Fortíð allra frambjóðendanna

eftir Tryggvi Másson

Þegar að síðasti pistill var skrifaður áttu Björt framtíð, Píratar, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins eftir að birta sína lista. Þá dróg Íslenska þjóðfylkingin aftur framboðslista sína og Dögun hefur ekki birt heildarlista sinn í Suðurkjördæmi þar sem þau hyggjast bjóða sig fram. Heildarfjöldi þessara frambjóðanda er 1.224 í 10 framboðum.

Líkt og áður eru allar upplýsingar fengnar af vefsíðunni www.kosningasaga.wordpress.com sem sinna afar óeigingjörnu starfi að halda utan um upplýsingar um frambjóðendur til alþingis, sveitastjórna, forseta og fleira. Í ljósi þess að engar opinberar upplýsingar eru til lista stjórnmálaflokka aftur í tímann er sem fyrr settur fyrirvari við upptalninguna. Ekki var hægt að auðkenna hvern frambjóðenda í ljósi þess að aðeins voru til upplýsingar um nafn og atvinnu.

Alþýðufylkingin

Alþýðufylkingin er framboð sem skilgreinir sig yst til vinstri á hinu pólitíska rófi af þeim framboðum sem bjóða fram nú. Alþýðufylkingin er eina framboðið sem ekki skilaði listum í öllum kjördæmunum sex. Alþýðufylkingin skilaði listum í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur, Norðausturkjördæmi og Suðvestur kjördæmi. Af þeim 90 einstaklingum sem bjóða sig fram fyrir flokkinn nú hafa 28 boðið sig fram áður fyrir hann. 21 frambjóðenda hafa boðið sig fram fyrir aðra flokka sem flestir staðsetja sig vinstra megin á hinu pólitíska rófi.

Björt framtíð

Björt framtíð sem sleit ríkisstjórninni í síðasta mánuði býður fram í öllum kjördæmum. Flokkurinn varð til upp úr grasrót Besta flokksins sem og klofning úr Framsóknarflokki og Samfylkingunni. Það má glöggt sjá á frambjóðendum flokkanna sem koma einna helst úr þessum þremur flokkum. 101 af frambjóðendum Bjartar framtíðar hafa þó einvörðungur boðið sig fram fyrir flokkinn eða ekkert annað framboð.

Flokkur fólksins

Flokkur fólksins býður nú fram í annað sinn. Flokkurinn býður fram í öllum framboðum og hefur frambjóðendur hafa mjög breiðan pólitískan bakgrunn, þvert á hitt pólitíska róf. Alls hafa frambjóðendur flokksins boðið sig fram fyrir 21 framboð, eða næst flest allra flokka. Þó hafa alls 69 frambjóðendur ekki boðið sig fram áður.

Framsóknarflokkurinn

Framsóknarflokkurinn er elsti stjórnmálaflokkur á Íslandi en hann varð 100 ára á síðasta ári. Eins og sjá má á súluritinu er ekki mikið um að einstaklingar sem boðið sig hafa fram fyrir aðra flokka færi sig yfir í Framsóknarflokkinn. Því er þó öfugt farið þegar litið er til Framsóknarmanna sem yfirgefið hafa flokkinn. 118 af 126 frambjóðendum flokksins hafa annað hvort aðeins boðið sig fram fyrir Framsókn eða engan annan flokk áður.

Miðflokkurinn

Miðflokkurinn býður nú fram í fyrsta skipti. Flokkurinn er leiddur af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrrverandi forsætisráðherra og er, eins og alþjóð veit, klofningsframboð úr Framsóknarflokknum. Súluritið gefur það glöggt í ljós enda hefur 41 af frambjóðendum flokksins verið í framboði fyrir framsókn. Það er þó athyglisvert að sjá að flokkurinn virðist ná út fyrir flokkslínum Framsóknar en 6 frambjóðendur hafa boðið sig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn í fyrri tíð. Meirihlutinn hefur þó aldrei boðið sig fram áður.

Píratar

Píratar buðu sig fyrst fram til Alþingis árið 2013. Að stofnun flokksins stóðu nokkrir flokksmenn Borgarahreyfingarinnar og síðar Dögunar. Samanlagt er þó aðeins 21 frambjóðenda sem hafa boðið sig fram fyrir aðra flokka. Það er sambærilegt því sem gerist hjá Bjartri framtíð og Viðreisn. Þar af leiðandi eru 105 af 126 frambjóðendum sem hafa aðeins boðið sig fram fyrir Pírata.

