Á milli steins og sleggju

eftir Ísak Einar Rúnarsson

Formannskosningar Samfylkingarinnar fyrir skemmstu mörkuðu ákveðin ekki-tímamót. Þau gerðu það í þeim skilningi að flokkurinn virðist hafa tekið þá afstöðu, í gegnum formannskjörið, að staðsetja sig áfram alllangt til vinstri en sækja ekki inn á miðju að nýju. Í huga þess sem ritar hefur niðurstaðan minna að gera með einstaklingana sem áttust að heldur en undirölduna í flokknum.

Valið virtist að utan séð standa á milli þess að kjósa Oddnýju G. Harðardóttur eða Magnús Orra Schram og flest þungavigtarfólk innan flokksins skiptist á að lýsa yfir stuðningi við annað hvort þeirra. Sú skipting að þau sem töldust lengra til vinstri studdu Oddnýju en þeir sem voru nær miðju studdu Magnús Orra.

Til dæmis má nefna að í hópi stuðningsmanna Oddnýjar voru þær Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi formaður flokksins og forsætisráðherra, og Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður. Í stuðningsmannahópi Magnúsar Orra voru Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður flokksins og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri sem hljóta að teljast öllu nær miðju en þær stöllur Jóhanna og Ólína. Flokkurinn ákvað sem sagt að halda kúrs og velja Oddnýju til þess að leiða flokkinn.

Eins og tveir ólíkir flokkar

Nær allan fyrsta áratug þessarar aldar sótti Samfylkingin stíft inn að miðju og hampaði að mörgu leyti hinni svokölluðu ‚þriðju leið‘ sem bæði Demókratar höfðu gert í Bandaríkjunum og Verkamannaflokkurinn í Bretlandi með stórgóðum árangri í kosningum. Til að mynda var Tony Blair fyrsti leiðtogi Verkamannaflokksins í Bretlandi til þess að sitja á forsætisráðherrastóli í lengur en tvö kjörtímabil.

Þriðja leiðin er í grundvallaratriðum miðjuhyggja sem gengur út á að tryggja heilbrigð ríkisfjármál og stöðugt efnahagsástand í bland við klassískar áherslur vinstri vængsins um félagsleg réttindi og sterkt velferðarkerfi.

Samfylkingin sótti svo hart inn að miðju að mörgum áhrifamönnum innan Sjálfstæðisflokksins varð heldur til órótt, en fyrir hrun var flokkurinn sennilega einna líkastur því sem Viðreisn er í dag.

Til þess að átta sig betur á muninum á milli Samfylkingarinnar fyrir og eftir hrun má til dæmis bera saman stjórnmálaályktun flokksins í fyrra við stjórnmálaályktun árið 2003.

Í ályktuninni árið 2003 stóð t.d.: „Samfylkingin vill beita sér fyrir framtíðarlausn í heilbrigðismálum þjóðarinnar þar sem nýjar leiðir og fjölbreyttari rekstrarform, svo sem þjónustusamningar og einkaframkvæmd eru skoðuð, án þess að missa sjónar af þeirri stefnumörkun flokksins að allir hafi jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.“

Árið 2015 stóð hins vegar: „Heilbrigðisþjónustu á að fjármagna með almennu skattfé og lækka þarf strax greiðslur almennings fyrir þá þjónustu.“

Hverjir munu þá kjósa Samfylkinguna

Sú spurning hlýtur því að vakna til hvers Samfylkingin sé að höfða, því nú um þessar mundir er ansi þröngt setið á vinstri kanti stjórnmálanna sem sást einna best í þeim aragrúa hreyfinga sem spruttu upp fyrir síðustu alþingiskosningar en náðu ekki mönnum inn. Eins og staðan er í dag er erfitt að greina mun á milli Vinstri grænna og Samfylkingarinnar ef frá eru talin Evrópusambandsmálin.

Evrópusambandsaðildin er því í raun eina haldreipi Samfylkingarinnar þegar kemur að fylgi nær miðjunni en þar er samkeppnin þó einnig hörð. Jafnt frá Bjartri Framtíð, sem er að vísu sjálf í tilvistarkreppu, en einnig frá hinni nýstofnuðu stjórnmálahreyfingu, Viðreisn.

Kjósendahópur Samfylkingarinnar virðist því ætla að vera eingöngu þeir sem eru ekki nógu vinstri sinnaðir fyrir VG en ekki nógu langt til hægri til þess að kjósa Bjarta Framtíð eða Viðreisn. Af lýsingunni hér á undan að dæma er því alla jafna ljóst að vandamál flokksins verður ekki leyst einvörðungu með formannsskiptum heldur þarf flokkurinn með einhverjum ráðum að skírskota til mun breiðari kjósendahóps til þess að eiga möguleika á að ná því fylgi sem hann fékk á fyrsta áratugi þessarar aldar. Hvort flokkurinn hafi burði til þess að gera það stendur þó áfram ósvarað.2016_06_10 fylgi samfylkingarinnar 1

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund

Ísak Einar Rúnarsson

Pistlahöfundur

Ísak starfar sem sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs Íslands. Hann hefur áður starfað fyrir Háskóla Íslands, var formaður Stúdentaráðs og blaðamaður á Morgunblaðinu og Viðskiptablaðinu.