Fortíð frambjóðendanna

eftir Tryggvi Másson

Margir hljóta nú að velta því fyrir sér hvað skuli kjósa hinn 28. Október nk., þegar kosið verður til Alþingis. Valkostirnir eru fleiri en oft áður, en áður hefur verið fjallað um ástæður hins mikla framboðs á þessum miðli. Flokkarnir hafa keppst við að kynna framboðslista sína síðustu daga og vikur, en eðli máls samkvæmt er um mikinn fjölda fólks að ræða. Heildarfjöldi frambjóðenda flokka sem bjóða fram í kjördæmunum öllum sex er 1.134. Með hliðsjón af fjölda flokkanna, klofningsframboðum og nýjum flokkum er áhugavert að kanna hvort þessir frambjóðendur hafi boðið fram áður og hvort þeir hafi tilheyrt öðrum flokkum. Þegar pistill þessi var ritaður höfðu ekki allir flokkar kynnt lista sína.

Í því skyni að kanna þetta nánar, tók undirritaður saman yfirlit um frambjóðendur flokkanna aftur í tímann. Hugmyndin er í sjálfu sér fráleit og tók verkið um tíu klukkustundir úr lífi undirritaðs. Það reyndist enda hægara sagt en gert að afla upplýsinga um framboðslistana, en það tókst að lokum með herkjum og niðurstaðan er áhugaverð. Að nokkru leyti er hún fyrirsjáanleg, en umfram allt upplýsandi um uppruna og fyrri störf frambjóðendanna.

Í ljósi þess að engar opinberar upplýsingar eru til um lista stjórnmálaflokka aftur í tímann verður að setja fyrirvara við upptalninguna, en við yfirlitið var stuðst við vefsíðuna kosningasaga.wordpress.com. Einnig þarf að lesa úr niðurstöðunum með tilliti til þess að umræddir einstaklingar eru ekki auðkenndir á umræddri vefsíðu nema með nafni, en sem kunnugt er getur enginn átt nafn sitt útaf fyrir sig. Það skal einnig tekið fram að meðtalin eru framboð í sveitarstjórnarkosningum. Þegar þetta var skrifað voru aðeins hluti af þeim framboðum sem ætla sér að bjóða fram búin að skila frá sér fullbúnum listum og er pistillinn skrifaður út frá því.

Hver er flokksfortíð frambjóðendanna?

Af þeim þremur listum sem Alþýðufylkingin hefur nú skilað, í Reykjavíkurkjördæmi norður, suður, Norðausturkjördæmi og Suðvesturkjördæmi, hafa 27 frambjóðendur aðeins boðið sig fram fyrir Alþýðufylkinguna áður. 23 bjóða sig nú fram í fyrsta sinn. Athygli vekur að tíu frambjóðendur hafa áður boðið sig fram fyrir Vinstrihreyfinguna grænt framboð.


Flokkur fólksins hefur aðeins lagt fram lista í Norðausturkjördæmi, en tíu frambjóðendur hafa aldrei boðið sig fram áður. Sex hafa áður boðið sig fram fyrir Flokk fólksins.

Framsóknarflokkurinn hefur boðið fram lista í öllum kjördæmum og hafa 87 frambjóðendur áður boðið sig fram fyrir hönd flokksins, en 31 frambjóðandi er nýr.

Miðflokkurinn er kolfningsflokkur úr Framsóknarflokknum, það hefur mátt sjá á öllum skoðanakönnunum eftir að hinn fyrrnefndi kom fram á sjónarsviðið. Þannig hefur fylgi Framsóknarflokksins skýrlega færst frá honum og til Miðflokksins, líklega fyrir tilstilli fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, nú formanns Miðflokksins. Einnig virðist sem nokkurt fylgi hafi færst frá Flokki fólksins og Sjálfstæðisflokki til Miðflokksins.

Miðflokkurinn hefur kynnt lista í Norðaustur- og Suðurkjördæmi. Af þeim listum að dæma má skýrlega sjá hver uppistaða hans er, þ.e. fyrrverandi frambjóðendur Framsóknarflokksins.

Samfylkingin hefur kynnt lista sína í öllum kjördæmum, en 55 frambjóðendur hafa áður boðið sig fram fyrir flokkinn. 34 frambjóðendur Samfylkingarinnar hafa aldrei boðið sig fram, en nokkur fjöldi hefur boðið sig fram fyrir aðra flokka, langflesta á vinstri ás stjórnmálanna.

Sjálfstæðisflokkur hefur kynnt lista í öllum kjördæmum, en 115 frambjóðendur hans hafa áður boðið sig fram fyrir hönd flokksins. Átta nýir frambjóðendur eru á listum Sjálfstæðisflokknum.

Viðreisn hefur sömuleiðis kynnt lista í öllum kjördæmum. 42 hafa aldrei boðið sig fram áður, en 63 hafa áður verið á listum Viðreisnar, þ.e. Í alþingiskosningunum fyrir ári síðan. Ekki kemur á óvart að þrettán frambjóðendur flokksins hafa áður verið í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn, en Viðreisn er klofningsflokkur Sjálfstæðisflokksins.

Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur kynnt lista í öllum kjördæmum. 85 frambjóðendur hafa áður boðið sig fram fyrir hönd flokksins, en átján frambjóðendur hafa aldrei áður boðið sig fram fyrir hönd flokksins.

Þegar öllu er á botninn hvolft er óskandi að ekki verið kosið aftur fyrr en eftir fjögur ár. Það er  einlæg ósk þess sem þetta ritar að hið opinbera safni þeim gögnum saman sem til eru um kosningar og frambjóðendur til Alþingis, sveitastjórna, forseta og svo framvegis og geri öllum aðgengilegt svo ekki þurfi að nota blogsíðu til þess að skrifa pistil sem þennan í hvert skipti sem líður að kosningum til að glöggva sig á fortíð frambjóðenda.

Að lokum á Sigurður Árnason sem heldur úti vefsíðunni www.kosningasaga.wordpress.com hrós skilið fyrir að halda úti þessum umfangsmikla gagnagrunni kosningaupplýsinga sem reglulega er uppfærður og áhugavert að fylgjast með.

Tryggvi Másson

Ritstjórn

Tryggvi er viðskiptafræðingur sem útskrifaðist frá Háskóla Íslands vorið 2016. Hann starfar sem sérfræðingur á Efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins. Tryggvi var hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands skólaárið 2015-2016 ásamt því að sitja í ráðinu og hefur áður setið í stjórn Vöku fls. Aðaláhugamál Tryggva eru félagsstörf, hagsmunabarátta og stjórnmál. Skrif hans í Rómi eru að mestu leyti tengd menntamálum og viðskipta- og efnahagsmálum.