Frambærileg þreyta

eftir Guðmundur Snæbjörnsson

Ótrúlega eru allir flottir.

Hvert sem ég lít horfa frambærileg andlitin á mig. Þau vilja að ég kynnist þeim betur. Gríman er tekin niður svo ég sjái þá tæru manngæsku sem leynist undir.

Þeir sem eru bestir og klárastir eiga að láta í sér heyra. Þeir sem ætla að sigra veröldina eiga að blása í gjallarhornin. Stundum finnst mér ég heyra í slípirokk. Fólk fer framúr sér í að pússa tannhvítt brosið og herða handabandið. Fólk masar. Segist hafa engar skoðanir og því vera hæft í embætti. Aðrir segjast hafa fullt af skoðunum sem verði lagðar til hliðar í þágu almennings.

Ég er vitaskuld að tala um framboð. Fólk í framboði. Fólk sem er í framboði til formennsku þjóðar.

Hvert sem ég fer þá er tönglast á orðinu forseti. Fermingarveislurnar, kaffibollaspjallið og óvæntur hittingur í Bónus boða sömu umræðuna. Hvernig nýr dagur mun bera í skauti sér nýjan frambjóðanda. Líklega er hér heimsmet miðað við höfðatölu. Allir vilja vita meira um þetta framsækna fólk. Ég býst við æsispennandi sjónvarpsþáttaseríu frá RÚV. Helgi Seljan tekur að sér þáttastjórn. Eftir hvern þátt verður einn frambjóðandi lækkaður í tæpt 1% í skoðanakönnunum.

Það er nánast móðgun þegar ég rekst á vin og hann orðar mig ekki við forsetaembættið. Þegar ég heyri enga skrítlu um kjörið, þá amar eitthvað að. Þú ert ekki maður með mönnum, nema þú getir nefnt tugi dæma um fólk sem hefur tekið þig á tal. Hvernig þú finnir fyrir auknum þrýsting. Hvernig þú finnir þig jafnvel knúinn til að leggjast undir feld og íhuga stöðu þína. List sem fullkomnuð var af Ólafi Ragnari Grímssyni.

Það þarf minnst 1.500 meðmælendur til að geta boðið sig fram. Frambjóðandi þarf að safna stuðningsyfirlýsingum úr öllum landshlutum. Hann þarf minnst 1215 úr Sunnlendingafjórðungi, 62 úr Vestfirðingafjórðungi, 163 úr Norðurlendingafjórðungi og 60 úr Austfirðingafjórðungi. Hann hefur til föstudagsins 20. maí að skila þeim af sér. Þessi meðmælafjöldi á að vera sía gegn óþarfa framboðum. Spurning er hversu vel hún sinnir slíku starfi.

Frambjóðendur eru þessa dagana að safna stuðningsyfirlýsingum. Líklega hafa margir lesendur verið beðnir um að skrifa undir slíkt plagg. Annars komast frambjóðendur ekki á kjörseðilinn. Það er víst ekki það sama að vera forsetaframbjóðandi og vilja vera forsetaframbjóðandi. Ef við miðum við heildartölu kosningabærra manna þá geta 168 orðið eiginlegir frambjóðendur. Tala þeirra sem hafa tilkynnt framboð er þegar komin á annan tug.

Það er ekki skemmtilegt að tilkynna fyrir alþjóð um forsetaframboð en draga það svo til baka, koma fram í stóru opnuviðtali í Mogganum en segjast því miður ekki hafa fengið 60 Austfirðinga til að votta þér stuðning. Ekki að það sé mikið skárra að fá 0,98% greiddra atkvæða, sem er núverandi Íslandsmet í forsetakosningatapi.

Komandi kosningar gætu orðið sögulegar. Það eru ekki ströng inntökuskilyrði fyrir framboð. Fáir draga framboð sitt til baka. Það gæti jafnvel bæst í hópinn, því margir segjast vera að íhuga stöðu sína. Frambjóðendur þurfa bara að passa sig á að nógu margir votti því stuðning og að það sé ekki allt sama fólkið. Ég mæli með samráðsfundi. Einn frambjóðandi getur t.d tekið öll hús í Fossvoginum, annar fær Breiðholtið.

Næsti forseti gæti hljóti kjör með rúmum 20% atkvæða. Eftir að hafa sigrað kosningar þar sem er afrek að vita nöfn allra frambjóðenda. Herkúlesarþraut að geta lýst hverjum og einum í þremur orðum. Það er furðuleg leið til þess að kjósa manninn með málskotsrétt til þjóðarinnar. Formlegt andlit Íslands á alþjóðavettvangi.

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.