Fljúga hvítu flygildin fyrir utan glugga?

eftir Jórunn Pála Jónasdóttir

Löggjafinn á oft á tíðum erfitt með að halda í við nýjustu framfarir í tæknimálum. Ástæðan er gjarnan sú að það getur verið erfitt að setja lög eða reglur um tækni sem er nýframkomin á sjónarsviðið og á líklega eftir að þróast hratt á fáeinum árum – eða einmitt á jafnlöngum tíma og það tekur að semja eitt frumvarp og koma í gegnum þingið. Annað sem getur verið vandasamt er hver eigi að ákveða hvað skuli gilda um tækni og vísindi. Eru það sérfróðir vísindamenn, lýðræðislega kjörnir þingfulltrúar, dómkvaddir matsmenn eða hugsanlega dómarar?

Drónar eða flygildi eru dæmi um fyrirbæri sem hafa á stuttum tíma orðið útbreidd meðal almennings og samhliða því hefur umræðan um þörf á því að setja sérstakar reglur eða lög um dróna aukist. Margt getur legið að baki en sem dæmi var flug dróna á dagskrá aðalfundar Landssambands veiðifélaga árið 2015 þar sem undirfélögum var bent á að banna flug dróna til að tryggja frið við árnar.

En drónar eru ekki eingöngu til trafala og þeir hafa nú þegar opnað á nýja möguleika á ýmsum sviðum. Augljóst er að þeir koma sér vel fyrir myndatöku bæði til einkaafnota og náttúrufræðirannsókna en þeir hafa einnig komið við sögu í atvinnulífi. Á Íslandi hafa til að mynda verið stofnuð fyrirtæki og félög utan um rekstur þeim tengdum. Einnig hefur verið nefnt hvort drónar gætu gagnast í smalamennsku og með sama hætti gætu þeir einnig komið sér vel í störfum björgunarsveita við leit að fólki. Þá hefur verið bent á að drónar geti aukið aðgengi fatlaðra og hreyfihamlaðra að náttúruperlum. Það liggur því fyrir að á næstu árum gætu þeir orðið enn algengari og nýting þeirra aukist.

Öryggissjónarmið

Nýja tækni þarf ekki að hræðast að ástæðulausu en þó er mikilvægt að hafa í huga tilvik sem upp gætu komið. Í Austurríki munaði nýlega mjóu að skíðakappi yrði undir dróna sem hrapaði á brautina. Slík atvik geta orsakast bæði af tækjabilun eða mannlegum mistökum og vissara að gera ráð fyrir við val á flugstöðum. Blessunarlega hafa ekki orðið slys á fólki hér á landi vegna dróna en þó hafa ýmsir bent á tilvik þar sem drónar eru í miklu návígi við fólk og spurningar um öryggi vaknað í kjölfarið. Eins og fjallað var um nýlega meðal annars á mbl.is ferðaðist söngvari Muse, Matt Bellamy, til dæmis um landið með dróna og birti upptökur þar sem dróninn sést taka á loft við Gullfoss sem er einn fjölmennasti ferðamannastaður landsins. Þá tók ég á móti austurrískum ferðamönnum í júlí sem höfðu svipaða sögu að segja eftir ferðalag sitt um landið. Á Þingvöllum var að þeirra sögn dróna flogið svo nálægt mannfjölda á svæðinu að annar þeirra gaf sig á tal við stjórnenda drónans og bað hann um að lenda tækinu. Stjórnandi drónans svaraði að á Íslandi væri ekki ólöglegt að fljúga dróna. Ferðamaðurinn og gestur minn svaraði að það væri víst ólöglegt, bara svo að viðkomandi myndi stöðva flugið. Hvor hafði rétt fyrir sér?

Friðhelgissjónarmið

Vegna friðhelgis- og persónuverndarsjónarmiða þarf að skilgreina hvenær notkun dróna með myndavélum sé heimil, bæði gagnvart opinberum og einkaaðilum. Af sömu ástæðum rekumst við á annað vandamál sem fylgir því að drónar eru ekki skráðir á ákveðinn ábyrgðaraðila: Hver yrðu fyrstu viðbrögð einhvers sem tekur eftir dróna fyrir utan gluggann heima hjá sér, sem gæti hugsanlega verið að taka upp mynd? Sennilega væri eðlilegt að hringja á lögregluna svipað og sá sem kemur að ljósmyndara fyrir utan gluggann sinn myndi gera. En í núverandi kerfi er ekki víst að lögreglan gæti gert neitt í tilviki drónans jafnvel þótt hann yrði klófestur með einhverjum hætti þar sem stjórnandi drónans gæti verið í hvarfi. Þetta skapar aðstæður sem borgarar hafa ekki staðið frammi fyrir áður og í Bandaríkjunum eru mörg dæmi þess að fasteignareigendur hafi tekið lögin í sínar eigin hendur og skotið niður dróna á flugi yfir fasteignum þeirra þar sem þótti brotið gegn friðhelgi þeirra.

Hvaða reglur gilda um flug dróna á Íslandi?

