Framtíðin krefst betri menntunar

eftir Ritstjórn

Á föstudaginn fór fram tækni- og hugverkaþing Samtaka iðnaðarins þar sem rætt var um mikilvægi þess að umhverfið á Íslandi sé með þeim hætti að nýta megi tækifærin sem felast í fjórðu iðnbyltingunni. Á Íslandi fer bróðurpartur verðmætasköpunar fram í greinum sem byggja á náttúruauðlindum en slíkar auðlindir eru eðli máls samkvæmt takmarkaðar og geta því ekki verið drifkraftur hagvaxtar um alla ókomna tíð.

Hugviti er þó ekki settar neinar náttúrulegar skorður og stærsta áskorun okkar Íslendinga næstu áratugina verður að efla hugverkagreinar eða alþjóðageirann eins og hann hefur einnig verið nefndur. Þar liggja stærstu sóknarfærin.

Til þess að auðvelda okkur að ná árangri við að byggja upp sterkan alþjóðlegan geira til framtíðar er afar mikilvægt að skapa umhverfi sem fóstrar nýsköpun og gerir fjármagni kleift að fylgja eftir hugmyndum.

Það sem fundargestir á hugverkaþingi Samtaka iðnaðarins töldu þó brýnasta verkefnið var að tryggja samkeppnishæfni menntakerfisins. Undir það er tekið hér enda eru þeir hæfileikar sem nýtast best við verðmætasköpun í dag ekki hinir sömu og nýttust best fyrir 20 árum. Sú þróun mun aðeins koma til með að halda áfram.

Víðast hvar í heiminum er hávær krafa um að menntakerfi aðlagist og umbreyti sér til að mæta nýjum þörfum en þrátt fyrir það þykja menntakerfin almennt heldur svifasein til breytinga. Ekki verður betur séð en að íslenska menntakerfinu muni reynast afar erfitt að mæta kröfum framtíðarinnar því vísbendingar eru uppi um að kerfið okkar komi illa út úr alþjóðlegum samanburði. Í fyrsta lagi má líta til þess að í vísindum, lestri og stærðfræði er grunnskólakerfið fyrir neðan meðaltal í PISA könnun meðal OECD ríkjanna og leiðin er niður á við. Í öðru lagi glímir íslenska framhaldsskólakerfið við mikið brottfall. Í þriðja lagi ljúka íslendingar tiltölulega seint við háskólanám samanborið við aðrar þjóðir og hlutfallslega fáir ljúka gráðum í tækni- og raungreinum.

Menntakerfið fær ekki næga athygli

Á hugverkaþingi var ekki annað séð en að allir stjórnmálaflokkar væru sammála um mikilvægi þess að byggja upp sterkan hugverkaiðnað og að þar lægju sóknarfæri Íslendinga inn í framtíðina. Þó er óhjákvæmilegt að velta fyrir sér hvort hugur fylgi raunverulega máli því ekki er að sjá mikinn vilja til þess að ráðast í umbætur á samkeppnishæfni menntakerfisins, alltént ekki á síðustu árum.

Vissulega hafa átt sér stað ákveðnar tilraunir en til þess að ná árangri er þörf á víðtækari og þverpólitískari samstöðu um að láta verkin tala. Að þora að taka af skarið, sem þýðir stundum að fara í sársaukafullar breytingar með langtímahagsmuni að leiðarljósi.

Í samhengi menntakerfisins gæti það þýtt að nauðsynlegt sé að fjölga sjálfstætt starfandi skólum á grunnskólastiginu. Sjálfstætt starfandi skólar sem hafa ekki skrifræðið hangandi yfir sér gætu náð meiri árangri í að innleiða breytingar. Það gæti líka þýtt þrýsting á opinbera háskóla um að eiga ríkara samstarf með atvinnulífinu, samtal og tilraunir til þess að þjálfa betur þá hæfileika sem munu nýtast í framtíðinni. Jafnframt gæti þurft að endurskoða hvort sveitarfélögin hafi yfir höfuð burði til þess að standa á hagkvæman hátt að fyrsta flokks menntun í grunnskólum landsins eða hvort ríkið þurfi að stíga inn í auknum mæli. Það er ekki til ein töfralausn við þeim vandamálum sem steðja að íslensku menntakerfi en mikilvægast er að málaflokkurinn fái næga athygli og að skýr vilji sé til breytinga.

Heilbrigðismálin hafa átt hug og hjörtu þjóðarinnar um nokkurra ára skeið og stjórnmálamenn hafa heldur betur fundið fyrir þrýsting á að bæta kerfið. Kosningarnar fyrir ári síðan snerust nær eingöngu um heilbrigðiskerfið, fjárútlát til þess og kerfisbreytingar. Heilbrigðismálin eiga skilið athygli en ekki má gleyma að menntakerfið er stærsta fjárfesting okkar sem þjóðar. Því það er á grunni góðrar menntunar og verðmætasköpunar sem við getum boðið upp á fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu. Það er lykilatriði að við sem þjóð setjum menntakerfið ofar í forgangsröðunina og veitum því athygli í samræmi við mikilvægi þess.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.