Föstudagurinn þrettándi – Tilhæfulaus hjátrú eða óhugnanleg tilviljun?

eftir Hrafn H. Dungal

Í dag er föstudagurinn þrettándi, til hamingju með daginn og farið með gát! Í ljósi aðstæðna og áskorana sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir þessa dagana er ekki úr vegi að velta fyrir sér þessum hjátrúarfulla degi í samhengi hlutanna.

Í aldanna rás hafa hjátrú og hindurvitni verið samofnar mannkyninu og fest rætur misjafnlega vel í manna minnum. Hjátrú tengd föstudeginum þrettánda er þó meðal þeirra útbreiddustu og elstu af sínu tagi í heiminum þrátt fyrir að vera almennt talin af vestrænum uppruna. Raunar er óttinn við daginn af fornum meiði kominn og þrátt fyrir að í daglegu tali sé hjátrúin í meira mæli í gamansömum tón, er þó nokkuð ljóst að hún telst til skilgreinds ótta sem ber heitið paraskevidekatriaphobia og er tengd óttanum við töluna þrettán, eða triskaidekaphobia. Talið er að um 5 milljónir manna í Bandaríkjunum einum þjáist af óttanum á alvarlegu stigi.

Söguleg þróun

Þó erfitt sé að fullyrða með vissu hvar og hvenær þessi goðsagnakennda hjátrú sækir uppruna sinn, hefur almennt verið talið að dagurinn hafi fest sig í sessi sem óhappadagur í menningu manna í lok nítjándu aldar. Í þeim efnum hefur uppruninn gjarnan verið talinn liggja í ákveðnu hugtakasamspili tölunnar þrettán annars vegar og föstudags hins vegar. Þessi tvö hugtök hafa nefnilega, sitt í hvoru lagi, verið talin boða ógæfu í mörgum menningarheimum og sögum. Í biblíunni þá var það Adam sem beit í hið forboðna epli á föstudegi, syndaflóðið hófst einnig á föstudegi auk þess sem Jesús var krossfestur á föstudeginum langa.

Þá hefur talan þrettán lengi vel verið tengd við ógæfu eða allt frá því á miðöldum. Á þeim tímum var það meðal annars rakið til þess að talan væri einum ofan en tólf, sem átti að vera hin fullkomna tala og því væri hin fyrrnefnda merki um að gengið væri of langt og almennt kynni það ekki góðri lukku að stýra. Í alls kyns menningarkimum mannkynssögunnar hefur talan tólf oftar en ekki táknað fullkomnun. Í ári Gregoríska tímatalsins eru tólf mánuðir, Ólympsguðirnir í grískri goðafræði voru tólf, í stjörnuspekinni eru merkin tólf ásamt því að lærisveinar Jesús voru tólf.

Á miðöldum lagði Kaþólska kirkjan mikla áherslu á að óhöpp í kringum töluna þrettán ættu rætur að rekja til frásagnarinnar um síðustu kvöldmáltíð Krists, það sem nefnt var Júdasarkenningin. Þar voru þrettán einstaklingar viðstaddir, af hverjum einn reyndist vera svikull. Fyrir hans áeggjan var Kristur krossfestur daginn eftir, á föstudegi. Þetta hefur almennt verið talin algengasta skýringin á samspili föstudags og tölunnar þrettán.

Þá má einnig nefna að Bandaríska skáldsagan „Friday, the Thirteenth“ eftir Thomas W. Lawson, sem gefin var út árið 1907, gæti hafa átt sinn þátt í að ala á ótta og efla vitund almennings um fyrirbærið. En bókin fjallaði um það hvernig bíræfinn verðbréfamiðlari nýtir sér hina fornu hjátrú til að skapa glundroða á mörkuðum á Wall Street, með það fyrir augum að hagnast sem mest. Bókin varð gífurlega vinsæl og með því náði hjátrúin fótfestu í vitund Vesturlandabúa.

Á hjátrúin við nú til dags?

