Fólkið sem vill verða forseti

eftir Elín Margrét Böðvarsdóttir

Í apríl velja Frakkar sér sjöunda forseta fimmta lýðveldisins. Fyrsta umferð forsetakosninganna fer fram þann 23. apríl en hljóti enginn frambjóðenda hreinan meirihluta atkvæða þarf að kjósa aftur á milli tveggja efstu frambjóðendanna þann 7. maí.

Francois Hollande, Frakklandsforseti, lætur senn af embætti en hann hefur líkt og þekkt er orðið lýst því yfir að hann muni ekki sækjast eftir endurkjöri. Áhugavert verður að fylgjast með gangi mála í Frakklandi á næstunni en óhætt er að segja að ýmislegt hafi gengið á að undanförnu.

Kerfið í Frakklandi og völd forseta

Þó fimmta lýðveldi Frakklands sé frekar ungt er Frakkland þó eitt af elstu þjóðríkjum í Evrópu. Frakkar eiga ríka og langa sögu, ekki síður hvað varðar stjórnmál og valdabaráttu, en fimmta lýðveldið var stofnað árið 1958 sem tilraun til að auka stjórnmálalegan stöðugleika í landinu. Þá voru völd forseta aukin en frá árinu 1962 hefur forseti verið kjörinn í beinum kosningum. Þingið er valdaminna og skiptist í tvær deildir en dómstólar hafa jafnframt takmarkað endurskoðunarvald.

Frakkland er svokallað samþætt ríki (e. unitary state) sem skiptist í 22 svæði eða héröð en í landinu er löng hefð fyrir mikilli miðstýringu frá höfuðborginni París. Stjórnkerfið sem er við lýð í Frakklandi er svokallað forsetaþingræði (e. semi-presidentialism), sem er eins konar blanda forsetaræðis (eins og t.d. í Bandaríkjunum) og þingræðis (eins og t.d. á Íslandi).

Frakklandsforseti er kjörinn í beinni kosningu en til þess að hljóta brautargengi þarf frambjóðandi að fá hreinan meirihluta atkvæða. Hollande fékk til að mynda ekki nema 28.63% í fyrri umferð kosninganna árið 2012 svo kjósa þurfti aftur á milli hans og mótframbjóðenda hans, Nicolas Sarkozy. Í annarri umferð hlaut Hollande aftur á móti 51.64% atkvæða sem tryggði honum sigurinn. Forseti er nú kjörinn til fimm ára en áður var kjörtímabilið sjö ár.

Meðal þeirra verkefna sem eru í verkahring forseta er val forsætisráðherra og skipan ráðherra í ríkisstjórn í samráði við þann forsætisráðherra sem verður fyrir valinu. Forseti er þjóðhöfðingi sem að hluta til skiptir verkum með forsætisráðherra, sem gjarnan stendur í skugga forsetans. Forsetinn er t.a.m. æðsti yfirmaður hersins og helsti málsvari og andlit þjóðarinnar í utanríkismálum.

Forseti getur með samþykki þings eða ríkisstjórnar efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu í mikilvægum málum og getur meira að segja vikið forsætisráðherra úr embætti, en slíkt er þó afar fátítt. Loks hefur forseti vald til að rjúfa þing og boða til kosninga, þó aðeins að höfðu samráði við forsætisráðherra og leiðtoga þingsins.

Kosningaþátttaka er jafnan hvað mest i forsetakosningum í Frakklandi en hvað minnst í þjóðaratkvæðagreiðslum og til Evrópuþingsins, líkt og algengt er reyndar í flestum aðildarríkjum Evrópusambandsins. Í síðustu forsetakosningum var kosningaþátttaka um 80% en í kosningunum árið 2007 var þátttakan um 84%. Frambjóðendur sem gefa kost á sér í forsetakosningum verða að gera það í nafni einhvers stjórnmálaflokks en almennt er það ekki algengt að Frakkar séu skráðir í stjórnmálaflokk.

Hverjir eru í framboði?

Benoit Hamon bar sigur úr býtum í seinni umferð forkosninga Sósíalistaflokksins um helgina og tekur hann því við af Hollande sem forsetaefni sósíalista í komandi kosningum.

Samkvæmt skoðanakönnunum njóta Francois Fillon, frambjóðandi Repúblíkanaflokksins og Marine Le Pen, frambjóðandi frönsku Þjóðfylkingarinnar, National Front, mests fylgis sem stendur. Fast á hæla þeirra kemur Emmanuel Macron, fyrrum fjármálaráðherra landsins, þá Benoit Hamon og loks Jean-Luc Mélenchon, frambjóðandi vinstriflokksins Unsubmissive France. Auk þeirra eru fleiri í framboði sem njóta þó talsvert minna fylgis og enn eiga línur eftir að skýrast frekar áður en Frakkar ganga til kosninga í apríl.

