Framhaldsskólakosningar að norskri fyrirmynd

eftir Björn Már Ólafsson

„Að kjósa í kosningum er góð skemmtun. Allir sem eru yfir 18 ára aldri ættu að kjósa. Foreldrar og forráðamenn barna og unglinga eru vinsamlegast beðnir um að sjá til þess að unglingar kjósi. Góða skemmtun.”

Kjörsókn ungs fólks fer sífellt minnkandi. Svo alvarleg er staðan orðin að stjórnvöld hafa leitast við að sporna við þróuninni með aðgerðum. Innanríkisráðuneytið lét félagsvísindastofnun Háskóla Íslands framkvæma könnun árið 2014 um kosningaþátttöku almennt þar sem komu fram ástæður þess að stór hópur sat heima í alþingiskosningunum árið 2013.

„How do you do fellow kids, like my new video?”

Fyrir þessar sömu kosningar lét Samband íslenskra sveitarfélaga útbúa tvö myndbönd sem vekja áttu athygli á kosningunum á meðal ungs fólks. Myndböndin voru vissulega hressari en myndbrotið ódauðlega sem vitnað er til í upphafsorðum greinarinnar. Búið var að skipta út Gylfa Pálssyni og kvikmyndaeftirliti ríkisins fyrir hæfileikaríka leikara og myndbandið birtist á nútímalegri miðli en VHS, en allt kom fyrir ekki og kosningaþátttakan hjá ungu fólki var dræm. Könnun Innanríkisráðuneytisins sýndi að aðeins 11% aðspurðra á aldrinum 18-29 ára höfðu séð myndbandið. Skemmtileg myndbönd geta auðvitað vakið áhuga og skilning en vandinn er djúpstæðari en svo.

Þegar rýnt er í niðurstöður könnunar félagsvísindastofnunar kemur ýmislegt athyglisvert í ljós, sér í lagi fyrir áhugafólk um demógrafíu. Unga fólkið sem heima sat telur sig nefnilega hafa mikinn eða nokkurn áhuga á stjórnmálum auk þess sem ungt fólk var í minni mæli en hinir eldri að „lýsa yfir óánægju sinni með kosningarnar eða flokkana” með heimasetu sinni.

Annað sem vakti athygli mína í könnuninni var að unga fólkið sem var spurt segist almennt ekki tjá sig um stjórnmál, hvorki í persónu né á samskiptamiðlum, þótt áhugi sé til staðar. Aðeins 1% þeirra á aldrinum 18-29 ára sem ekki kusu í síðustu kosningum höfðu tjáð sig um stjórnmál á samskiptamiðlum á undanförnum fimm árum. Eitt af því sem lesa má úr könnuninni er að unga fólkið sem kaus ekki taldi sig ekki hafa mikil tengsl við fulltrúa stjórnmálaflokkanna, jafnvel þótt þeir töldu flokkana hugmyndafræðilega höfða til sín að einhverju leyti.

Það er flestum ljóst að meira þarf til en myndbandaherferð til þess að hvetja ungt fólk til þátttöku. Ein hugmynd sem mér vitandi hefur stundum verið rædd á meðal ungra áhugamanna um stjórnmál er að halda svokallaðar skólakosningar að norskri fyrirmynd.

Um er að ræða einhvers konar skoðanakönnun sem haldin er í framhaldsskólum í Noregi um viku fyrir almennar kosningar. Niðurstöðum er síðan safnað saman og þær birtar samdægurs. Þykja þær oft geta veitt vísbendingu um sveiflur í landslagi stjórnmálanna skömmu fyrir kosningar. Slíkar skólakosningar hafa verið haldnar frá árinu 1989 og er þátttakan í þeim ágæt. Í kringum slíkar kosningar hafa ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna fengið rými til að skipuleggja kappræður í framhaldsskólum þar sem ungir fulltrúar sitja fyrir svörum í pallborði áður en nemendur fá svo að nálgast ungliðana í básum sem komið hefur verið fyrir í skólunum.

Hvað þarf að gera til þess að koma á skólakosningum?

