Flúið til Frakklands

eftir Ritstjórn

Um þessar mundir stendur yfir Evrópumót karlalandsliða í knattspyrnu í Frakklandi. Skyldir þú, lesandi góður, hafa verið búsettur í helli síðasta árið eða svo – kemur þér ef til vill á óvart að íslenska landsliðið er þar þátttakandi. Af því tilefni virðast allir Íslendingar hafa keypt sér flugmiða til Frakklands og valsa nú um sólríkar vínekrur landsins, í fánalitum heimamanna.

Það munaði þó mjóu um að Íslendingar kæmust á meginlandið yfir höfuð, því til þess þarf annað hvort að fljúga eða að sigla – vegna þess að Ísland er eyja – og hér á landi eru nokkrar starfsstéttir sem geta komið í veg fyrir þessa flutningskosti. Ein þeirra stétta eru flugumferðarstjórar. Þeir hafa í raun tök á því að ákveða hverjir koma og fara frá landinu flugleiðis og við skulum því kalla þá landráðamenn. Landráðamennirnir eru hátekjuhópur sem stendur í kjaradeilum við vinnuveitenda sinn.

Þeir ákváðu í því samhengi að beita því valdi sem þeir hafa til þess að krefjast enn hærri tekna en þeir lögðu á yfirvinnubann og bönnuðu alla þjálfun. Eftir að hafa sett á yfirvinnubannið fengu landráðamennirnir svo á óútskýranlegan hátt flensu svo fresta þurfti ótal flugum því ekki var nægilega mikið af starfsmönnum til að stýra flugumferðinni.

Þegar „verkfallsréttur“ á ekki við

Launakröfur landráðamannanna voru ekki eðlilegar. Þeim fannst ofurhækkanirnar í SALEK samkomulaginu ekki nægilega miklar og vildu um 60% launahækkun. Það var ofan á meðallaun þeirra upp á milljón krónur á mánuði.

Án þess að fara of mikið út í þá sálma þá er hægt að skilja þær stéttir sem líta svo á að þau hafi „orðið eftir“ í launahækkanafarganinu undanfarin ár, og krefjast því launahækkana. En þegar hátekjustétt eins og landráðamannastéttin krefst jafnhárra launahækkana og raun ber vitni er hún aðeins að því vegna þess að þau eru í stöðu til þess að þvinga hönd laungreiðandans. Ef flug leggst af þá er eyjan lokuð og hvenær er betri tími til þess að gera það en núna: þegar ferðamannaiðnaðurinn hefur aldrei verið sterkari og ferðamannatímabilið er rétt að byrja? Einhverjir myndu kalla þetta fjárkúgun.

Blessunarlega fyrir viðskiptajöfnuð Íslendinga, geðheilsu ferða- og fótboltaáhugamanna og launaviðræður í framtíðinni stigu stjórnvöld inn í leikinn og gáfu landráðamönnunum rauða spjaldið. Það er kaldhæðni örlaganna í ljósi þess að flugin lögðust af vegna hreysti (eða skort á því, öllu heldur) landráðamannanna, að ráðherrann sem lagði bann við yfirvinnubanninu hafði unnið fullt starf í krabbameinsmeðferð síðastliðið hálft ár. En vonandi verða þeir hraustari núna.

Hver þarf peninga?

27 þúsund íslendingar sóttu miða á Evrópumótið í knattspyrnu sem eru 8% þjóðarinnar. Það kemur þó ekki á sök fyrir fólksfjöldann hér á landi en það verða örugglega tvöfalt fleiri ferðamenn á sama tíma í miðbæ Reykjavíkur. Í skýrslu Íslandsbanka um ferðaþjónustuna spáðu þeir að það yrði 29% fleiri ferðamenn hér á landi í ár en í fyrra sem samsavarar yfir 1.650.000 manns eða fimm ferðamenn á hvern íbúa.

Það sem kemur þó að sök er að gjaldeyrisflæðið fer örugglega í vitlausa átt. Ekki hefur enn fundist almennileg leið til þess að hafa af ferðamönnum tekjur því fyrst þarf augljóslega að finna upp hjólið, í stað þess að fara sömu leiðir og aðrar þjóðir sem taka á móti ferðamönnum. Til dæmis eins og Frakkar og þeirra gistináttaskattur og vegtollar. Þangað til verða Íslendingar að lifa með því að niðurgreiða alla ferðamenn.

Þegar einn af hverjum sex verða ferðamenn, á hverjum tíma

Það er löngu kominn tími til að búa svo um ferðaþjónustuna að landráðamenn geti ekki kollvarpað henni og að meiri tekjur fáist af ferðamönnum. Meðalvöxtur ferðamanna á milli 2010 og 2016, ef við gerum ráð fyrir að spá Íslandsbanka standist, var um 23%. Ef við gerum ráð fyrir 20% aukningu til 2020 verða hér langt yfir 3 milljón ferðamenn. Tvöföldun á fjórum árum!

2016_06_11 ferdamenn

Í áðurnefndri skýrslu Íslandsbanka kom fram að á þessu ári verða að meðaltali 30.000 ferðamenn á Íslandi á hverjum tíma. Ef það er framreiknað miðað við óbreyttar aðstæður þýðir það að árið 2020 verði hér yfir 60.000 ferðamenn á hverjum tíma. Hvað þýðir það? Jú, á hverjum tíma verða ferðamenn um þrefalt fleiri en háskólanemendur.

 

Ljósmynd eftir Stefán Pálsson.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.