Samfylkingin

Samfylkingin hefur kynnt sína lista í öllum kjördæmum. 55 frambjóðendur hafa boðið sig fram áður fyrir flokkinn en einnig eru 15 frambjóðendur sem buðu sig fram fyrir Alþýðuflokk og Alþýðubandalagið sem eru forverar Samfylkingunnar. Þess utan hafa 22 boðið sig fram fyrir önnur framboð.

Sjálfstæðisflokkurinn

Hjá Sjálfstæðisflokknum hafa líkt og hjá Framsóknarflokknum fáir boðið sig fram fyrir aðra flokka. Það má skýra að hluta af því að flokkarni eru langsamlega elstu flokkar landsins. Af frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins hafa aðeins 3 boðið sig fram fyrir aðra flokka sem er lægst af öllum flokkunum.

Viðreisn

Viðreisn bauð fyrst fram fyrir ári í síðustu alþingiskosningum en flokkurinn er klofningsframboð evrusinnaðra Sjálfstæðismanna. Fyrir vikið hafa 13 frambjóðendur Viðreisnar boðið sig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Annars hafa 105 frambjóðendanna aðeins boðið sig fram fyrir Viðreisn eða aldrei boðið sig fram áður.

Vinstri hreyfingin grænt framboð

Vinstri hreyfingin grænt framboð eða Vinstri græn eins og flokkurinn kallast í daglegu tali hefur kynnt alla sína framboðslista. 9 frambjóðendur flokksins buðu sig fram fyrir Alþýðubandalagið en hluti þeirra flokksmanna stofnuðu Vinstri græn í stað þess að ganga til lið við Samfylkinguna við stofnun hennar. Mikill meirihluti frambjóðenda hefur þó eingöngu boðið sig fram fyrir Vinstri græn.

Fyrrum framsóknarmenn finnast víða

Ef þær upplýsingar sem fram hafa komið eru flokkaðar í þrennt í fyrsta lagi þá sem hafa boðið sig áður fram fyrir núverandi flokk, öðru lagi þá sem hafa aldrei boðið sig fram og í þriðja lagi þá sem hafa boðið sig fram fyrir annan flokk má sjá athyglisverða mynd. Sá sem hefur flesta frambjóðendur sem hafa boðið sig fram áður fyrir núverandi flokk er Sjálfstæðisflokkurinn. Það má skýrast af því að flokkurinn býður fram nánast sömu lista og hann bauð fram fyrir ári síðan. Töluvert á eftir þeim koma Framsóknarflokkur og Vinstri græn.

Í ljósi þess að ekki er liðið lengra en ár síðan að gengið var að kjörkassanum seinast kemur verulega á óvart hversu mikil nýliðun var á framboðslistum Flokks fólksins en á þessu ári hefur flokkurinn verið að mælast með töluvert meira fylgi en hann hlaut í síðustu kosningum. Sá flokkur þar sem flestir eru í framboði sem hafa ekki verið í framboði áður er Miðflokkurinn. En alls telja þeir aðilar 76 manns. Sama má segja um þá sem hafa boðið sig fram fyrir aðra flokka en 50 frambjóðendur Miðflokksins hafa gert það.

Eins og hefði mátt búast við hafa flestir þeirra sem eru í framboði nú verið í framboði fyrir Framsóknarflokkinn áður. Það vill svo skemmtilega til að heildarfjöldi þeirra eru 63, eða jafnmargir og sitja á Alþingi. Því væri hægt að fylla öll sæti Alþingis með fyrrum framsóknarmönnum. Við því má bæta að fyrrum framsóknarmenn má finna í öllum framboðum nema Sjálfstæðisflokks og Alþýðufylkingarinnar.

Það hefur verið afar áhugavert að taka saman þessa upplýsingar og ítreka ég von mína að þessar upplýsingar verði gerðar aðgengilegar almenningi á komandi árum. Samfara háværari kröfu um aukið gagnsæi í stjórnmálum væri gagnlegt að opinberar upplýsingar sem þessar væru aðgengilegar öllum á stafrænu formi eins langt aftur og mögulegt er.

Að lokum má til með að ítreka þakkir til Sigurðar Árnasonar sem heldur vefsíðunni www.kosningasaga.wordpress.com þar sem sem allar heimildir fyrir þennan pistil má finna og meira til.

Tryggvi Másson

Ritstjórn

Tryggvi er viðskiptafræðingur sem útskrifaðist frá Háskóla Íslands vorið 2016. Hann starfar sem sérfræðingur á Efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins. Tryggvi var hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands skólaárið 2015-2016 ásamt því að sitja í ráðinu og hefur áður setið í stjórn Vöku fls. Aðaláhugamál Tryggva eru félagsstörf, hagsmunabarátta og stjórnmál. Skrif hans í Rómi eru að mestu leyti tengd menntamálum og viðskipta- og efnahagsmálum.