Skipulag kosninganna í Noregi hefur á undanförnum árum verið í höndum Utdanningsdirektoratet, sem er stofnun sem svipar til hinnar nýstofnuðu íslensku Menntamálastofnunar. Þar áður var skipulagið í höndum norska menntamálaráðuneytisins (sem nú heitir þekkingarmálaráðuneytið). Nú sér Utdanningsdirektoratet um að panta tölvukerfi sem er sérútbúið fyrir kosningarnar. Framhaldsskólarnir þurfa svo að skrá sig sem þátttakendur í kosningunum með nokkurra mánaða fyrirvara.

Sé þessi leið farin á Íslandi væri sennilega væri heppilegast ef sett væri á laggirnar stýrihópur með fulltrúum úr hópi skólastjórnenda og nemenda sem saman myndi vinna að þróun hugmyndarinnar. Þessi hugmynd gæti orðið að veruleika strax á næsta ári þegar gengið verður til Alþingiskosninga en þá þarf að hafa hraðar hendur og undirbúningur að hefjast fljótlega.

Mun þetta skila sér í betri kjörsókn?

Það er ómögulegt að spá fyrir um en eins og könnun Innanríkisráðuneytisins sýnir eru ástæðurnar fyrir lélegri kjörsókn hjá ungu fólki margþættar. Þó er ljóst að skólakosningar munu skapa nánari tengsl á milli stjórnmálaflokkanna og ungs fólks. Nemendur fá þá sérstakan vettvang þar sem fulltrúar stjórnmálaflokkanna neyðast til að svara gagnrýnum spurningum sem varða beinlínis ungt fólk.

Þá má heldur ekki vanmeta óbeinu áhrifin. Margt ungt fólk (og gamalt) kvartar sáran undan því að stjórnmálaflokkar höfða ekki til ungs fólks, og halda sumir því jafnvel fram að einhverjir þeirra vilji í raun og veru halda kjörsókninni í lágmarki. En ef skólakosningar yrðu að veruleika og stjórnmálaáhugi ungs fólks eykst þá neyðast flokkarnir til þess að höfða til unga fólksins. Það leiðir svo aftur til meiri áhuga ungs fólks og þannig koll af kolli.

Takmarkaðar stjórnmálaumræður í framhaldsskólum

Stjórnendur framhaldsskóla á Íslandi voru í kjölfar hrunsins margir hverjir hræddir við að hleypa fulltrúum stjórnmálaflokkanna inn í skólanna, þótt ekki væri nema í stutta stund í matarhléum. Það sá ég persónulega þar sem skólagangan mín spannaði síðustu ár góðærisins og svo hrunsins í kjölfarið og munurinn fyrir og eftir örlagaríku mánuðina í október 2008 var gríðarlegur. Framhaldsskólar gegna hins vegar mikilvægu hlutverki í lýðræðismenntun ungs fólks. Hugtakið lýðræðisvitund gegnumsýrir nýju námsskrá grunnskólanna. Svo mikil er áherslan á „lýðræði” að bara orðið sjálft kemur fyrir alls 99 sinnum í rúmlega 230 blaðsíðna námsskrá. Alls staðar er ungt fólk hvatt til þess að taka þátt í lýðræðislegri umræðu og mynda sér skoðun. Það skýtur því skökku við ef stjórnendur framhaldsskóla leggjast gegn slíkri tillögu, sé hún útfærð með vönduðum hætti.

Í framhaldsskólum eru nemendur aðallega á aldrinum 16-20 ára. 16 og 17 ára nemendur eru vissulega ekki með kosningarétt en það getur breyst fljótlega. Í fyrra lögðu þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar fram frumvarp um lækkun á kosningaaldri niður í 16 ár. Frumvarpið varð ekki að lögum í það skiptið en í október í fyrra samþykkti landsfundur Sjálfstæðisflokksins samhljóða ályktun og er því útlit fyrir að kosningaaldur gæri verið lækkaður einhvern tímann á komandi árum. Er þá ekki tilvalið að leyfa ungu fólki að tjá skoðun sína í skólakosningum, alla vegana þar til kosningaaldur verður lækkaður?

 

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.

Björn Már Ólafsson

Ritstjórn

Björn Már er lögfræðingur sem býr og starfar í Danmörku. Hann hefur áður starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu/mbl.is og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Meðal áhugamála hans eru úthaldsíþróttir og ítölsk knattspyrna.