamál. Er þessu gerð góð skil í vinsælu sjónvarpsþáttaröðinni Gomorrah. En hverfinu og lífi stelpunnar er í tónlistarmyndbandinu sýnd virðing og stolt. Hversdagsleiki og daglegt líf. Söguþráðurinn er afar takmarkaður enda þarf ekki alltaf að segja sögu heldur bregður Liberato upp sögusviði til þess að áhorfandinn geti sjálfur spunnið söguna.

Í laginu Gaiola Portafortuna færir Liberato sig yfir í afrómenninguna sem er stór í Napolí. Suður-Ítalía hefur alltaf verið staður sem tekið hefur við innflytjendum frá Afríku og í dag er Sikiley og Suður-Ítalía fyrsti viðkomustaður flóttamanna sem koma á bátum yfir Miðjarðarhafið. Myndbandið er litríkt með afró-inspireruðum dönsum og sögusviðið er meðal annars nafnið á laginu, fallega strandsvæðið Gaiola Portafortuna.

Í laginu Me Staje Appennenn’ Amó kveður svo við talsvert pólitískari tón en áður. Lagið hefst á frásögn hinsegin aktívista sem segir frá lífsreynslu sinni áður en myndbandið hefst með gönguferð tveggja ungra pilta saman um gróðursælt fjallendið undir Vesúvíusi. Ef þar má greina hómóerótískan undirtón er síðan allur vafi tekinn af í lok myndbandsins þar sem við fáum innsýn í trans-samfélagið í Napolí eftir stutta viðkomu í fótboltabullumenninguna sem er líka sterkt minni í listsköpun Liberatos. Hann er harður stuðningsmaður knattspyrnufélagsins Napolí en á sama tíma er honum umhugað um réttindi samkynhneigðra. Slíkt er ekki sjálfsögð blanda á Ítalíu og kannski er það nafnleysið sem gerir Liberato svona auðvelt fyrir að koma svona sterkum en ólíkum skilaboðum á framfæri í sama listarverkinu.

Síðustu þrjú lög Liberatos mynda síðan eina heild þegar horft er á myndböndin. Ástarsaga frá þremur sjónarhornum. Fyrst sjáum við kynni ungs pars sem kynnist á fögru Napolíkvöldi við Trentaremi ströndina. Okkur verður ljóst að þau koma frá afar mismunandi bakgrunni. Svo mismunandi að það er nærri lagi að tala um mismunandi heima. Í næsta lagi fjallar svo myndbandið um kynni þeirra frá sjónarhorni piltsins. Þar sést að kynni þeirra voru erfið og talsvert dramatískari heldur en fyrsta myndbandið gaf til kynna og talsvert meiri innri togstreita. Lokalagið fjallar svo um kynni þeirra frá sjónarhorni stúlkunnar og er þannig þríleikurinn fullkomnaður. Myndbandið sýnir okkur Napolí í sinni fegurstu mynd. Hverfi ríka fólksins, Piazza Mercato, hafnarsvæðið og hlíðarnar fyrir ofan borgina.

Að bæta orðspor borgarinnar eftir skrif Tómasar Sæmundssonar og Charles Dickens

Það er ekki sjálfsagður hlutur að geta miðlað fegurð og ríkri menningu Napolí á trúverðugan hátt. Borgin er áhugaverð samsuða af þeim menningarheimum sem hafa skolast yfir borgina í mörg hundruð ár. Spænskra áhrifa gætir í byggingarlist líkt og í tungumálinu dialect enda var Napolí hluti af spænska konungsríkinu frá snemma 16. aldar fram á 18. öld áður en það varð höfuðborg konungsríki hinna tveggja Sikileyja og síðar hluti af sameinuðu ríki Ítalíu. Á 19. öld sætti borgin mikilli vanrækslu og var þá löngu farin að þróast vísir af því sem kallast í dag mafía. Sjálfstæðar einingar sem tengdust fjölskyldu- og pólitískum böndum og gátu nýtt sér óstjórn hinna raunverulegu valdhafa til að styrkja eigin stöðu í samfélaginu.

Í margar aldir hefur því verið talað illa um Napolí. Náttúruleg fegurðin er vissulega til staðar en félagslega ástandið og stjórnleysið í borginni skyggir oftast á hana. Árið 1833 ferðaðist Íslendingur til borgarinnar, Fjölnismaðurinn Tómas Sæmundsson. Lýsing hans á borginni hljómar í raun eins og ferðasaga frá okkar tímum. Hann skrifar í ferðasögu sinni um að:

„borgin eigi ekki sinn maka í heimi,” hvað varðar náttúrufegurð en hvað varðar mannlífið nefnir hann að í henni „teljast í henni eitthvað 358.000 innbúar, þar á meðal alténd 60.000 lazarónar.” Átti hann þar við atvinnu- og heimilisleysingja. Þá greinir hann frá því að íbúar Napolí séu ekki sérlega hátt skrifaðir í samanburði við hina dönnuðu og skemmtilegu íbúa norðlægari borga og þannig er enn talað um íbúa Napolí í dag, þeir þykja háværir og kærulausir í framkomu. Óstundvísir og dónalegir. 

Á Ítalíu er rasismi stórt vandamál og einn birtingarvettvangur hans er á stuðningspöllum knattspyrnuleikvanga. En færri vita að stór hluti rasismans snýst um hatur norðanmanna á sunnanmönnum og öfugt. Það sem kallað er svæðisbundinn rasismi (e. territorial rasism). Þannig eru stuðningsmenn liða frá Norður-Ítalíu reglulega sektaðir fyrir hatursfulla söngva gegn stuðningsmönnun Napolí. Oftast snúast söngvarnir um að vonandi fari Vesúvíus að gjósa til að „þvo rækilega skítinn af íbúum Napolí.”

Annar vel ritfær maður heimsótti líka Napolí á fyrri hluta 19. aldar. og  lýsing hans á borginni rímar vel við aðrar lýsingar þess tíma. Félagsleg vandamál, ofbeldi og óstjórn ná vart að fela náttúrulegu fegurðina. En höfundinum Charles Dickens til varnar þá var hann reyndar konungur realismans og því kannski ekki að undra að lýsingar hans á Napolí í bókinni „Pictures from Italy” fjalli frekar um breyskleika mannsins og félagslega aðstæður alþýðufólks heldur en náttúruna og fallega byggingarlist.

Liberato hefur því tekist meistaraverkið að halda uppi vörnum fyrir Napolí án þess að mála öll vandamál borgarinnar í háglansi. Í borginni vaxa börn úr grasi eins og annars staðar, ástin kviknar á sinn dularfulla hátt og fólkið býr yfir sama stolti og fólk sem fæðist annars staðar.

Björn Már Ólafsson

Ritstjórn

Björn Már er lögfræðingur sem býr og starfar í Danmörku. Hann hefur áður starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu/mbl.is og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Meðal áhugamála hans eru úthaldsíþróttir og ítölsk knattspyrna.