Sá sem mælst hefur með hvað mest fylgi að undanförnu er sem fyrr segir forsetaefni íhaldsmanna, Repúblikaninn François Fillon. Óhætt er þó að segja að gustað hafi um hann að undanförnu. Fillon er sakaður um fjármálamisferli í embættistíð sinni sem öldungadeildarþingmaður en hann er sagður hafa greitt eiginkonu sinni óeðlilegar fjárhæðir í laun úr opinberum sjóðum, án fullnægjandi skýringa. Hefur mannorð hans beðið hnekki síðan málið kom upp í fjölmiðlum fyrir ekki alls löngu síðan og kann málið að kosta hann baráttuna.

Málið er nú til rannsóknar en Fillon hefur lýst því yfir að verði hann fundinn sekur muni hann draga framboð sitt til baka. Fari svo að Fillon dragi framboðið til baka gætu íhaldsmenn þurft að byrja kosningabaráttu sína aftur á byrjunarreit. Alain Juppé, sá er laut í lægra haldi gegn Fillon í forkosningum Repúblikana, kveðst ekki munu gefa kost á sér í stað Fillon.

Sá frambjóðandi sem e.t.v. kann að njóta góðs af sigri Hamons á vinstri vængnum er Emmanuel Macron, fyrrverandi fjármálaráðherra í ríkisstjórn Hollande. Macron fer fram fyrir hönd nýs miðju-stjórnmálaafls, En Marche!, sem hann sjálfur stofnaði.

Le Pen og kallinn í Hvíta húsinu

Stjórnmál í Frakklandi, líkt og reyndar víða í heiminum, hafa jafnan þótt nokkuð karllæg og eru konur í miklum minnihluta í stjórnmálum í landinu. Aldrei hefur kona gegnt embætti forseta en gæti verið að það breytist með kosningunum í ár? Vonandi ekki. Sú afstaða mín hefur að sjálfsögðu ekkert með það að gera að ég telji konu ekki eiga að gegna embættinu, heldur er það Marine Le Pen, forsetaefni National Front, sem mér hugnast ekki, en Le Pen mælist með mest fylgi þeirra fáu kvenna sem eru í framboði.

Le Pen er sem fyrr segir formaður Þjóðfylkingarinnar, National Front, hægri íhalds- og þjóðernishyggjuflokks, sem til að mynda er þekktur fyrir harða stefnu í innflytjendamálum og andstöðu við Evrópusambandið.

Forsetaefni á borð við Le Pen á að mínu mati ekkert erindi í forsetaembættið og er ekki það sem Frakkar né Evrópa þurfa á að halda. Ekki síður í ljósi þess sem er að gerast vestanhafs, þar sem nýi kallinn í Hvíta húsinu hefur heldur betur látið til sín taka. Le Pen hefur einmitt sést á vappinu við Trump-turninn nýlega en þó hún segist ekki hafa fundað með Trump, hefur hún þó lýst því yfir að hún telji kjör Trump vera skref í rétta átt.

Að ýmsu að huga

Að frátöldu því sem á hefur gengið í aðdraganda forsetakosninganna og greint hefur verið frá hér að ofan, eru nokkur atriði til viðbótar sem vert er að hafa í huga.

Enn eru í gildi lög um neyðarástand sem Hollande lét setja á í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París kvöldið 13. nóvember 2015 þar sem 130 manns féllu. Þá létu 84 einnig lífið í hryðjuverkaárás í Nice í sumar. Lögum um neyðarástand hefur nú verið framlengt alls fimm sinnum frá því að þau voru sett á og verða þau í gildi a.m.k. fram yfir forsetakosningar.

Þá hefur varnarmálaráðherra Frakklands til að mynda lýst yfir áhyggjum sínum og gerðar hafa verið sérstakar varúðarráðstafanir vegna yfirvofandi ógnar sem stafar af tölvuþjótum og áróðri úr austri, sem kunni að leitast við að hafa áhrif á niðurstöðu kosninganna. Loks hefur umdeild vinnulöggjöf valdið fjaðrafoki í landinu svo örfá dæmi séu nefnd en nú verður forvitnilegt að sjá hvað bíður Frakka þegar talið verður upp úr kjörkössunum í vor.

Elín Margrét Böðvarsdóttir

Pistlahöfundur

Elín Margrét er nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og fréttamaður á Stöð 2. Hún starfaði áður sem blaðamaður á mbl.is og Morgunblaðinu og ritstýrði Stúdentablaðinu skólaárið 2016-2017. Hún er einn stofnenda og fyrrverandi varaformaður ungmennaráðs UN Women á Íslandi og hefur einnig tekið þátt í starfi Vöku fls.