Þrátt fyrir hina löngu sögu sem hjátrúin á sér, er þó ljóst að ekki er til að dreifa neinni tölfræði sem bendir til þess að óhöpp séu líklegri til að eiga sér stað á þessum degi, fremur en einhverjum öðrum. Hvernig stendur þá á því að enn þann dag í dag er fjöldi fólks í versta falli titrandi af skelfingu þegar dagurinn gengur í garð? Eða í besta falli nægilega meðvitaður til að vera ekki að leggja á sig óþarfa áhættu? Sumir verða svo óttaslegnir að þeir mæta ekki til vinnu, mæta ekki í flug og líklegast dettur engum í hug að gifta sig á þessum degi. Þá eru til dæmi um að í borgum sé þrettándu breiðgötu sleppt, einnig að á hótelum sé þrettánda hæðin ekki til staðar, þ.e. að á eftir hinni tólftu komi hin fjórtánda, sem vitaskuld er raunverulega hin þrettánda hæð.

Með sæmilegri skynsemi og gagnrýnni hugsun fæst þó séð að óttinn við föstudaginn þrettánda er algjörlega tilhæfulaus, enda ljóst að óhappatilvik á þessum degi eru í besta falli tilviljunarkennd. Trú á föstudaginn þrettánda er þannig ekki frábrugðin trú á stjörnuspeki, drauga eða fljúgandi furðuhluti. Ljóst er þó að margt í menningu okkar er til þess fallið að minna okkur á að vera var um okkur á þessum degi, enda erum við reglulega minnt á það í fréttum, kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, útvarpsþáttum o.s.frv.  

Í því samhengi er vert að minnast á þær áskoranir sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir um þessar mundir. Þegar þetta er ritað hafa um 133.000 manns greinst með veiruna Covid 19 á heimsvísu, og yfir 100 manns hér á landi. Nú er föstudagurinn þrettándi genginn í garð og það á kannski sérstaklega við á þeim tímum sem við lifum núna, en árið 2020 hefur þegar markað sér djúpar rætur í mannkynssögunni, þar sem við stöndum frammi fyrir nánast fordæmalausu ástandi hvert sem litið er. Snjóflóð og jarðskjálftar geisa á Íslandi, straumur flóttamanna hefur ekki verið meiri síðan við lok seinni heimsstyrjaldar, spennan magnast í Miðausturlöndum auk þess sem loftslagsváin hefur aldrei verið alvarlegri. Síðast en ekki síst er það áðurnefnd Coronaveiran Covid 19, sem flokkuð hefur verið sem heimsfaraldur, ásamt því að framlag valdamesta ríkis heims í þeim baráttum hefur síðustu ár falist í einangrunarhyggju fremur en samvinnuþýði.

Hvað sem líður ástandinu í heiminum í dag og tengslum þess við hjátrú, er þó ljóst að vísindalegar staðreyndir hafa sjaldnast komið í veg fyrir að mannskepnan taki ákvarðanir út frá tilfinningum fremur en rökhyggju og er ólíklegt að það muni breytast í bráð, enda er lífið ekki línuleg tölfræði heldur margbreytilegt og tilviljanakennt. Þrátt fyrir að ekki sé hægt að sýna fram á bein tengsl dagsins í dag við óhappatilvik, er ekki heldur hægt að ábyrgjast að engin óhappatilvik eigi sér stað. Hvort sem það verður á föstudeginum þrettánda eða laugardeginum fjórtánda er óhætt að mæla gegn óþarfa áhættutöku; forðist að labba undir stiga, ekki brjóta spegla, hellið engu salti og forðist svarta ketti. Gleðilegan föstudag!

Heimildir:

Link Springer, https://link.springer.com/article/10.1007/s00268-011-1166-8#page-1

Live about Folklore, https://www.liveabout.com/why-is-friday-the-13th-considered-unlucky-3298238

The Skeptic’s Dictionary, http://www.skepdic.com/

University of Buffalo, http://www.buffalo.edu/news/releases/2004/02/6576.html

Urban Legends, info center, https://www.infoplease.com/friday-13th

World O Meter, https://www.worldometers.info/coronavirus/

Hrafn H. Dungal

Pistlahöfundur

Hrafn er meistaranemi við lagadeild Háskóla Íslands ásamt því að taka hluta náms síns úti í Króatíu. Samhliða því starfar hann við þinglýsingar og leyfatengd málefni hjá Sýslumannsembættinu á Höfuðborgarsvæðinu. Þá hefur hann, í gegnum menntaskóla- og háskólagöngu sína, verið virkur í ungliðapólitíkinni, utan skóla sem og innan. Meðal áhugamála Hrafns eru stjórnmál, gítarspil og bjór í góðum félagsskap.