Engar sérstakar reglur eða lög hafa verið settar um flug dróna en reglugerð um ómönnuð loftför hefur verið í vinnslu hjá innanríkisráðuneytinu síðan 2014 og hafa drög að henni verið aðgengileg á heimasíðu innanríkisráðuneytisins síðan í október 2015. Þrátt fyrir að reglugerðin hafi ekki tekið gildi hefur Samgöngustofa þó gefið út upplýsingabréf með samantekt um þær reglur sem gildi um starfrækslu ómannaðra loftfara. Þar kemur fram að um ómönnuð loftför gildi almennt sömu reglur og um mönnuð loftför en að Samgöngustofa líti svo á að reglur um flugvélalíkön nái einnig til ómannaðra loftfara. Velta má fyrir sér hvaða þýðingu það myndi hafa fyrir dómsstólum að Samgöngustofa líti svo á að ofangreindar reglur gildi en það yrði sjálfstætt álitamál um réttarheimildalegt gildi stjórnsýslufyrirmæla og famsal lagasetningarvalds.  Að auki er vísað til leiðbeiningabæklings Evrópsku flugöryggisstofnunarinnar (EASA) um flug dróna.

Ekki er tekið á með skýrum hætti hvar megi eða megi ekki fljúga drónum heldur er annars vegar bent á reglugerð nr. 770/2010 sem setur takmarkanir við því hvar loftför megi athafna sig og hins vegar Flugmálahandbók (AIP Ísland) þar sem fram kemur í hvaða loftrýmum á Íslandi loftför megi athafna sig. Reglugerðin er ítarleg og erfitt að sjá hvaða takmarkanir gildi en þar segir m.a. að loftförum skuli flogið í nægilegri hæð yfir þéttbýlum hlutum borga, bæja eða þorpa, eða yfir útisamkomum, sem gerir mögulegt, í neyðartilvikum, að lending eigi sér stað án þess að mönnum eða eignum á jörðu niðri sé stofnað í ótilhlýðilega hættu. Samkvæmt þessu virðist flug yfir fjölmenni, svo sem ferðamannastöðum og fjöldasamkomum vera leyfilegt svo fremi sem framangreint skilyrði um nauðlendingu sé virt.

Út frá þeim öryggis- og friðhelgissjónarmiðum sem fjallað var um hér að framan vekur einnig athygli að drónar sem eru léttari en 5 kg eru ekki skráningaskyldir, hvorki skv. núverandi lögum um mönnum loftför né fyrrnefndum drögum innanríkisráðuneytisins að nýrri reglugerð dróna. Þeir drónar sem eru aðgengilegir öllum í lausasölu t.d. hjá Elko eru flestir langt undir þessum þyngdarmörkum, sumir allt niður í 1,2 kg.

Hver ber ábyrgð á drónum?

Samgöngustofa bendir á 128. gr. loftferðalaga sem hefur að geyma hlutlæga bótareglu, þ.e. svipaða og gildir um akstur bíla í umferðinni: Nú hlýst af notkun loftfars skaði á mönnum eða hlutum sem eru utan loftfarsins, og er eigandi þess eða, eftir því sem við á, aðili sá sem ber kostnað af rekstri þess skyldur til að bæta skaðann. Ef að tveir drónar rekast á hvorn annan gilda síðan siglingalög um áreksturinn skv. 129. gr. sömu laga. Í þessu samhengi er vert að benda á tvennt. Samkvæmt núgildandi reglum eru drónar undir 5 kg eru ekki skylduvátryggðir líkt og flugvélar og bílar í umferðinni. Hafi eigandi drónans ekki keypt sér tryggingu er hann því bótaskyldur fyrir því tjóni sem verður burtséð frá sök. Samkvæmt drögum innanríkisráðuneytis að nýrri reglugerð um ómönnuð loftför verður skylda að tryggja ómönnuð loftför sem eru þyngri en 30 kg. Verði drögin að veruleika er því einnig ljóst að skyldutrygging mun ná til færri flygilda. Í öðru lagi er ekki sjálfgefið að eigandi drónans finnist þar sem þeim má fjarstýra úr hvarfi.

Fyrirsjáanleiki í lagaumhverfi og almannaöryggi

Að minnsta kosti þrjú ár eru frá því ég sá í fyrsta sinn dróna á flugi á Íslandi en það var á útitónleikum Of Monsters and Men. Þá þótti það merkileg sjón en nú fást þeir víða og margir hafa fjárfest í einum. En maður getur ekki annað en velt því fyrir sér hvort hætta geti stafað af tækjum sem þessum og þá sérstaklega þegar um mikinn mannfjölda er að ræða. Mikilvægt er að koma á fyrirsjáanlegu regluumhverfi sem stjórnendur dróna geti gengið um og til þess að taka fyrir fram af skarið varðandi eitthvað af þeim ótal álitaefni sem upp gætu komið, og þá sérstaklega að gera alla dróna skráningaskylda.

 

Jórunn Pála Jónasdóttir

Pistlahöfundur

Jórunn Pála er lögfræðingur og búsett í Reykjavík. Hún sat áður sem formaður LÍS, hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs formaður Vöku fls., og gjaldkeri Framtíðarinnar í Menntaskólanum í Reykjavík. Hennar helstu áhugamál eru hjólreiðar, fjallgöngur og ferðalög.