Fólkið á bakvið stjórnmálamennina

eftir Ísak Einar Rúnarsson

Eftir kjör Þorsteins Pálssonar í formannsstól Sjálfstæðisflokksins boðaði hann stuðningsmenn sína til fögnuðar. Sagan segir að þar hafi Þorsteinn tilkynnt að „nú væru engir Þorsteins-menn lengur“. Sennilega ætlaði hann sér að sameina flokkinn og stilla til friðar innan flokksins. Stuðningsmenn Þorsteins, sem margir höfðu lagt mikið undir til þess að hann yrði formaður, heyrðu hins vegar foringja sinn snúa við sér baki. Þeir heyrðu hann segja að hann myndi ekki reiða sig á það fólk sem hafði hjálpað honum hvað mest við stjórnun flokksins. Sumir myndu ef til vill segja að þarna hafi Þorsteinn tekið fyrir að láta vinatengsl ráða för við stjórnun flokksins. Hins vegar breytir það því ekki að haft er á orði að með þessari yfirlýsingu hafi upphafið af endalokum formannstíðar Þorsteins hafist með pólitískum erkimistökum.

Það er áhugavert að skoða og velta fyrir sér hvað á sér stað þegar það gerist að stjórnmálaleiðtogum er hafnað af eigin flokki en ekki af kjósendum með beinum hætti. Slíkt henti Margaret Thatcher, fyrrum forsætisráðherra Breta, sem sigraði hverjar almennar kosningar á fætur öðrum en missti að lokum tiltrú samflokksmanna sinna og var steypt af stóli af sínum eigin flokki.

Meira um pólitískar skipanir vestanhafs

Í Bandaríkjunum er þekkt að einstaka stjórnmálamenn séu eins og fyrirtæki. Með fjölda starfsmanna í vinnu allan ársins hring að byggja upp opinbera ímynd frambjóðandans. Þar er jafnframt ríkari hefð fyrir pólitískum skipunum með tilkomu nýs forseta svo dæmi séu nefnd. Nákvæm tala er nokkuð á reiki og breytist að einhverju leyti með hverjum kjörnum forseta en fjöldi pólitískra skipana hleypur á þúsundum.

Á Íslandi reiða stjórnmálamenn sig yfirleitt á hópa sjálfboðaliða. Oft er talað um íþróttafélög, kvennasamtök eða önnur félagasamtök séu á bakvið ákveðna aðila. Þegar frambjóðandi nær kjöri er ekki ólíklegt að hann finni leiðir til þess að styrkja fjármögnun viðkomandi félagsskapar eða styðja hann að öðru leyti. Þannig lýsti gamalreyndur pólitískur refur, Össur Skarphéðinsson, því í bók sinni Ár drekans að honum hafi þótt nauðsynlegt sem utanríkisráðherra að nota ráðstöfunarfé ráðherra til þess að styrkja skákmót sem Hrafn Jökulsson stóð fyrir. Þegar lestri bókarinnar vatt fram kom svo í ljós að sami Hrafn Jökulsson var kosningastjóri Össurar í prófkjöri og hafði verið um langt skeið. Mögulega deila þeir áhuga á skák og lífssýn í pólitík en hinn möguleikinn er að hér sé um einfalt kaup kaups að ræða. Líklegast er það beggja blands.

Stjórnmálamenn hámarka fjölda atkvæða

Miðað við hversu sterkt bakland er innbyggt inn í bandaríska stjórnkerfið má leiða að því líkum að þar sé ólíklegra að stjórnmálamenn séu felldir af eigin flokki. Í sumum dæmum eiga mörg þúsund manns lifibrauð sitt undir áframhaldandi velgengni síns stjórnmálamanns. Hér heima og í mörgum öðrum löndum hafa stjórnmálamenn ekki jafn ríkuleg tæki til þess að umbuna stuðningsmönnum sínum. Ef gengið er út frá því að stjórnmálamenn hámarki fjölda atkvæða í störfum sínum eins og gert er í almannavalsfræðum má því gera ráð fyrir sterkari hvatar séu fyrir stjórnmálamenn að beita vafasömum aðferðum við að launa stuðning hér heldur en vestanhafs.

Hér á landi hefur þó verið sterkt ákall um að koma í veg fyrir spillingu í störfum kjörinna aðila. Ef markmiðið er að ná raunverulegum árangi í þá átt er vert að menn spyrji sig hvort það gæti reynst heppileg lausn að draga úr vægi opinberra embættismanna innan stjórnkerfisins og byggja frekar á pólitískum skipunum. Því það eitt er víst að stjórnmálamenn munu finna sig knúna til að launa stuðning, því ekki vilja þeir láta steypa sér af stóli eins og Þorsteini Pálssyni.

Ísak Einar Rúnarsson

Pistlahöfundur

Ísak starfar sem sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs Íslands. Hann hefur áður starfað fyrir Háskóla Íslands, var formaður Stúdentaráðs og blaðamaður á Morgunblaðinu og Viðskiptablaðinu.